06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7593 í B-deild Alþingistíðinda. (5641)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er gott að fá tækifæri til þess að ræða byggðamál með tilliti til þess ástands sem nú ríkir á landsbyggðinni og það er gott að skýrsla Byggðastofnunar liggur fyrir þó að hún segi langt frá því alla sögu um hvernig ástandið er því það er sannarlega hlutverk Byggðastofnunar að hafa fingurinn á slagæð atvinnulífsins á landsbyggðinni og fylgjast með byggðaþróun og stuðla að þjóðfélagslegri hagkvæmni í þróun byggða í landinu svo sem henni er ætlað að gera. En hvað skyldi felast í þessum orðum, þjóðfélagsleg hagkvæmni í þróun byggða? Hvers konar gildismat felst í svona setningu? Er metið hvort skammt er á fiskimið úr byggðarlaginu eða hvort er hentugt að framleiða þar mjólk eða dilkakjöt? Er metið hvort byggðarlagið hentar til ræktunar og iðnaðar, hvort þar er jarðhiti? Ódýra orku talar víst enginn um lengur. Er metið hvort dýrt er að halda uppi samgöngum til byggðarlagsins og er þjóðhagsleg hagkvæmni eingöngu metin í beinum fjárhagslegum afrakstri? Eða er tekið tillit til þess hvort byggðakeðja rofnar falli einhver sveit eða hreppur úr byggð? Er tekið tillit til þess hvers konar mannlíf hefur þróast frá liðnum öldum, tekið tillit til menningarsögulegra hefða um búsetu? Er hugsað til þess að við hvern þann stað sem fellur úr byggð þurrkast út dráttur úr svipmóti og ásýnd þjóðfélagsins? Er hugað að þessum þáttum líka?

Mér hefur lengi verið þetta umhugsunarefni vegna ýmissa ummæla sem sést hafa og heyrst í riti og ræðu á undanförnum árum. Minnisstæðast í þeim efnum er mér skýrsla Framkvæmdastofnunar sálugu árið 1983. Þar var eytt töluverðu blaðsíðuplássi í áhyggjusamlegar vangaveltur um það hve fólkið af landsbyggðinni streymdi á suðvesturhornið og einnig um hve barnsfæðingum fækkaði. Og niðurstaðan var sú, með leyfi hæstv. forseta, ". . . að ef ekki tækist að snúa fólksstraumnum við og ef frjósemi íslenskra kvenna héldi áfram að minnka, þá leiddi það til þess að sífellt yrði erfiðara að manna hinar þýðingarmiklu fiskvinnslustöðvar úti á landi.“

Þetta með frjósemina hefur nú færst í betra horf, en fólkið heldur enn áfram að streyma suður og gætu fleiri á landsbyggðinni komið fasteignum sínum í verð mundi straumurinn verða enn þyngri og verða að flóði.

Ég mótmæli því að það sé litið á byggðirnar við sjávarsíðuna á þennan hátt, sem því miður er að verða nokkuð algengt, að það sé litið á þær sem verstöðvar sem eiga rétt á sér á meðan þær skila arði svo sem eins og síldarverksmiðjurnar forðum og skili þær ekki arði má leggja þær niður án tillits til hvernig mannlíf hefur þróast þar og hvaða menningarverðmæti glatast leggist byggðir af.

Ef svo heldur sem horfir er hætta á að við missum öll tök á þróun búsetu í landinu. Auðlindanýtingin kallar á vissa dreifingu byggðarinnar og nægir til að benda á síldar- og loðnuveiðar og nýtingu innfjarðarækju og skelfiskmiða. Vinnslu afurðanna og þjónustu við íbúana er hins vegar hagkvæmara að stunda á fáum stöðum. Nauðsynlegt er að leita leiða til að samræma þetta mismunandi hagræði atvinnugreina þannig að búsetan verði í byggðarlögum sem fá staðist til lengdar. Án þess háttar stefnumörkunar mun sjávarútvegurinn í vaxandi mæli snúast um að safna saman hráefni til vinnslu erlendis.

Samdráttur í búvöruframleiðslu er nú að koma í ljós í úrvinnslu, verslun og þjónustu á landsbyggðinni. Uppbygging nýrra búgreina er erfiðleikum bundin og umsvif þeirra munu ekki nægja til mótvægis. Auknar og bættar samgöngur, aukin bifreiðaeign og auknar kröfur allra landsmanna til sambærilegra lífskjara hafa þau áhrif að sífellt meiri þjónusta er sótt til höfuðborgarsvæðisins og því er líklegt að sveitabyggð dragist enn frekar saman.

Í skýrslu Byggðastofnunar, Byggð og atvinnulíf 1985, sem kom út um áramót 1986–1987, var í fyrsta sinn kynnt íbúaspá sem framreiknuð var fyrir einstaka landshluta að teknu tilliti til reynslu undanfarinna ára. Mörgum þótti reikningur þessi svartsýnn fyrir hönd landsbyggðarinnar, en því miður hefur hann reynst nokkuð réttur. Það mun reynast erfitt að sporna við þessari þróun. Langvarandi brottflutningur dregur þrótt úr byggðum og dæmi um það má sjá í viljaskorti til að byggja húsnæði víða á landsbyggðinni. Byggðastofnun hefur talið að stjórnvöld hljóti að bregðast við þessari þróun. Öflugt atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni er þjóðinni nauðsynlegt, ekki síst vegna þess hversu mikill hluti útflutningstekna þjóðarbúsins skapast þar. Landsbyggðin er aðalfyrirvinna okkar.

Efling atvinnulífs á landsbyggðinni verður að vera á ábyrgð íbúa hennar og að frumkvæði þeirra. Þróun undanfarinna ára hefur hins vegar dregið úr möguleikum þeirra til að rækja þetta hlutverk sitt. Auk þess er aðstaða þeirra sem vilja stofna eða reka fyrirtæki víðast lakari en á höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnvöld geta því með góðri samvisku lagt atvinnuþróun landsbyggðarinnar lið án þess að hafa áhyggjur af því að þau séu með því að mismuna mönnum óeðlilega. — Og þessa síðustu þætti sem ég var að lesa hef ég lesið upp úr skýrslu Byggðastofnunar.

Það hefur hallað stórum á ógæfuhliðina fyrir landsbyggðina á þessu ári og því hlýtur fólk að spyrja: Hvað vakir fyrir stjórnvöldum með þeirri fjármálastjórn sem þau hafa uppi nú? Er ætlun þeirra að ná því fram með bandvitlausri lánskjaravísitölu og svimháum vöxtum að þau fyrirtæki leggist af sem ekki þola þann aðbúnað? Fari fram sem horfir er ekki fyrirsjáanlegt annað en að fram undan sé stórfelld uppstokkun á eignarhaldi á útflutningsfyrirtækjunum. Margt bendir til að þau verði ekki rekin í félagsformi á næstunni og það verði einstaklingar sem taki þau yfir. Og heimamenn munu tapa í þeim leik.

Það er ekki að verða neitt launungarmál að markvisst er stefnt í þessa átt hvort sem ráðamenn vilja viðurkenna það eða ekki og landsbyggðarfólk verður að horfast í augu við þessa staðreynd og huga að til hvaða ráða sé hægt að grípa.

Búseturöskunin í landinu er þegar ærin, en fari svo að atvinnufyrirtæki í sjávarplássi, sem heldur uppi atvinnu þar, verði dæmt úr leik fer að verða tvísýnt um örlög byggðarlagsins.

Vaxandi flóðbylgja fólks af landsbyggðinni til suðvesturhornsins raskar eðlilegri þróun uppbyggingar þar og veldur þar þenslu og offjárfestingu, en nýting dýrra mannvirkja á landsbyggðinni minnkar að sama skapi. Þetta ástand, sem ég hef verið að lýsa, í stöðu fyrirtækja og búseturöskun blasir við sem staðreynd innan tíðar ef ekki verður tekið á málum.

Sú krafa verður sífellt háværari að þeir sem afla gjaldeyrisins, og þá á ég við sjávarútveginn, megi sjálfir ráðstafa honum og þá á því verði sem markaðurinn vill borga fyrir hann og á þann hátt megi stöðva hina umfangsmiklu blóðmjólkun sjávarsíðunnar. Lausnin kynni að felast í því að taka af stjórnvöldum misnotkunarvaldið til skráningar á gengi krónunnar. Það mætti gera með því að leyfa genginu að vera frjálsu án skráningar eða með því að heimila notkun erlendra gjaldmiðla í viðskiptum. Ef önnur hvor þessara leiða væri notuð mundi koma í ljós að gengið er skráð allt of hátt. Einnig mundi koma í ljós að sjávarútvegurinn er ekkert vandræðabarn heldur meginuppspretta auðsöfnunar þjóðarinnar. Hann hefur bara ekki fengið að njóta þess.

Þess vegna er það trúa mín að það sé ekki eftir neinu að bíða með stefnumörkun um hvernig við viljum búa í þessu landi. Viljum við halda byggðinni á svipuðum nótum og hún er nú? Viljum við stuðla að því að hún færist í það horf að vera færri og stærri þéttbýliskjarnar og dreifðir sveitabæir á milli eða verksmiðjubú? Það verður að fara að liggja fyrir hvaða leið á að fara um byggðaþróun. Fólk á heimtingu á að vita hvers það má vænta í þessum efnum og hvers konar þjóðfélagslegar breytingar við getum sætt okkur við og stjórnvöld verða að leggja fram tillögur sínar um hvernig þau telja eðlilegt að byggð þróist og leggja þær fram fyrir sjónir almennings. Það verður að efla getu byggðanna til að hafa meiri yfirráð um sín eigin mál og slíkt gerist ekki nema þær fái meiri umráð yfir eigin aflafé og að því verður stefna ef einhver þróttur á að geta verið í byggð utan höfuðborgarsvæðisins.

Í umræðum um virðisaukaskattinn í gær ræddi hæstv. fjmrh. um hið háa menningarstig hinna Norðurlandaþjóðanna. Það er víst töluvert mörgum gráðum hærra en okkar Íslendinga því þær skilja nefnilega blessun virðisaukaskatts og matarskatts þar sem við vesalingar erum slegin blindu. Norðmenn og þó einkum Svíar hafa næman skilning á ágæti þess að leggja háa skatta á allar neysluvörur og þjónustu sem síðan er að hluta útdeilt til baka á ýmsan hátt í formi bóta og styrkja sem heita tekjujöfnun og hæstv. fjmrh. trúir mjög á.

Ég er ekki eins trúuð á ágæti þessa fyrirkomulags og hann. Auðvitað er sjálfsagt og rétt að létta byrðar þeirra sem minna mega sín, en það réttlætir ekki þær ráðstafanir að skattpína allan almenning og reyna svo að milda aðgerðirnar með ölmusum. Ég efa að þeir sem trúa fastast á ágæti slíkra ráðstafana hugsi að rótum hvað þær bera í sér. Þær bera það í sér m.a. að fólk sem engist undan ranglæti skattlagningarinnar gengur eins langt og það getur í því að spila á kerfið eins og það heitir, finna átyllu til að krækja sér í styrki og bætur þar sem hægt er og lái þeim það hver sem vill. Svíar eru snillingar í þessari íþrótt að finna út matarholur í kerfinu og setjast að þeim og þykir sá mestur sem finnur flestar. Ég hef trú á að Íslendingar verði ekki eftirbátar Svía í þeim leik. Þessi „bótaútdeilingarforsjárhyggjustefna“ er hættuleg. Hún brýtur niður siðferðiskennd manna, hún brýtur niður virðingu fyrir vinnunni, hún eyðileggur gleði manna hljóti þeir sanngjörn laun fyrir vinnu sína, of mikið er tekið af þeim til þess opinbera sem menn þurfa svo að vera á harðahlaupum við að tína saman í títt nefndum bótum og styrkjum. Er von að nokkur skilji hvaða nauðsyn er á þessu hringsóli fjármunanna? Menn hætta að bera minnstu virðingu fyrir þessu kerfi, reyna bara að snúa á það. Og því nefni ég þetta í þessari umræðu að þetta er nákvæm hliðstæða þess sem er að gerast í sambandi við landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Fjármunir landsbyggðarinnar renna í stríðum straumum til stofnana og banka hér þaðan sem því síðan er út deilt í styrkja-, bóta- og ölmusustíl. Þetta er að brjóta niður sjálfsvirðingu fólks til sjávar og sveita og það brýtur niður tilfinningu fólks hvar í landinu sem það er fyrir því hvar fjármunirnir verða til og í leiðinni brýtur það niður virðingu fólksins fyrir landslögum.