06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7639 í B-deild Alþingistíðinda. (5654)

271. mál, framhaldsskólar

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur á nál. meiri hl. þá á ég sæti í menntmn. og stend að þessu nál. meiri hl. par sem lagt er til að frv. verði samþykkt óbreytt. Ég veit að öllum nefndarmönnum og einnig áheyrnarnefndarmönnum í menntmn. er vel kunnugt um að ástæðan fyrir því að þessi niðurstaða varð er sú að ég held að allir geri sér grein fyrir því að það sé betra að afgreiða frv. heldur en að eiga það á hættu að þurfa að senda það til baka til Nd. og að það komist ekki í gegnum þingið einfaldlega vegna þess að Nd. hefur fjallað miklu ítarlegar um frv. heldur en við í hv. Ed. og gerði á því ýmsar breytingar eftir að hafa fengið umsagnir og til viðtals sömu aðila og við fengum í menntmn. hv. Ed.

Hv. 7. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Vesturl. hafa báðir gert grein fyrir áliti minni hl. og brtt. sem þau flytja sitt á hvoru þskj. þannig að ég ætla nú ekki að fara að fjalla um þau atriði. En af því að hv. 7. þm. Reykv. dvaldi nokkuð við skólanefndirnar og einnig hv. 6. þm. Vesturl. þá er það rétt sem þar kom fram að þetta var nokkuð rætt í nefndinni og e.t.v. eru skiptar skoðanir á því máli. En niðurstaðan varð sú sem kemur fram í nál. meiri hl. að þetta fari óbreytt.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna að sjálf hef ég starfað í skólanefnd sem er kosin með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem gerist nú yfirleitt alls staðar úti á landsbyggðinni og við þekkjum sem komum úr sveitahreppunum. Því að þó að minn gamli góði sveitahreppur, sem ég nefni svo með söknuði, sé nú orðinn bær þá vorum við einmitt í þessari aðstöðu að vera með skólanefndir sem hreppsnefndirnar kjósa. Auðvitað eru slíkar nefndir samansettar í hlutfalli við það hvernig er kosið til hreppsnefndar. Þetta þekkja sveitarstjórnarmenn. Ég get einnig nefnt það að í minni sveit var starfandi gagnfræðaskóli á sínum tíma sem var rekinn sameiginlega af þremur hreppum og þá áttu hrepparnir sína fulltrúa í skólanefndinni. Ég veit ekki til þess að þessar skólanefndir hafi nokkurn tímann lent í vandræðum þrátt fyrir að þær væru svona kosnar vegna þess að ég held að það gerist nákvæmlega á sama hátt og hreppsnefndir starfa. Nú getum við sem höfum verið í hreppsnefndum kannski ekki talað út frá sjónarhorni höfuðborgarinnar, en við þekkjum það að slíkar nefndir, hvort sem það eru hreppsnefndir eða skólanefndir, starfa málefnalega eftir kosningar. Það er svo einfalt mál. Þær hafa þessi sameiginlegu hagsmunamál, gæta hagsmuna sinna skóla og ég hef aldrei orðið vör við flokkspólitíska togstreitu í starfi slíkra skólanefnda. Ég segi þetta af því að ég er aðeins að reyna að hugga þá hv. þm. hafa svona miklar áhyggjur af væntanlegum skólanefndum vegna þess hvernig er gert ráð fyrir að staðið verði að kjöri í þær.

Þá langar mig einnig að nefna það að mér kom svolítið á óvart að heyra hv. 7. þm. Reykv. tala um skólastarfið og skólanefndirnar á þá leið að af því að þær yrðu svona kosnar „þá væru menn að kássast upp á innri mál skólans sem kæmi þau ekkert við“, eins og hann orðaði það. Þetta get ég alls ekki fallist á vegna þess að í nútímanum finnst mér það vera meginmálið að opna skólastarfið en ekki að loka því. Og að tala um að t.d. foreldrar eða þeir sem láta sig varða starfið í viðkomandi skóla séu að kássast upp á og skipta sér af skólastarfinu ef þeir hafa einhvern áhuga á því sem er að gerast þar í daglegum rekstri, ég satt að segja næ ekki þessari hugsun og ég held að þetta hafi hreinlega meira verið sagt í gamni en alvöru. Ég vil ekki ætla hv. 7. þm. Reykv. þessa skoðun öðruvísi en að hann hafi meira verið að stríða með þessu, að kalla þetta makalausar skólanefndir. Ég bara næ því ekki og ég er alveg viss um að hv. 4. þm. Suðurl., flokkssystir hv. 7. þm. Reykv., er mér sammála. Ég er alveg viss um það.

Eins og fram kom þá fengum við ýmsa aðila á fund nefndarinnar og sérstaklega hagsmunaaðila fatlaðra sem hér hefur líka aðallega verið fjallað um í þessari umræðu. Það er kannski fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem ég fann hvöt hjá mér til að taka hér til máls því það voru sérstaklega þeir tveir fulltrúar sem komu á fund nefndarinnar í gærmorgun frá félaginu Þroskahjálp, formaður félagsins og Dóra Bjarnason sem er líklega formaður menntamálanefndar innan þeirra samtaka og einnig við Kennaraháskólann. Hv. 6. þm. Vesturl. las reyndar hér nokkuð úr mjög fróðlegri og ágætri grein sem Dóra Bjarnason skrifaði um þessi mál í Ný menntamál. Ég get ekki að því gert að ég hef tilhneigingu til þess að hlusta á það sem þær voru að segja og skil vel áhyggjur þeirra vegna skjólstæðinga sinna. Ég held að það sé vissulega ástæða fyrir því og ekki óeðlilegt að þær hafi áhyggjur af því hvað verði um þessa nemendur og að það verði kannski erfitt að sinna þeim þannig að hver og einn geti fengið þá menntun og þann þroska sem til er ætlast innan framhaldsskólakerfisins, eins og það er uppbyggt, ef ekki eru gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að sinna þeirra sérþörfum. Það er einmitt það sem þær lögðu áherslu á og báru kvíðboga fyrir. Og vil ég sérstaklega benda á það að það var gerð breyting á 30. gr. frv. í Nd. Einmitt vegna þessara hagsmunaaðila var sett inn í 30. gr. þetta ákvæði um sérskólana, sem hv. 7. þm. Reykv. er einmitt með brtt. um, eftir þeirra ósk og það er um að það komi „sérdeildir“ í staðinn fyrir „sérskóla“. Að mínu mati hefði þetta hvort tveggja kannski átt að vera inni til að kveða skýrar á um að þarna væri átt við hvort tveggja; að það væru til nemendur sem verða að vera í sérskóla en einnig margir aðrir sem geta verið inni í venjulegum framhaldsskóla, þó þannig að þeir séu í sérdeildum, auk hinna sem geta verið í almennum bekkjum með vissri aðstoð. Þess vegna vildi ég ítreka og leggja ríka áherslu á það að hagsmuna þessara nemenda verði gætt enda þótt ekki sé hægt að verða við því að breyta þessu ákvæði í lögunum. Ég vil leyfa mér að skilja þetta svo að það sé ekki ætlunin með því að setja þetta ákvæði „sérskólana“ inn í 30. gr., eins og hún kom frá Nd., að beina öllum fötluðum nemendum eða þroskaheftum í þann farveg, heldur verði lögð áhersla á að koma þeim í blönduðu bekkina eins og kostur er. Og það sé aðeins neyðarúrræði að þeir fari í sérskóla. Ég hef fengið þá skýringu að þetta hafi verið sett inn í frv. vegna þeirra sérskóla sem fyrir eru í landinu og hafa enga stoð í lögum ef þetta ákvæði er ekki þarna inni. Sjálf hefði ég gjarnan viljað að þessu væri breytt. En ég skil það og fellst á það að við verðum að koma þessu óbreyttu í gegnum deildina til þess að það þurfi ekki að tefja málið með því að láta það fara til baka í Nd.

Ég vil aðeins að lokum segja það varðandi málefni fatlaðra að það hafa orðið svo miklar breytingar til góðs á undanförnum árum eða áratugum að ég held að því mætti næstum líkja við byltingu. Það eru ekki margir áratugir síðan að lausnin var helst sú að loka t.d. vangefna hreinlega inni á stofnunum og geyma þá þar. Þetta er sem betur fer liðin tíð og viðhorf til öryrkja almennt, hvort sem þeir eru andlega eða líkamlega fatlaðir, hafa gjörbreyst. Ég held að það sé alveg ljóst að þjóðfélagið viðurkennir rétt þessara hópa. Það hefur sýnt sig bæði í lagasetningu og hvernig staða þessara hópa er í dag miðað við það sem áður var.

Ég gæti nefnt eitt lítið dæmi: Þegar ég var á leiðinni heim til mín í gær og var að aka hérna Sóleyjargötuna þá sá ég ungan hressan mann, ég tók eftir honum af því að hann var í rauðri peysu, og hann hoppaði eftir götunni brosandi og lífsglaður. Það eru ekki mörg ár síðan þessi ungi maður var á heimili fyrir vangefna sem ég hafði nokkur afskipti af hér á árum áður. En hann er einn af þeim sem hafa verið útskrifaðir. Og það er eitt af þessum markmiðum og er kannski staðfesting á því sem ég var að segja að viðhorfin eru breytt því nú útskrifast menn jafnvel af heimilum fyrir vangefna, en það hefði ekki gerst hér áður.

Þetta vildi ég aðeins láta koma hér fram. Láta mín viðhorf koma fram og ítreka það að ég treysti því og vil undirstrika þá stefnu í skólamálum fatlaðra, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, að þeir stundi nám í almennum skólum eftir því sem mögulegt er. Og það sé aðeins neyðarúrræði þegar þeir þurfa að fara í sérskóla.