06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7621 í B-deild Alþingistíðinda. (5650)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til laga um framhaldsskóla.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og minni hl. skilar séráliti. Meiri hl. nefndarinnar leggur hins vegar til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd.

Nefndin kynnti sér umsagnir sem borist höfðu. Þetta er ekki nýtt mál. Það eru 12 ár síðan frv. til laga um framhaldsskóla var fyrst lagt fram hér á hinu háa Alþingi, að ég hygg.

Stefán Ólafur Jónsson, deildarstjóri í menntmrn., og Hörður Lárusson komu á fund nefndarinnar. Stefán Ólafur starfaði reyndar með nefndinni að athugun málsins. Einnig fékk nefndin til fundar við sig fulltrúa vinnuhóps Sérkennarafélagsins. Fulltrúar Sambands málm- og skipasmiðja og Málm- og skipasmiðasambands Íslands komu á fund nefndarinnar, svo og fulltrúar Landssamtakanna Þroskahjálpar og fulltrúar frá Félagi framhaldsskóla, en það eru samtök nemenda í framhaldsskólum.

Það er deginum ljósara að um ýmis efnisatriði þessa máls eru menn ekki á einu máli og ég nefni þar sérstaklega ákvæðin um skólanefndir. Um þau varð einnig ágreiningur í Nd. Alþingis. Ég nefni einnig til sögunnar ákvæði um heimild til stofnunar sérskóla eða sérstofnana fyrir fatlaða eða þroskahefta e.t.v. öllu frekar og þá sem búa við blindu eða heyrnarleysi.

Mér er alveg ljóst að eðlilegt er að um þessi skólanefndarákvæði séu skiptar skoðanir en niðurstaða meiri hl. varð engu að síður sú að mæla með því að þetta yrði samþykkt í óbreyttri mynd frá Nd. Það er búið að þrengja nokkuð starfssvið skólanefndanna, en skólaráð er aftur samstarfsvettvangur nemenda og kennara. Og án þess að orðlengja um þetta frekar, herra forseti, leggur meiri hl. nefndarinnar til að málið verði samþykkt eins og það kom frá Nd.