06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7603 í B-deild Alþingistíðinda. (5643)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli þeirra hv. ræðumanna sem hafa talað á undan mér í þessari umræðu hafa vissulega komið fram í hnotskurn þau vandamál sem nú blasa við á landsbyggðinni og áhyggjur okkar hv. þm. af því ástandi sem þar ríkir. Fólk á landsbyggðinni býr við vaxandi óhagræði og um leið aukna óánægju, sérstaklega miðað við höfuðborgarsvæðið. Þær aðstæður sem atvinnulíf allt úti á landsbyggðinni býr nú við eru kunnari en frá þurfi að segja og hefur reyndar verið fjallað um þær í þeim mæli í ræðum allra sem hafa talað á undan mér að ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það en tek undir lýsingar annarra hv. ræðumanna á ástandinu. Vil ég reyndar benda sérstaklega á bls. 23 í ársskýrslu Byggðastofnunar þar sem sýnt er hversu mjög fjárveitingar til byggðamála hafa rýrnað undanfarin ár og er þar að miklu leyti að leita skýringa á erfiðleikunum og þeirri tilhneigingu sem þar kemur fram.

Ég vil aðeins gera að umræðuefni einn tiltekinn kafla í skýrslunni, en hann er á bls. 7 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skoðun stofnunarinnar að efling atvinnulífs á landsbyggðinni þurfi að vera á ábyrgð íbúa hennar og að frumkvæði þeirra. Þróun undanfarinna ára hefur hins vegar dregið úr möguleikum þeirra til að rækja þetta hlutverk sitt. Auk þess er aðstaða þeirra sem vilja stofna eða reka fyrirtæki á landsbyggðinni víðast lakari en á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld geta því með góðri samvisku lagt atvinnuþróun landsbyggðarinnar lið án þess að hafa áhyggjur af því að þau séu með því að mismuna mönnum óeðlilega.“

Þetta er einn mikilvægasti kaflinn í þessari skýrslu að mínu mati, en í tilefni einmitt af þessum stutta kafla langar mig að vitna í afrit af umsókn til Byggðastofnunar sem mér barst í hendur frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upphaf bréfsins sem hljóðar svo, það er skrifað í Borgarnesi 20. mars 1987:

„Samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi sækja hér með um styrk úr Byggðasjóði til að vinna skipulega að þróun atvinnumála á Vesturlandi á þessu ári, alls 760 000 kr. Þau sérverkefni sem við viljum nú ráðast í eru eftirfarandi:

1. Könnun á stöðu og framtíðaráformum fyrirtækja á Akranesi, en slík könnun verður unnin að frumkvæði atvinnumálanefndar Akranesskaupstaðar sem hefur þegar undirbúið málið. Áætlaður kostnaður 230 000 kr.“

Það eru reyndar fleiri beiðnir í þessu bréfi en ég ætlaði aðallega að gera þessa að umræðuefni og ég bendi á að hér er ekki um háa upphæð að ræða, en reyndar skiptir hún mjög miklu máli fyrir þá sem að þessu máli vilja vinna.

Það er sem sagt fyrsti liður þessa bréfs sem er tilefni hugleiðinga minna um raunverulegt hlutverk Byggðastofnunar og getu hennar til þess að styrkja beiðnir um verkefni sem koma frá fólkinu sjálfu. Á bls. 7 sem ég vitnaði til áðan er talað um ábyrgð íbúa á atvinnulífi á hverju svæði og frumkvæði. Ég tel að þarna sé svo sannarlega um ákveðið frumkvæði og í framhaldi af því ábyrgð að ræða.

En í 3. gr. laganna um Byggðastofnun segir, með leyfi forseta, það er 1. mgr.: „Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.“

Afgreiðsla Byggðastofnunar á þessari beiðni virðist alls ekki ganga í þá átt að hvetja heimamenn til frumkvæðis. Beiðninni var svarað 11. sept. 1987 með eftirfarandi línum sem ég les, með leyfi forseta, og bréfið er skrifað í Reykjavík 11. sept. 1987: „Vísað er til umsóknar yðar um styrk dags. í ágúst 1987 til athugunar á stöðu og framtíðarhorfum fyrirtækja á Akranesi. Að athuguðu máli telur stofnunin sér eigi fært að verða við umsókn yðar.“

Ekki sættu Skagamenn sig við þessa afgreiðslu mála og sendu annað bréf sem hljóðar svo, með leyfi forseta, en það er skrifað 23. nóv. á Akranesi: „Vísað er til svarbréfs yðar dags. 11.9. sl. vegna umsóknar um styrk til að kanna stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækja á Akranesi. Við sem einkum stöndum að undirbúningi og framkvæmd þessarar könnunar óskum eindregið eftir því að umsóknin verði tekin fyrir að nýju í stofnuninni. Könnunin er nú vel á veg komin og hefur iðnráðgjafi Vesturlands, Ragnar Hjörleifsson, farið í fyrirtæki og safnað upplýsingum. Ekki er þó enn séð fyrir hvernig hún verður fjármögnuð. Við væntum jákvæðrar afgreiðslu á beiðni okkar. Málið hefur verið kynnt og rætt í Byggðastofnun en við erum að sjálfsögðu fús að veita allar þær upplýsingar sem óskað er.“ — Undir bréfið skrifa allir fulltrúar atvinnumálanefndar Akranesskaupstaðar, en formaður hennar er Ragnheiður Þorgrímsdóttir.

Þann 27. janúar þetta ár er síðan skrifað annað bréf í Byggðastofnun þar sem endanlegt svar við beiðni þessari er gefið og það hljóðar svo, með leyfi forseta: „Á fundi stjórnar Byggðastofnunar þann 21. jan. 1988 var fjallað um umsókn yðar um styrk til að kanna stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækja á Akranesi. Stjórn stofnunarinnar getur ekki orðið við beiðni yðar og tilkynnist það hér með.“

Nú er manni spurn hvaða ástæður lágu að baki þess að beiðni þessari var hafnað. Það er ekki beint uppörvandi fyrir fólk sem tekur frumkvæði og hefur undirbúið mál svo vel sem raun ber vitni, en umsókninni fylgdi allítarlegur spurningalisti til fyrirtækja sem ég er með hér og er á mörgum blaðsíðum. Það fylgdi sem sé ítarlegur spurningalisti til fyrirtækja á Akranesi um stöðu þeirra og framtíðaráform.

Nei, frú forseti, þetta er ekki uppörvandi heldur hreint og beint niðurdrepandi. Ekki síst í ljósi þess að atvinnuástand í þeim bæ sem hér um ræðir hefur verið með eindæmum slæmt að undanförnu. En ég vil þó taka fram að þetta dæmi tek ég hér aðeins vegna þess að mér bárust þau gögn í hendur frá atvinnumálanefnd Akraness án þess þó að mér sé fullkunnugt um hvernig aðrar álíka umsóknir hafa verið afgreiddar.

Ég tel að frumforsenda þess að rétta megi hlut landsbyggðarinnar sé fyrst og fremst sú að hvetja til frumkvæðis heimamanna og styðja þá af fremsta megni. Það er grundvallarskilyrði að fyrstu skrefin verði einmitt athuganir og áætlanir fram í tímann. Það er komið nóg af handahófskenndum ákvörðunum. Þessar athuganir og áætlanir verða að vera undir forustu heimamanna þannig að tryggt sé að hvert byggðarlag um sig fái að blómstra á sínum eigin forsendum.

Ég vek aðeins athygli á að það er lögð á það mikil áhersla á bls. 7 sem ég vitnaði til í upphafi að heimamenn skuli hafa frumkvæði og bera ábyrgðina, en mér er spurn eftir að hafa lesið þessi bréf hvort það sé svo að hér sé um enn eina miðstýringarstofnunina að ræða. Í 3. gr., sem ég vitnaði til áðan, segir að stofnunin geti gert eða látið gera áætlanir. Spurningin er: Var þessari beiðni hafnað vegna þess að það voru einmitt heimamenn sem tóku frumkvæðið eða hvernig stendur á því?

En að lokum: Eins og ég gat um í upphafi máls míns tek ég undir það sem fram hefur komið í umræðunum, en ég taldi ástæðu til að varpa ljósi á þetta mál sem gæti verið einmitt eitt af þeim meinum sem Byggðastofnun býr við, að hún hafi alls ekki getu eða styrk til að svara slíkum beiðnum. Það væri betra fyrir fólkið sem er að taka frumkvæði að fá fyrir því gildar ástæður og rök hvers vegna beiðni þess er hafnað. Það er eitt það mikilvægasta fyrir landsbyggðarfólkið núna hvað varðar allar framkvæmdir í hinum ýmsu byggðarlögum að fólk viti hvenær röðin kemur að þeim. Það er verið að byggja skóla og íþróttahús við grunnskóla landsins vítt og breitt og sumir bíða eftir að fá fullgilda samninga. Þeir vita ekki hvar þeir eru í röðinni. Síðan er farið að byggja íþróttahús einhvers staðar allt annars staðar án þess að neitt hilli undir að fólk viti hvenær röðin kemur að því.

En að lokum vil ég aðeins taka fram að ég tel að við hjökkum í sama farinu og við sökkvum dýpra og dýpra í það með þessu áframhaldi. Það er kominn tími til að svara grundvallarspurningum varðandi byggðamálin og taka ákvarðanir byggðar á svörum við þeim.