06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7622 í B-deild Alþingistíðinda. (5652)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. minni hl. menntmn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Sem betur fer höfum við hvað eftir annað fengið tækifæri í þessari hv. deild til þess að tala um skóla- og menntamál. Og oftar en ekki hefur menntmn. sameinast um þau mál sem fjallað er um. Er það sérstakt ánægjuefni og vil ég reyndar þakka samnefndarmönnum mínum fyrir skemmtilegt samstarf á þessu þingi hafi fundur okkar í menntmn. verið sá síðasti á þessu þingi, en hann var í morgun.

Það er sameiginleg lífsreynsla okkar allra að hafa einhvern tímann gengið í skóla, alla vega okkar sem nú lifum, og það var svo sannarlega kominn tími til að fram kæmi einhvers konar rammalöggjöf um þetta skólastig sem við erum að fjalla um hérna. Hefðum við kvennalistakonur gjarnan viljað geta fagnað frv. af heilum hug. En það kom fljótlega í ljós að ágreiningur var um ýmis atriði og kannski er það einmitt vegna þessarar sameiginlegu reynslu okkar af skólamálum að náttúrlega telja allir sig hafa nokkurt vit þar á eftir þá reynslu sem þeir hafa hlotið. Síðan koma auðvitað fagleg sjónarmið þeirra sem hafa starfað síðar við stofnanir sem skóla.

Ég gat þess í 1. umr. um málið að ef ekki yrðu gerðar breytingar á frv. eins og það kom frá Nd. teldi ég ástæðu til þess að gera við það nokkrar brtt. sem ég mun þá taka til núna.

Það er hins vegar e.t.v. ástæða til að gera að sérstöku umræðuefni að að okkar áliti hafa fagleg sjónarmið verið sniðgengin að allt of miklu leyti bæði varðandi samningu frv. og svo einnig, eins og það er sett upp hér, varðandi stjórnun skólanna og þar er reyndar okkar grundvallarágreiningur. En það er umhugsunarefni, ekki síst núna á þessum vordögum þegar skólum er að ljúka og kennarar eiga enn og aftur, eitt árið enn, í launabaráttu sem hefur staðið yfir mér liggur við að segja óslitið undanfarin átta ár eða svo eftir að ljóst varð hversu mjög kennarar höfðu dregist aftur úr í kjörum sínum, að á þessu stigi er e.t.v. óvíst hversu vel okkur tekst að manna þessa skóla sem við erum að fara að setja lög um.

Mér þykir ástæða til að geta þess sérstaklega að mér finnst hlutur kennara og fagfólks vera fyrir borð borinn við samningu frv. þar sem þar eru aðeins tveir skólamenn og báðir eru þeir fyrrverandi, þ.e. þeir starfa ekki lengur innan skólakerfisins sem slíkir. Ég tel sérstaka ástæðu til að geta þess að ekki hefur þótt ástæða til þarna, frekar en svo oft áður, að kalla konur til, en þær eru nú æ stærri hluti kennara við framhaldsskólana. Konur sem við skólana starfa eru auðvitað á sama hátt og þeir karlmenn sem frv. sömdu eru feður barna á þessu skólastigi mæður barnanna sem skólana sækja.

En ég ætla að gera grein fyrir nál. sem ég hef lagt fram. Það hljóðar svo, með leyfi forseta, og er á þskj . 1060:

„Þó að halda megi fram með nokkrum rökum að skortur á löggjöf hafi auðveldað jákvæða og öra þróun mála í framhaldsskólum er tímabært að setja um þá rammalöggjöf. Í fyrirliggjandi frv, er margt jákvætt, en einnig mörg tvísýn og gölluð ákvæði.

Síbreytilegar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á öfluga og góða framhaldsskóla þar sem stöðug endurskoðun fer fram. Hlutverk framhaldsskóla mótast annars vegar af þörfum þeirra einstaklinga sem hann sækja, hins vegar af þörfum þjóðfélagsins í nútíð og framtíð. Að áliti minni hl. eru engir betur færir um að standa vel að verki í mótun og þróun skólastarfsins en þeir sem næst því standa og því nauðsynlegt að tryggja sjálfsforræði skólanna. En það er einmitt í stjórnunarþætti frv. sem helstu agnúa þess er að finna að mati minni hl.

Tvær meginástæður liggja til grundvallar skoðun minni hl. Í fyrsta lagi er það andstætt hugmyndum okkar um valddreifingu að lítilli fimm manna nefnd, samsettri af fjórum pólitískt kjörnum fulltrúum og einum skipuðum af menntmrh., séu veitt svo mikil völd og áhrif bæði um þróun skóla, innra starf, námsbrautir og rekstur. Í öðru lagi þykja okkur fagleg sjónarmið fyrir borð borin með þessu fyrirkomulagi. Eru þau þó virt í frv. þegar fjallað er um sérstaka fagmenntun, svo sem iðnnám eða nám í sjávarútvegsfræðum. Einnig er að finna í frv. ákvæði um sem víðtækust samráð við atvinnulífið. En þegar að hinni almennu menntun kemur eiga pólitískt kjörnir fulltrúar að hafa vit fyrir fagfólki, nemendum og öðrum þeim sem starfa innan veggja skólans.

Menntmn. bárust umsagnir frá flestum framhaldsskólum í landinu, samtökum kennara, skólameistara o.fl. og kallaði auk þess til viðtals ýmsa aðila. Það gekk eins og rauður þráður í gegnum umsagnir og viðtöl með örfáum undantekningum að gjalda varhug við of miklu valdi skólanefnda. Þar fara því skoðanir minni hl. og skólafólks saman. Þessu til stuðnings skal vitnað til eftirfarandi umsagna:

1. Í umsögn kennslumálanefndar HÍ segir m.a.: „Þó að við viljum að mestu leiða hjá okkur ákvæði frv. um stjórn framhaldsskóla gerum við okkur ljóst að þau geta haft varanleg áhrif á það hversu vandað og markvisst starf verður unnið í skólunum. Eitt mikilsverðasta atriðið í þessu samhengi er ákvæði 6. gr. um skipun skólanefnda. Okkur er ljóst að heilbrigður metnaður hins almenna borgara á skólasvæðinu getur vissulega orðið skólanum lyftistöng ef rétt er á haldið. Dæmi um slíkt eru vel þekkt bæði hér á landi og erlendis. Hins vegar er ekki víst að þetta sé tryggt með þeirri tilhögun að skólanefnd sé eingöngu skipuð mönnum sem þiggja umboð sitt frá ráðherra og sveitarfélögum. Meðal annars felur slíkt fyrirkomulag í sér hættu á því að skólanefndir sinni einkum fjármálum skólanna og skoði allt skólastarfið í ljósi þeirra og hefði þá lítið áunnist. Þessu mætti hins vegar breyta með ýmsu móti, t.d. með því að í skólanefnd væru tveir fulltrúar kosnir beinni einstaklingsbundinni kosningu á skólasvæðinu um leið og sveitarstjórnarkosningar fara fram.“

2. Í umsögn Bandalags kennarafélaga segir m.a.: „BK telur að skólanefndin samkvæmt frv. sé bæði of fámenn og valdamikil um innri mál skólans. Þar vantar einnig fulltrúa kennara sem er algert skilyrði af hálfu BK enda í anda atvinnulýðræðis nútímans. Eðlilegt verður að teljast að skólanefnd fjalli um fjármál og rekstur skólans en hins vegar alls óeðlilegt að fela henni innri stjórn.“"

Þriðja umsögnin sem ég vitna til kemur frá kennurum við Menntaskólann við Sund, en þar segir m.a.:

„Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að pólitískt kjörnar nefndir, ein fyrir hvern skóla, fari hér eftir með skólastjórn, þar með einnig stjórn þeirra mála sem hingað til hafa verið í höndum kennara og skólastjóra. Þarna er að okkar dómi vegið stórlega að sjálfstæði skólanna þegar kennarar og skólastjórar eru nánast sviptir öllum ráðum.“

Í nál. segir svo áfram, með leyfi forseta:

„Þær brtt., sem liggja frammi á þskj. 1061, hníga flestar í þá átt að draga úr valdi skólanefnda, en fela það í staðinn skólaráði sem skipað er fulltrúum nemenda og kennara. Auk þess ætlum við faggreinafélögum, deildastjórn o.fl. stærri hlut en gert er ráð fyrir í frv. eins og það liggur fyrir. Í stuttu máli vill minni hl. draga úr áhrifum pólitískt kjörinna fulltrúa en auka að sama skapi áhrif skólafólks. Með tilliti til þess sem segir í upphafi nál. um jákvæða þróun framhaldsskólakerfisins þegar skólafólk ræður ferðinni telur minni hl. með öllu óverjandi að svipta það nú því forustuhlutverki.

Ein brtt. er um stofnun mötuneyta við framhaldsskóla og um að nemendur greiði einungis hráefniskostnað. Að áliti minni hl. er þetta mikið nauðsynjamál sem stuðlar að heilsuvernd og hollustuháttum, auk þess sem breyttir þjóðfélagshættir kalla á þessa starfsemi í öllum skólum.

Að þessum till. samþykktum leggur minni hl. til að frv. verði samþykkt.

Svavar Gestsson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu.“

Þær brtt. sem ég mun nú fara aðeins um nokkrum orðum eru á þskj. 1061. Það er þá í fyrsta lagi varðandi hlutverk framhaldsskólans. Ég tel reyndar að sú breyting sem gerð var í Nd. með því að breyta aðeins áhersluröð atriðanna sem upp eru talin hafi verið til bóta og ég get þess reyndar líka að ég tel að þær breytingar sem urðu á frv. í Nd. hafi flestar verið til bóta.

Mér þykir hins vegar greinin helst til stuttaralega orðuð og hefði viljað sjá þar a.m.k. eina setningu til viðbótar þar sem kveðið er á um jafnrétti sem er mikilvægt hugtak í lífi okkar og þjóðfélagi og orð sem við verðum að hafa í huga hvort sem við erum að tala um jafnrétti milli fólks eftir búsetu eða efnahag eða eftir kyni. Ég hefði viljað hafa greinina orðaða eins og hér segir, með leyfi forseta: „Hlutverk framhaldsskóla er eftirfarandi: Að búa nemendur undir líf og starf í samfélagi lýðræðis og jafnréttis með því að veita þeim almenna menntun miðað við hæfni, þroska og námsgetu. Að efla félagsþroska nemenda, menningu og mannúð. Að búa nemendur undir nám í sérskólum og á háskólastigi með því að veita þeim þekkingu og þjálfun í vinnubrögðum. Að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu með sérnámi er veitir starfsréttindi.“ Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um 2. gr. frv. en þetta er sú till. sem við gerum um hana.

Ég gleymdi að geta þess hér í upphafi máls míns að brtt. þær sem ég geri nú grein fyrir eru fluttar af mér ásamt Guðrúnu Agnarsdóttur, hv. 6. þm. Reykv.

Í 5. gr. hefðum við viljað orða 1. mgr. á eftirfarandi hátt: „Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála, er lög þessi taka til, og annast í samráði við faggreinafélög námsskrárgerð o.s.frv. Þetta er sem sagt breyting við 1. mgr.

Eins og ég gat um í máli mínu hér áðan þá þykja okkur fagleg sjónarmið fyrir borð borin og okkur þykir nauðsynlegt að hafa faggreinafélög hér með. Ég vek athygli á því að þau eru hvergi nefnd í þessu frv. En það starfa hér mjög öflug faggreinafélög kennara og mér er kunnugt um að þau hafa staðið að námsskrárgerð í samvinnu við menntmrn. Það er að mér skilst einnig von á því að það samstarf verði aukið og eflt með einhvers konar samningum á milli þeirra og ráðuneytisins og því þykir mér sjálfsagt og eðlilegt að þeirra sé getið hér.

Næsta brtt. var við 8. gr. og þar er okkar fyrsta breyting sem á að heita grundvallaratriði varðandi skólanefndina. Hér segir í frv. eins og það liggur fyrir: „Skólanefnd og skólameistari ákveða námsframboð með samþykki menntamálaráðuneytis.“ Þessa setningu viljum við taka alveg út þar sem við teljum að þetta sé ekki innan verkahrings skólanefndar. Við setjum ákaflega mörg spurningarmerki við það, eins og ég hef áður getið um, að pólitískt kjörnir fulltrúar ákveði þannig um innra starf skólanna og það er auðvitað innra starf skólanna að ákveða námsframboð því að námsframboð er í mínum huga auðvitað allar þær námsgreinar sem boðið er upp á í skólanum. Það vita þeir sem við skóla hafa starfað að einstaka námskeið verða oft til einmitt inni á kennarastofum í samræðum kennara. Ég tel eðlilegt að þeir hafi þar frumkvæði í sambandi við framboð á námsefni og námskeiðum. 8. gr. orðist þá svo, með leyfi forseta: „Skólanefnd undirbýr árlega ásamt skólameistara tillögur til fjárlaga og sendir þær menntamálaráðuneyti. Í upphafi hvers árs gerir skólanefnd fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt.“

Greinin byrjar sem sé á þessari mgr. en aðrar breytingar höfum við ekki gert við hana. Með þessu viljum við undirstrika að við teljum hugsanlega eðlilegt að fulltrúar sveitarstjórna hafi með þm nokkra umsjón hvernig fjármálum skólans er háttað og séu einmitt fulltrúar skólans gagnvart fjárveitingavaldinu.

Næsta brtt. er við 9. gr. Hana viljum við orða á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta: „Skólameistari stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma.

Skólaráð skal starfa við hvern framhaldsskóla. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipa fulltrúum kennara og nemenda svo og aðstoðarskólameistara starfi hann við skólann.

Skólaráð, deildarstjórar skólans og skólameistari marka stefnu í skólahaldi og ákveða námsframboð með samþykki skólanefndar og menntamálaráðuneytis.

Um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti skal nánar kveðið á í reglum sem menntamálaráðuneytið setur.

Skólameistari annast framkvæmd þeirra ákvarðana sem skólaráð og skólanefnd taka.“

Það er í þessari grein sem þessi grundvallarágreiningur okkar nefndarmanna kemur fram því að eins og ég hef áður getið um þá teljum við öll óverjandi að pólitískt kjörnir fulltrúar hafi svo mikið að segja um innra starf skólans sem þeim er ætlað samkvæmt frv. Það er talað um að þetta sé gert í valddreifingarskyni en við teljum að kennarar og þeir sem við skólana starfa hafi fyrst og fremst þá faglegu þekkingu sem til þarf. Nú er það svo að einn liður í kjarabaráttu kennara hefur verið að fá sitt starfsheiti lögverndað. Það er því harla undarleg ráðstöfun að taka til þess svo skömmu síðar að ætla öðrum en þeim að sjá um þau störf sem þeir hafa hingað til sinnt, þ.e. að skipuleggja skólastarfið og sjá um allt innra starf skólanna í samráði við skólameistarann.

Talað er um það í þessari grein að kveða skuli nánar á í reglugerð um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti. Sennilega er fátt um það að segja en ég vildi segja það hér og nú, þar sem orðið reglugerð kemur fyrir, að það mundi auðvitað auðvelda okkur mjög alla vinnu við slík frv. ef við hefðum a.m.k. drög að þeim reglugerðum sem áformað er að setja þegar við erum að fjalla um þessi mál. Okkur þykir sem sé að það sé ekki rétt leið að láta pólitískt kjörna fulltrúa tróna yfir öllu og öllum án þess að skólafólkið sé til kallað.

Ég fór rækilega í gegnum það við 1. umr. málsins og sé ekki ástæðu til þess að tala um það í of mörgum orðum hér en það er auðvitað alltaf spurning hverjir rata í þessar pólitísku stöður, þ.e. komast í skólanefndir. Nýlegar kannanir sýna að það er ekki víst að þetta verði valddreifing að því leyti að konur eigi þar fulltrúa frekar en í öðrum nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila. En ég vil ítreka það að skólanefnd sem slík hefur í okkar huga ekkert að gera með að skipta sér svo mjög af innri málum skólanna.

Þá er komið að næstu brtt. sem er við 12. gr. og varðar námsráðgjafa. Við teljum nauðsynlegt að kveða þar fastar að orði heldur en hér er gert í 12. gr. frv. er fyrir liggur. Þar segir í 2. mgr., með leyfi forseta: „Heimilt er að fela ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla að annast hliðstæða starfsemi fyrir framhaldsskóla.“ Við viljum gera á þessu þá breytingu að hér standi, með leyfi forseta: „Um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa fer eftir stærð og gerð skóla hverju sinni.

Við hvern framhaldsskóla skal starfa námsráðgjafi, einn eða fleiri, og skal miða fullt starf við 300 nemendur. Jafnframt skulu nemendur eiga kost á sálfræðiþjónustu.

Menntamálaráðherra setur eða skipar skólameistara framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólaráðs. Skólameistari ræður stundakennara í samráði við deildarstjóra og aðra starfsmenn í samráði við skólaráð. Leita skal staðfestingar menntamálaráðuneytis hafi kennari ekki kennsluréttindi.

Þessi breyting er gerð í framhaldi af breytingu okkar um skólanefndir, að það sé þá skólaráðið sem hér hefur umsagnarrétt.

Við 13. gr. höfum við leyft okkur að gera eftirfarandi breytingu við 2. mgr.: „Menntamálaráðuneytið setur skólameisturum erindisbréf. Reglur um störf annars starfsfólks setur menntamálaráðuneytið.“

Við töldum ekki eðlilegt að þar frekar en á öðrum stöðum væri það skólanefndin sem hefði fingurna svo mjög í daglegum störfum skólans.

Við 14. gr. er enn einu sinni orðalagsbreyting varðandi skólanefndina, að þar komi: skólaráði, í staðinn fyrir skólanefnd. Við viljum bæta nýjum málslið við 1. mgr. en greinin hljóðar svo, virðulegi forseti, eins og hún er hér í frv.: „Hafi kennari starfað, settur eða skipaður, a.m.k. í fimm ár og óski að fá sérstakt orlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni, skal hann senda skólanefnd og menntamálaráðuneyti beiðni um orlof ásamt greinargerð um hvernig hann hyggst verja orlofstímanum. Ráðuneytið getur veitt honum orlof allt að einu ári á föstum embættislaunum.“

Hér viljum við bæta við eftirtalinni heimild: „Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæði um a.m.k. 5 ár við sérstakar aðstæður (svo sem skipulagningu nýrra námsbrauta, endurskipulagningu náms, endurnýjun námsefnis o.þ.h.).“

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég tel 14. gr. vera alveg sérstakt fagnaðarefni fyrir kennara þar sem þeir hafa hingað til þurft að bíða a.m.k. 10 ár eftir að fá launað orlof og reyndar hafa þeir yfirleitt þurft að bíða mun lengur því auðvitað ganga þeir fyrir sem hafa kennt lengst. Ég tel samt nauðsynlegt að gefa þarna möguleika á að kennarar komist oftar í leyfi vegna þess að síbreytilegar aðstæður geta krafist þess að það þurfi að koma á nýjum

Hins vegar leggjum við mikla áherslu á að við alla skóla séu mötuneyti og í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu er þetta auðvitað alveg nauðsynlegt. Þetta er hreinlega liður í því að ala fólk upp í hollum lífsháttum. Það er allt of mikið um það að nemendur á þessum aldri lifi á fæði sem er alls ekki verjandi að þeir séu að borða á degi hverjum. Það er svo við flesta framhaldsskóla að þar eru sjoppur með svokölluðu ruslfæði og það er náttúrlega fljótlegra og auðveldara fyrir nemendur að fara í þær en leggja af stað með nesti á morgnana, slíkur er hraðinn orðinn á öllu. Eins og flestir vita eru foreldrar ekki heima á daginn til þess að taka á móti nemendum, enda er skóladagur framhaldsskólanema mjög langur. Hann getur verið allt frá kl. átta á morgnana til a.m.k. hálfsex, reglulegur skólatími, því að í áfangakerfinu eru margir sem hafa hlé á milli tíma og þau gefa verið mismörg eða mislöng hjá hinum ýmsu nemendum. Þess vegna höfum við gert þessa brtt. við 32. gr., með leyfi forseta:

„Mötuneyti skulu rekin við alla framhaldsskóla. Nemendur bera sjálfir kostnað vegna hráefnis. Launakostaður starfsfólks mötuneyta greiðist úr ríkissjóði.“

Þessi tillaga okkar er reyndar samhljóða tillögu sem ég, ásamt fleiri hv. þm., flutti fyrir jólin í vetur um að ríkið greiði þennan launakostnað. Þetta er mikill baggi á sveitaheimilum sérstaklega þar sem nemendur þurfa að fara að heiman, vera í heimavist eða jafnvel ekki í heimavist, þeir sem þurfa að fara til Reykjavíkur, því að þar er engin heimavist og húsaleiga er auðvitað mjög há hér og ef til viðbótar kemur himinhár fæðiskostnaður er alveg einsýnt að ekki hafa allir ráð á því. Það er kannski annað sem má draga inn í þá umræðu líka og það er dreifbýlisstyrkurinn sem er skammarlega lágur, og nemendur þeir sem heimsóttu okkur á fund menntmn. gerðu það einmitt að sérstöku umræðuefni.

Þá eru hér breytingar við 34. gr. og þær eru varðandi stundafjöldann. Við teljum þær nauðsynlegar þó að í lok 2. mgr. standi: „Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.“ Við urðum vör við það í þessari umfjöllun okkar um frv. að umræðan og hugmyndir manna um að blanda fötluðum nemendum með svokölluðum almennum nemendum eru mjög skammt á veg komnar. Þess vegna tel ég alveg nauðsynlegt, til þess að tryggja að þeir verði ekki út undan þó að hér sé gert ráð fyrir að þeir eigi aðgang að framhaldsskólanum, að tiltekið verði sérstaklega eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa, svo og þar sem smæð skóla eða fámenni krefst þess.“

Í fyrri breytingunni viljum við líka hafa það öruggt inni að smærri skólar hafi sömu möguleika og aðrir að bjóða upp á sem fjölbreytilegast nám. Ég tel mjög nauðsynlegt að inni sé ákvæði um að smærri skólarnir fái aukinn stundafjölda til þess að sinna þeirri kennslu sem nauðsynleg er til þess að nemendur fari einmitt ekki úr heimabyggðinni eins og oft vill verða vegna þess að næsti skóli getur boðið upp á miklu meiri fjölbreytni. Á eftir 2. mgr. komi hins vegar einmitt það sem ég minntist á hér rétt áðan. Ég vil bæta þar inn þessari setningu : „Auk þess bætist við sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda uppi sérkennslu fatlaðra nemenda.“

Ég gerði fatlaða nemendur mjög að umræðuefni við 1. umr. málsins og mig langar til að taka það aðeins upp aftur. Fulltrúar sérkennara komu til okkar á nefndarfundi og höfðu þeir einmitt áhyggjur af hag sinna nemenda í þessum lögum. Mig langar aðeins til þess að vitna til greinar sem Dóra S. Bjarnason skrifaði í síðasta hefti Nýrra menntamála, en hún hefur mikla reynslu af kennslu fatlaðra nemenda, og fjallar um þau mál sérstaklega við Kennaraháskóla Íslands. Hún er nýkomin frá Ameríku þar sem hún kynnti sér einmitt blöndun nemenda í skólunum. Ég held að það þýði ekkert að vera að setja lög þar sem ekki er alveg ljóst að þessir nemendur eigi í alvöru aðgang inn í skólana. En ég ætla aðeins að lesa úr því sem hún skrifar í síðasta hefti Nýrra menntamála þar sem hún er að greina frá blöndun í bekki í Bandaríkjunum. Fyrirsögn þessarar klausu sem ég ætla að lesa er: „Blöndun er bæði hugsjón og aðferð.“ Ég les hluta úr greininni, með leyfi forseta:

„R. Bogdan prófessor við Syracuse-háskólann í New York fylki, sem hefur rannsakað blöndun fatlaðra og ófatlaðra í skóla og samfélagi um árabil, hefur komist svo að orði:

Það er engin spurning hvort blanda eigi fötluðum nemendum og ófötluðum, heldur hvernig. Það er ekki ósvipað því að spyrja hvort blöndun eigi rétt á sér og að spyrja hvort hjónabönd eða mánudagar eigi rétt á sér. Við þekkjum öll dæmi um góð og vond hjónabönd og höfum reynt bæði góða og vonda mánudaga. Fólk sem er fatlað er hluti lífsins hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þess vegna ættum við að spyrja: Hvernig mætti fjölga góðum hjónaböndum, lifa fleiri góða mánudaga en vonda og blanda betur fötluðum og ófötluðum nemendum í skóla og samfélagi og fleirum til gagns en nú er?"

„Blöndun“ er hugtak sem felur það í sér að menn viðurkenni og virði hver annan þótt þeir séu ólíkir. Hinn ófatlaði lítur samkvæmt þessu á hinn fatlaða sem manneskju með tiltekin persónueinkenni og því fullverðuga hvar sem er. Það er deginum ljósara að við erum hvert öðru háð, þurfum mismikla hjálp, en getum ræktað vinsamleg samskipti, átt ánægjulega samveru og bundist vináttu þótt við séum ólík. Samneyti við fólk sem er ólíkt okkur sjálfum er nauðsynlegt því það víkkar sjóndeildarhringinn og glæðir skilning bæði á sjálfum okkur og öðrum. Blöndun er því ekki einkamál þeirra sem eru að einhverju leyti frábrugðnir okkur hinum.

Blöndun vísar einnig til þess að öll þjónusta við fatlað fólk er veitt á þeim stöðum sem þjóna almennum borgurum. Þetta á ekki síst við um skóla, en þá þarf að aðlaga að sérþörfum fatlaðra nemenda, bæði hvað snertir ytri aðstöðu og þjónustu. Slíkar breytingar gerast ekki í einu vetfangi, allra síst í skólum. Hins vegar ber að stefna að því í fullri alvöru að foreldrar, nemendur og kennarar eigi kost á að velja milli skóla sem leggja ríka áherslu á blöndun og hefðbundnari skóla.

Blöndun vísar í þriðja lagi til samskipta. Samskipti fólks sem er mikið fatlað og annarra mótast ekki eðlilega af sjálfu sér. Fordómar, ótti, meðaumkun og eðlilegur klaufaskapur gagnvart því sem við eigum ekki að venjast er flestum ígróinn. Reyndar á þetta við um ýmis önnur samskipti, svo sem fólks af mismunandi litarhætti, trúflokki eða þjóðerni — og jafnvel milli kynja. Skóli sem vill vinna að blöndun þarf að undirbúa, skipuleggja og móta samskipti nemenda, sérkennara almennra kennara og annars starfsfólks. Einungis þannig má greiða fyrir gagnkvæmri viðurkenningu og samvinnu ólíkra nemenda. Rannsóknir á blöndun í skóla benda til þess að þegar vel tekst að móta samskipti nemenda auðgi slíkt reynslu allra barnanna og glæði jákvæða sjálfsmynd þeirra. Þá veitir slíkt fötluðum nemendum góðar fyrirmyndir og stuðlar að auðugra lífi og breiðari vinahópi nemenda.

Blöndun í skóla og samfélagi er þannig bæði hugsjón og aðferð en hvorugt getur án hins verið.“

Ég vil aðeins hnykkja á því hér og ítreka að ég tel mjög mikilvægt, eins og ég sagði reyndar hér við 1. umr., að það sé í alvöru opnaður sá möguleiki að fatlaðir nemendur eigi fullan aðgang að framhaldsskólanum. Reyndar kom líka fram í máli þessara nemenda sem heimsóttu okkur að þeir töldu það alveg sjálfsagt.

Við 39. gr. höfum við gert þá athugasemd að við viljum bæta við nýjum málslið. Þar er kveðið á um lán á skólahúsnæði og leigu á því og við viljum hafa það líka alveg ljóst að þar sé ekki um lán á húsnæði til félagsstarfsemi nemenda að ræða og þess vegna gerum við það að tillögu okkar að við bætist: „Greinin tekur ekki til félagsstarfsemi nemenda skólans.“ Það er gert í því skyni að tryggja að nemendum og félögum þeirra, þ.e. nemendafélögum, verði ekki gert að greiða húsaleigu fyrir félagsstarfsemi sína og ég hlýt að reikna með því að þeir gangi örugglega fyrir með húsnæði skólans.

Varðandi þau lög, sem úr gildi falla, teljum við ekki rétt að lög um hússtjórnarfræðslu falli út þó að slík kennsla sé í sumum framhaldsskólum og hún er reyndar að mjög takmörkuðu leyti. Þessi kennsla hefur verið vanrækt að miklu leyti. Aðstæður eru mjög mismunandi í skólum til að sinna þessari kennslu í heimilisfræðslu og jafnvel eru dæmi um að hún sé svo slæleg, þ.e. alls engin, að kennarar taki nemendur með sér heim í sitt eigið eldhús til þess að kenna þeim það sem allir auðvitað þurfa að kunna upp á framtíðina. Þess vegna vildum við, meðan ekki hefur neitt sérstakt komið í staðinn, þó að hér séu brautir í örfáum skólum, frekar sjá þessi lög endurskoðuð og aðlöguð að nútímanum. Þau voru vissulega orðin úrelt og hússtjórnarskólarnir, eins og þeir voru, voru úreltir, enda tæmdust þeir. Hins vegar er mjög nauðsynlegt að halda mjög öflugri kennslu uppi í þessum greinum fyrir bæði stúlkur og drengi, í grunnskóla og framhaldsskóla. Þess vegna viljum við halda þessu inni og leggjum því frekar áherslu á að þessi lög sem nú eru í gildi verði endurskoðuð.

Þá hef ég farið nokkrum orðum um þessar brtt. okkar kvennalistakvenna.

Ég vil enn og aftur koma að skólanefndinni sem er það atriði sem við sættum okkur allra síst við í frv. Þar finnst okkur, eins og ég hef margoft nefnt, að hlutur kennara og fagfólks sé fyrir borð borinn. Ég gat þess reyndar í 1. umr. um málið að sumir hafa hrósað skólanefndum og ég efast ekki um að í skólanefndir getur valist fólk sem hefur ágæta möguleika á því að kynna sér skólastarfið, en það er hæpið að slík pólitískt kjörin nefnd sem ekki hefur þetta að neinu aðalstarfi geti sett sig inn í skólamálin eins og nauðsynlegt er til þess að fylgjast með þróun skólamála og námsframboði í skólanum. Það er því algjört höfuðatriði í mínum augum að fagþekking þeirra sem við skólana starfa sé virt og henni sé ætlað eitthvert hlutverk í skólunum.

Það hefur verið talað um að hér væri um valddreifingu að ræða, en þá ber þess að geta að formaður skólanefndar er skipaður af menntmrn. sem þýðir þá væntanlega að skólanefnd getur skipt um formann með örstuttu millibili. Þetta gefur auðvitað líka menntamálaráðherrum ákveðið vald og ég ítreka það að það er ekki endilega svo að pólitískt kjörnir fulltrúar séu endilega fulltrúar þeirra einstaklinga sem sveitarfélagið byggja og ég vil ekki líta svo á að kennarar, skólameistarar og nemendur í viðkomandi skóla séu ekki fulltrúar borgaranna á hverjum stað, þeir séu ekki hluti af samfélaginu.

Ég vitnaði í nál. í þrjár umsagnir um skólanefndir. Það er auðvitað umdeilanlegt hvernig á að skipa yfirstjórn svona stofnunar. Þetta er tillaga okkar sem ég hef borið fram að það verði þeir sem við skólann starfa, en mig langaði til að lokum að vitna aðeins til greinargerðar frá Sambandi sérskóla, en þar segir um 7. gr., með leyfi forseta: „Í reglugerð sem nefnd er í þessari grein komi ákvæði um að fulltrúi úr kennarahópi skólans sitji í skólanefnd.“

Þetta er gegnumgangandi að allir telja nauðsynlegt að það séu fagleg sjónarmið þarna inni. Hér er bara hógværlega beðið um fulltrúa kennara í skólanefndina því að það er auðvitað svo að telja má óöruggt að kennarar eru einn af burðarásum skólahaldsins og því mjög eðlilegt að þeir séu með þar sem ákvarðanir eru teknar. Annað er í andstöðu við anda atvinnulýðræðisins.

Mig langar aðeins að lokum að lesa eina umsögn til viðbótar sem kom 18. apríl frá Bandalagi háskólamanna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Menntamálanefnd BHM fagnar því að nú sést hilla undir lagasetningu um framhaldsskóla, enda hefur oft verið á því klifað undanfarin ár að naumast sé vansalaust að reka hér viðamikið framhaldsskólakerfi án þess að nokkur löggjöf nái utan um það allt.

Margir eru sammála um það, og vísa til margvíslegra skýrslna, að skólastarf á Íslandi sé alls ekki eins og best verður á kosið. Í skýrslu menntamálanefndar Efnahags- og framfarastofnunar er oftar en einu sinni að því vikið að mjög skorti á fagmennsku í skólastarfinu. Í sama streng hafa margir skólamenn tekið. Allir hafa þeir bent á að með bættri kennaramenntun, aukinni sérfræðiþekkingu kennara hlyti að koma upp sú stétt fagmanna sem öðrum fremur væri fær um að leiða skólana í faglegum vinnubrögðum.

Árið 1986 voru sett lög um lögverndun starfsheitanna grunnskólakennari og framhaldsskólakennari sem og viðkomandi starfsheita skólastjórnenda. Það var yfirlýstur vilji stjórnvalda að stuðla með þeim hætti að ábyrgri fagmennsku í skólastarfi. Það væri því eðlilegt að löggjöf um framhaldsskóla tæki af öll tvímæli um að hinir eiginlegu fagmenn í skólastarfi séu kennarar og stjórnendur skólanna.

Í umræðum um frv. hefur þess oft verið getið að gera eigi skólana sjálfstæðari. Þá hefur mátt ætla að skólameisturum og kennurum yrðu falin aukin völd. Í frv. er þvert á móti gengið mjög langt í gagnstæða átt, en samkvæmt því virðist skólanefndum, sem skipa á við hvern skóla, ætlað að hafa flest ráð skólanna í hendi sér.

Eftirfarandi ákvæði í frv. vekja bæði furðu og vonbrigði:

„Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar“. (7. gr.) „Skólanefnd og skólameistari marka stefnu í skólahaldi og ákveða námsframboð með samþykki menntmrn." Síðan þetta bréf barst hefur reyndar orðið þarna á breyting, en hér segir áfram:

„Um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti skal nánar kveðið á um í reglum sem skólanefnd setur.“ (9. gr.)

„Um almenna kennarafundi og verksvið þeirra skal ákvarða í reglum sem skólanefnd setur.“ Þarna hefur reyndar, vegna þess að bréfið er úrelt, orðið breyting á. Bréfið er úrelt að örlitlu leyti.

"Menntmrn. setur skólameisturum erindisbréf. Reglur um störf annars starfsfólks setur skólanefnd.“ (13. gr.)

Ofangreind ákvæði í frv. vekja enn meiri furðu þegar haft er í huga að engin trygging er fyrir því að í skólanefnd sitji nokkur maður með faglega þekkingu á skólastarfi.“

Hér læt ég lokið lestri mínum úr þessari umsögn Bandalags háskólamanna. Ég vil enn og aftur ítreka það að ég hefði viljað sjá frv. verða frv. sem við gátum staðið saman um, en vegna þessarar þráhyggju að pólitískt kjörnar nefndir skuli vera yfir stofnun eins og skólum gat því miður ekki orðið svo og þess vegna eru þessar brtt. gerðar.