06.05.1988
Efri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7642 í B-deild Alþingistíðinda. (5655)

271. mál, framhaldsskólar

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég átti sæti í menntmn. Ed. en þar sem ég átti þess ekki kost að mæta á síðasta fund nefndarinnar þá liggur ekki fyrir mín afstaða til þessa frv. á gögnum, hvorki hjá minni hl. né meiri hl. Mín skoðun er sú að hér sé gott frv. á ferð en ég vil samt gera nokkrar athugasemdir, ekki er varðar frv. sem slíkt heldur almennt um þessi mál, framhaldsskólamál, og þá tengjast því að sjálfsögðu einstök atriði sem hér er komið inn á. Ég vil sem sagt í upphafi lýsa stuðningi mínum við þetta frv. en hins vegar tel ég að nokkur atriði séu umdeilanleg og þá sérstaklega þau sem hafa verið gerð hér að umtalsefni, þ.e. skipun skólanefnda.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að sú tilhögun sem mælt er fyrir í þessu frv. sé af hinu góða, að með því að skipa utanaðkomandi aðila í skólanefndirnar opnist skólastarfið og kannski koma nýjar hugmyndir inn. Ég held einmitt að það sé mjög nauðsynlegt að skólarnir séu í tengslum bæði við atvinnulífið og umhverfið að öðru leyti. Mér hefði ekki fundist það af hinu góða ef í þessu frv. hefðu skólanefndir eingöngu verið skipaðar kennurum því að með því móti lokast skólastofnunin af og skólarnir eru meira orðnir að hagsmunabaráttu heldur en að horft sé til hlutverks skólans og hvernig hann geti komist betur inn í það samfélag sem hann á að þjóna. Þetta er það atriði sem mest hefur verið rætt hér um, það er skipun þessara nefnda. Síðan er það annað atriði í tengslum við þetta, að ég tel það hagstæðara að skólanefndirnar séu skipaðar utanaðkomandi aðilum þegar á það er litið að þær hafa við fjárhagsleg málefni að fást og hvernig tengslin eru á milli ríkisvaldsins og síðan þessara skólanefnda.

Ég hef ekki ýkja miklar áhyggjur af að pólitísk sjónarmið ráði þó svo kunni að vera í vissum tilvikum og að á pappírunum megi líka líta til þess. Ég hef meiri trú á því að þeir menn sem væru ráðnir í þessar skólanefndir hugsi fyrst og fremst um hagsmuni stofnunarinnar heldur en þeir stjórnist af einhverjum pólitískum litum. Ég vil því ekki taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hér hjá þeim sem skilað hafa minnihluta áliti um þetta frv.

Ég er þó ekki með þessu að taka upp hanskann fyrir Sjálfstfl. en þetta er mín skoðun sem ég lýsi hér og mér finnst einmitt að það sem vanti sé nýtt blóð í skólastarfið. (SvG: Það kemur úr borgarstjórn Reykjavíkur, nýtt blóð.) Hins vegar er ég einnig að tala um það að þessar skólanefndir geta undir vissum kringumstæðum virkað sem dragbítur á skólastarfið og ég get vel fallist á það með hv. 7. þm. Reykv. að ég á nú ekki von á því að í Menntaskólanum í Reykjavík verði samkomulag um öll atriði. En þá er líka spurningin hvor virkar sem dragbítur á hvorn.

Við 1. umr. þessa frv. ræddi samflokksmaður minn, Júlíus Sólnes, almennt um framhaldsskóla og hvernig ætti að haga frv. og því starfi sem þar á að fara fram. Minntist hann á að það þyrfti að huga að mörgu og þá sérstaklega því hvernig framhaldsskólanám ætti að vera undirbúningur undir háskólanám. En eins og við höfum oft rætt um hér í vetur þá vantar mjög tilfinnanlega heildarstefnu um málefni Háskólans og allra þeirra háskóla sem nú hafa risið. Ég held að með þessu frv., sem ég vona svo sannarlega að fari í gegn, verði tekið mjög alvarlega á þeim málum er varða Háskólann.

En ég vil ekki fara héðan úr ræðustól fyrr en ég er búinn að minnast aðeins á málefni fatlaðra og geta þeirrar miklu umræðu sem var í nefndinni um þau og áhyggjur fatlaðra út af þessu frv. Þeir telja að í frv. sé ekki komið til móts við þá nema að takmörkuðu leyti. Ég get nú undir vissum kringumstæðum fallist á það en tel samt að þær breytingar sem gerðar voru í meðförum frv. í Nd. séu til mikilla bóta. Ég á erfitt með að sjá það í framkvæmd, eins og fulltrúar frá Heyrnleysingjaskólanum mæla með, að hverjum nemanda sem vill stunda nám á framhaldsskólastigi eigi að fylgja talkennari og ég vísa til þess sem upplýst hefur verið að það eru mjög fáir með slíka menntun hér á landi og þegar af þeirri ástæðu er þetta fallið um sjálft sig. Hins vegar vil ég endilega að þessi hópur þjóðfélagsþegnanna, þeir sem eiga við einhverja fötlun að stríða, fái þá bestu þjónustu er þjóðfélagið getur boðið upp á, bæði á sviði menntamála og annarra og mun skora á menntmrh. að reyna að finna leiðir til þess að svo geti orðið.

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að ég mun styðja þetta frv. þó að það sé ekki alveg eins og ég mundi vilja hafa það í einstökum atriðum sem langt mál yrði að tala um. En hér er um rammalöggjöf að ræða sem gefur svigrúm á mörgum sviðum og tel ég það vera mjög heppilegt. Ég vil ekki hafa þessi orð lengri en skora á þm. að sameinast um þetta frv.