06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7596 í B-deild Alþingistíðinda. (5642)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Er ekki rétt að það sé verið að ræða skýrslu forsrh. um byggðamál? (Forseti: 1. dagskrármálið er til umræðu.) Þá þykir mér í fyrsta lagi við hæfi að hæstv. forsrh. heiðri okkur hér með nærveru sinni í salnum. (Forseti: Forsrh. var hér rétt í þessari andrá og honum verður gert viðvart um þessa athugasemd.) Í öðru lagi, herra forseti, verð ég að segja alveg eins og er að ég held að ég neyðist til að endurtaka einu sinni enn, líklega í tíunda til fimmtánda skipti hér í vetur, ræðu mína um að mér finnst viðvera hæstv. ráðherra á fundum Alþingis neðan við allar hellur. Ég segi það alveg eins og er að ef hæstv. ráðherrar sjá ekki ástæðu til að vera hér við umræður um byggðamál þó að það sé dagskrármál sem heyrir undir hæstv. forsrh., borið fram af honum, leyfi ég mér að segja að það væri venju fremur æskilegt og eðlilegt að til að mynda þeir hæstv. sjútvrh. og hæstv. landbrh. væru viðstaddir þegar verið er að ræða stöðu byggðamálanna í tilefni af þessari skýrslu hæstv. forsrh. Almennt séð er það frekar hvimleitt að hér skuli standa fundir daglangt og nóttlangt dögum og vikum saman án þess að hér sjáist yfirleitt nema 1/11 hluti af hæstv. ríkisstjórn á fundunum, þ.e. sá eini ráðherra sem á dagskrármál til umræðu hverju sinni. Ég leyfi mér sem sagt, herra forseti, í upphafi máls míns að endurflytja þessa ræðu sem ég hef að gefnu tilefni viðhaft nokkrum sinnum áður í vetur.

Hér er til umræðu ársskýrsla Byggðastofnunar, þeirrar stofnunar sem lögum samkvæmt skal sinna byggðamálum á Íslandi og fer með ákveðið fjárveitingarvald í þeim efnum og hefur einnig á sinni könnu upplýsingasöfnun og áætlanagerð o.fl. sem tengist stöðu byggðamálanna. Það er óvenjuvel til fundið að hafa þann árlega sið að ræða byggðamál nú í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í byggðum landsins og í ljósi þess hvert stefnir með byggðaþróun í landinu.

Í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 19. apríl 1988, er sagt frá því að Þorsteinn Pálsson hæstv. forsrh. hafi falið Byggðastofnun að gera heildarúttekt á þróun byggðar í landinu. Tilefnið er greinargerð sem Byggðastofnun tók saman og sendi hæstv. forsrh. þar sem stofnunin lýsti þungum áhyggjum sínum yfir horfum í þessu efni og rökstuddi það m.a. með birtingu gagna. Ég hef einu sinni sem oftar tekið með mér Morgunblaðið í ræðustólinn, herra forseti. Eitt af því sem Byggðastofnun birtir með sinni grg. er súlurit yfir þróun byggðar sem sýnir fólksflutninga til og frá landsbyggðinni. Það merkilega kemur í ljós að á árinu 1983 verða alveg skýr kaflaskil í þessum efnum. Það er sama árið og ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. tók við völdum. Þá gerast þau tíðindi í fyrsta sinn að flutningarnir koma út sem nettótap, hreint tap landsbyggðarinnar. Það hafði ekki gerst síðan fyrir 1970. Síðan er skemmst frá því að segja að þessi óheillaþróun hefur haldist og heldur versnað síðan. Þau fimm ár sem Sjálfstfl. og Framsfl., nú síðast með þriðja aðilann með sér, Alþfl., hafa stjórnað landinu hefur ríkt sérstakt og svart ástand í þessum efnum sem þarf að fara 15 ár aftur í tímann til að finna hliðstæður um. Í raun og veru eru niðurstöðutölur síðasta árs, ársins 1987, Íslandsmet í búseturöskun hversu langt aftur í tímann sem farið er, a.m.k. eftir því sem gögn liggja fyrir um.

Þetta eru nú horfurnar þegar er til umræðu ársskýrsla Byggðastofnunar og mælt fyrir af hæstv. forsrh. þannig að það þarf varla að koma á óvart, herra forseti, þótt hv. þm. sjái ástæðu til að segja örfá orð af þessu tilefni.

Ég tel, herra forseti, að það sé nauðsynlegt að fara ofurlítið yfir það í svona umræðu fyrst, áður en menn halda lengra, hvort það sé einhver ástæða til að reyna að sporna við fótum. Er það kannski svo að það að reyna að halda uppi einhverju jafnvægi í byggð landsins og spyrna gegn því að byggðarlög fari í eyði sé á misskilningi byggt, sé bara ástæðulaus og vonlaus barátta við einhverja þróun sem hljóti að verða og eigi að verða? Það sjónarmið heyrist vissulega. Menn færa jafnvel fyrir því rök að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að það eigi sér stað ákveðin byggðaröskun og vitna gjarnan til sögunnar og spyrja: Hvernig væri ástandið ef engin þróun af þessu tagi hefði átt sér stað á undanförnum áratugum?

Ég held að hér séu menn komnir út á hálan ís vægast sagt. Satt best að segja held ég að af mörgum vitlausum hagfræðikenningum sem hafðar eru uppi í þjóðfélaginu um þessar mundir, og er þar af nógu að taka, sé sú kenning vitlausust alls að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að láta þá byggðaröskun viðgangast sem nú á sér stað. Ég ætla að leyfa mér að eyða nokkrum mínútum í að reyna að færa að því rök, herra forseti.

Það er stundum sagt að hin dreifða búseta hringinn í kringum landið, aðallega með ströndinni og á láglendi, sé ástæðulaus vegna þess m.a. að það sé hægt að nýta alla fiskstofna á Íslandsmiðum með 40 stórum verksmiðjuskipum eða togurum sem gerð séu út frá einum eða tveimur stöðum á landinu. Þetta setja menn á lærðar ræður um. Við skulum aðeins athuga þetta nánar.

Ef við skoðum uppsprettu verðmæta í íslenska sjávarútveginum sl. ár og hvar sú aukning hefur orðið, sem þar sem betur fer hefur átt sér stað, eru það ekki verksmiðjuskip eða stórir togarar sem hafa lagt þar mest af mörkum. Viðbótin hefur fyrst og fremst komið í gegnum nýtingu ýmissa minni stofna sem áður voru vannýttir og aukna sókn í þá, rækju, skelfisk, humar, síld, grásleppu o.s.frv. Þarna liggja áfram miklir möguleikar. Hvernig halda menn að mönnum gengi t.d. að nýta grásleppuna á 40 stórum verksmiðjutogurum frá Reykjavík? Hvað yrði um þá verðmætasköpun sem ef ég man rétt skilar hátt í milljarði og gæti skilað líklega tveimur eða tveimur og hálfum milljarði ef við ynnum algerlega úr þeirri auðlind sjálfir? Hvernig ætli mundi ganga að stunda grásleppuveiðar hringinn í kringum landið uppi á tveggja, þriggja, fjögurra faðma dýpi á 2000–3000 tonna verksmiðjuskipum frá Reykjavík? Ég hefði gaman af að sjá það dæmi gert upp. Hver á að nýta skelfiskinn inni á fjörðum, hver á að nýta innfjarðarækjuna o.s.frv. ef byggðin leggst af á ströndinni? Hver á að nýta gróðurlendið hringinn í kringum landið? Þar er líka auðlind sem við skulum muna eftir. Og hvort sem búskapur dregst saman meira eða minna verður eftir sem áður að reyna að nýta sem mest af gróðurlendi landsins á sem gáfulegastan hátt til að koma í veg fyrir ofbeit og ofníðslu. Hver á að nýta aðrar auðlindir hringinn í kringum landið ef byggð leggst af? Hver á að nýta veiðiár og vötn og hver á að sjá um ferðamannaþjónustu, hver á að nýta jarðhita, hver á að nýta lághita til fiskeldis, hvað á að gera við alla þá fjárfestingu sem verður ónotuð, verður til einskis, í mannvirkjum, í húsum, í vegum o.s.frv.? Ég held að það sé ástæða til að menn svari þessum spurningum, reyni að fara yfir þetta lið fyrir lið og átta sig á því hvort það er mjög hagstæð þróun sem er að eiga sér stað. Svar mitt er alveg afdráttarlaust nei. Eftir því sem ég skoða það betur þykist ég sjá að það sé þvert á móti afar óhagstætt að búseturöskun í þeim mæli sem nú viðgengst, svo ég tali ekki um vaxandi, haldi áfram. Og það má líka spyrja að því: Er það hagstætt fyrir þau svæði sem fá til sín fólkið að flutningar séu í þeim mæli sem nú er?

Gunnar heitinn Thoroddsen, hæstv. fyrrv. forsrh., flutti einu sinni ræðu, ég hygg að það hafi verði árið 1946 eða 1947, þá var hann frammámaður í stjórnmálum í Reykjavík, gott ef ekki borgarstjóri, og þar færði hann fyrir því rök að sú búseturöskun sem þá hafði átt sér stað og m.a. leitt til mjög snöggrar og mikillar fjölgunar í Reykjavíkurborg hefði orðið borginni ákaflega dýr og hægt á þeirri þjónustuuppbyggingu sem þar hafði átt sér stað og hefði getað átt sér stað ef ekki hefðu komið til miklir og snöggir flutningar inn á svæðið. Ég held að sama sagan sé að eiga sér stað í dag.

Hvað ætli kosti t.d. í aukinni fjárfestingu í umferðarmannvirkjum sú mikla fólksfjölgun sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu á tiltölulega stuttum tíma? Nú stendur til að byggja í Reykjavík og nágrenni ekki færri en fimm brýr yfir gatnamót, eftir því sem mér er sagt, einar þrjár innan borgarmarkanna og tvær á umferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er verið að tala um fjárfestingu af stærðargráðunni 75–150 millj. kr., eftir því sem mér skilst, í hverju tilfelli. Það er engin smáfjárfesting bara til að koma umferð yfir ein vegamót. Og það er fyrst og fremst sú aukning umferðar sem hefur orðið á allra síðustu árum, að hluta til að vísu vegna aukinnar bílaeignar einstaklinga en líka vegna mjög snöggrar og mikillar fólksfjölgunar á þessu svæði, langt umfram landsmeðaltal, sem veldur þessu aukna álagi og þessari auknu fjárfestingu hér.

Einhvers staðar þarf það fólk að búa sem bætist hér við o.s.frv. — Ég held að það sé rétt að fólk horfi hér yfir myndina alla, ekki bara brot af henni og spyrji að því: Er skynsamlegt að vera með einhverjar opinberar aðgerðir í gangi, einhverja stefnumörkun og opinberar aðgerðir til þess að reyna að viðhalda jafnvægi í byggð landsins? Svar mitt er já.

Út frá því geng ég hér og tala hér.

Byggðaröskunin á síðasta ári og síðustu árum hefur verið um 1500 manns sem landsbyggðin hefur í raun misst til höfuðborgarsvæðisins árlega. Það sjá allir að slík byggðaröskun getur ekki staðist nema um örfárra ára bil án stórfelldra og mjög alvarlegra afleiðinga fyrir byggðina úti á landi, einfaldlega vegna þess að það er ekki sá fólksfjöldi þar til sem þolir að tapa slíkum fjölda árlega um langt árabil.

Við getum líka tekið fyrir einstök svæði á landinu. Við getum t.d. tekið Norður-Þingeyjarsýslu, sem ræðumaður þekkir mjög vel, og velt því fyrir okkur hvað verður um byggðina þar ef svo heldur sem horfir, hvort sem heldur eru sveitirnar eða þéttbýlissvæðin. Raufarhöfn t.d. hefur tapað 100 manns á tiltölulega fáum árum, farið úr 520 ofan í rúmlega 400 íbúa. Þar vantar sárlega fólk. Þar er mikill afli þessa dagana, en það hefst ekki undan að vinna hann og verður að keyra jafnvel á vörubílum langar leiðir af því að það er ekkert fólk lengur á stöðunum til að vinna úr þeim afla sem þar berst á land. Það hefur auðvitað orðið samfara þessari fólksfækkun samdráttur í þjónustu, jafnvel ákveðnar greinar þjónustu lagst af sem þar höfðu þó byggst upp áður. Ég leyfi mér að fullyrða að staðan er einfaldlega þannig í þessum byggðarlögum og það má segja meira og minna hringinn í kringum landið að við erum komin langt yfir hættumörkin, langt yfir þau hættumörk að þessar byggðir hrynji algerlega saman, þ.e. þær hætti að vera starfhæf eining, starfhæft samfélag þar sem nægilega margir eru á tilteknu svæði til þess að byggja upp starfhæft samfélag. Þá má guð einn vita hvað gerist ef menn fara langt yfir þessi mörk.

Ég býst við að mönnum þyki þessi byggðastefnuumræða býsna leiðinleg og það sé búið að klifa á þessu í mörg, mörg, mörg ár og þetta sé eitt svartagallsraus sem aldrei sjáist til sólar fyrir. Það getur vel verið að þetta hljómi þannig fyrir einhverjum. En það er einfaldlega svo að málin standa svona og þetta er satt og þetta er rétt. Hættan er að mörg minni byggðarlög hringinn í kringum landið séu nánast komin að því að hrynja saman eins og spilaborg vegna þess að þau eru í raun og veru ekki lengur starfhæft samfélag.

Þar kemur fleira til heldur en bara fólksfækkunin og staða atvinnulífsins í augnablikinu. Þar koma auðvitað til ákveðnar kröfur tímans sem vissulega eru fyrir hendi, kröfur um meiri þjónustu og bættan aðbúnað eða kannski öllu heldur það að fólk lætur ekki lengur bjóða sér sumt af því sem það hefur hingað til gert. Það unir ekki lengur og mun ekki una til frambúðar þeim mikla aðstöðumun sem það býr við á fjölmörgum sviðum. Eðlilega gera menn kröfur um að aðbúnaður þeirra sé sambærilegur við það sem annars staðar gerist.

Það er góðra gjalda vert að Byggðastofnun vaknar til lífsins og skrifar forsrh. bréf. Það er líka ánægjulegt að forsrh. rankar við sér og svarar Byggðastofnun og biður hana að athuga málið. Það er auðvitað mjög lofsvert lífsmark þó einhverjum hefði kannski þótt að það hefði mátt koma fyrr og viðbrögðin vera eitthvað efnismeiri en þessar bréfaskriftir. Þó að bréfaskriftir séu út af fyrir sig ágætt fyrirbrigði breytist kannski ekki mjög margt í byggðamálum sem slíkum þó menn frétti það út á land að Byggðastofnun við Rauðarárstíg hafi skrifað forsrh. bréf og sent það niður í Stjórnarráð og forsrh. hafi eftir nokkra daga svarað bréfinu og látið boðsenda það inn á Rauðarárstíg. Ég er svo sem ekki viss um að það birti neitt sérstaklega til fyrir mönnum þó þessar fréttir berist út um landið. Það sem menn eru hins vegar dálítið spenntir fyrir að heyra er hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera, ef eitthvað, í byggðamálunum, í atvinnumálum landsbyggðarinnar, hvort það á að halda áfram þeirri stjórnarstefnu sem ég hef leyft mér að segja að sé að minnsta kosti seigdrepandi ef ekki bráðdrepandi fyrir landsbyggðina og er sannanlega, sbr. skýrslur Þjóðhagsstofnunar og fleiri aðila, að leiða til stöðvunar atvinnulífsins á landsbyggðinni algerlega. Þá er þessu náttúrlega sjálfhætt.

Herra forseti. Þess gætir stundum í umræðum manna um byggðamálin, eins og ég sagði hér áðan, að menn séu orðnir þreyttir. Þá er gjarnan kallað upp: Við þurfum að fá nýja byggðastefnu. Gamla byggðastefnan er orðin úrelt. Það er orðin úrelt þessi krafa um stuðning, um fjárveitingar og framkvæmdir. Þetta er allt orðið úrelt. Nú þurfum við eitthvað nýtt og gjarnan þá í ætt við frjálshyggjuna að hver eigi að fá að bjarga sér sjálfur.

Það er rétt að menn njóta ekki í mörgum tilfellum þess sem þeir afla eða framleiða úti um landið, en ég held að við eigum ekki að gleyma hinu að beinar stjórnvaldsákvarðanir hafa haft og hafa mikil áhrif á stöðu landsbyggðarinnar. Þessi ríkisstjórn og sú síðasta komast ekki hjá því að svara fyrir þann niðurskurð á ýmiss konar fjárveitingum sem þær hafa staðið fyrir og vissulega hafa áhrif á stöðu mála úti á landi. Það er nánast sama yfir hvern málaflokkinn er farið að síðustu 4–5 ár hafa verið niðurskurðar- og uppdráttartímabil á nánast öllum sviðum.

Menn hafa lengi hreykt sér af því að vegamálin hafi verið varin og þar hafi ekki verið niðurskurður og það hafi verið staðið við langtímaáætlanir, en hv. alþm. sem eru nú að afgreiða vegáætlun vita hvernig það stenst.

Svo er þessi ágæta mynd hérna í ársskýrslunni sem verið er að ræða, svo maður gleymi ekki alveg dagskrárefninu, um framlög á fjárlögum til Byggðastofnunar. Þetta er afar athyglisverð mynd. Það má eiginlega alveg leggja hana að jöfnu við myndina í Mogganum sem ég sýndi hérna fyrst. Þær eru nokkurn veginn alveg sambærilegar. Nú er ég ekki að segja að byggðaröskunin hafi eingöngu verið út af því að fjárveitingar til Byggðastofnunar voru skornar svona harkalega niður á þessum árum, en það er þó merkilegt að tvennt eða segjum þrennt fer saman: þessi tvö línurit og tilkoma ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. og nú seinna með Alþfl. Það geta varla verið tilviljanir. Málið verður svo enn þá verra þegar maður hefur í huga að á þessum sömu árum, frá og með árinu 1984, hefur sjávarútvegurinn lifað sitt stærsta góðæri. Samt er ástandið svona, samt er byggðaröskun, samt eru mörg plássin að tæmast. Þrátt fyrir bullandi verðmætasköpun og umsvif í sjávarútveginum er fólkið að flýja af stöðunum. Og halda menn virkilega að það sé ekkert alvörumál? Mér finnst stundum sem menn taki léttvægt á því máli.

Ég held, herra forseti, að það sé eitt af því mikilvægasta ef ekki það allra mikilvægasta sem gera verður á næstu mánuðum að koma rekstrarstöðu atvinnulífsins úti á landi og auðvitað í öllu þjóðfélaginu í eðlilegt horf, en þar má ekki láta staðar numið því við höfum reynsluna af því. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að við verðum að fara að svara ákveðnum grundvallarspurningum, Íslendingar, sem við höfum ýtt á undan okkur alla tíð og það eru spurningarnar um það hvort við ætlum að tryggja fólkinu í landinu jafnrétti til þjónustu og sem jafnasta aðstöðu án tillits til búsetu. Þeirri spurningu hefur sennilega aldrei verið svarað á Íslandi. Það hefur hins vegar verið gert t.d. í Noregi og víðar þar sem stjórnvöld hafa markvissa stefnu og margvíslegar aðgerðir til að jafna aðstöðumun fólks í þessu tilliti, rétt eins og menn reyna að jafna aðstöðu manna að ýmsu öðru leyti í þessu samfélagi. En það er alveg borðleggjandi að sá mikli og að mörgu leyti vaxandi aðstöðumunur sem fólk býr nú við eftir búsetu getur ekki gengið upp til langframa í þjóðfélaginu. Það mun þá einfaldlega sporðreisast með öllum þeim afleiðingum sem það hefur.

Herra forseti. Það hefur lítið upp á sig að reyna að inna hæstv. forsrh. eftir svörum undir þessari byggðaumræðu hvað hæstv. ríkisstjórn hyggist gera til að tryggja að það verði ekki algjör stöðnun í atvinnulífi landsbyggðarinnar á næstu dögum og hvað meira sé þá á dagskrá, hvort það standi til að reyna að standa við stjórnarsáttmálann um að treysta búsetu og jafna aðstöðu fólks í landinu. Eitthvað voru þeir framsóknarmenn að rifja upp þessi „paragröf“ stjórnarsáttmálans í vor rétt áður en þeir magalentu sem frægt er orðið. Það hefði þó verið ástæða til þess fyrir hæstv. forsrh. að upplýsa þingheim um það undir þessari umræðu hvað t.d. stæði til að gera gagnvart rekstrarstöðunni í sjávarútveginum. Er það meining hæstv. forsrh., er hann sammála þeim hagspekingum sem hafa kvatt sér hljóðs að undanförnu og sumir hverjir blákalt fullyrt að það sem þyrfti að gerast væri það að keyra þessa stefnu áfram og knýja þannig fram uppstokkun, fækkun fyrirtækja í sjávarútvegi og láta þriðjung til helming af fyrirtækjum á því sviði fara á hausinn og væntanlega byggðarlögin með, eða er hæstv. forsrh. einhverrar annarrar skoðunar? Hvað stendur til að gera í þeim iðngreinum sem halda uppi atvinnulífi víða útí á landi? Þeir eru ekki hér hæstv. iðnrh., sjútvrh. og aðrir slíkir þannig að ég verð að beina þessum spurningum mínum til hæstv. forsrh. Hvað með vefjariðnaðinn og sauma- og prjónastofur sem eru í þann veginn að loka, þær síðustu, meira að segja nýi risinn Álafoss? Ætli hann haldi út mikið lengur? Kannski tvo þrjá mánuði í viðbót. Er meiningin að gera grein fyrir þessari ársskýrslu Byggðastofnunar þar sem horfurnar eru eins og raun ber vitni dregnar upp og hafandi í huga bréfin góðu sem gengið hafa á milli manna, er það þá meining hæstv. forsrh. að Alþingi ljúki störfum og fari heim til sín án þess að meiru verði svarað um væntanlegar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum ef einhverjar eiga þá að verða? Það finnst mér heldur snautlegt.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, herra forseti. Vonandi heyrist eitthvað í hæstv. forsrh. og hann reynir að svara fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum, en ég ítreka svo það sem ég sagði í upphafi máls míns að það hefði verið æskilegt ef aðrir hæstv. ráðherrar sem þessu máli eru sérstaklega skyldir, eins og hæstv. ráðherrar atvinnuveganna og hæstv. félmrh. sem fer með málefni sveitarfélaganna, hefðu aldrei þessu vant séð sóma sinn í því að sitja hérna og hlusta á umræðurnar.