06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7663 í B-deild Alþingistíðinda. (5685)

436. mál, bifreiðagjald

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er flutt frv. til staðfestingar á ákvæðum brbl. frá því að hæstv. ríkisstjórn gerði efnahagsráðstafanir sínar sl. sumar og ákvað að leggja á svonefnt bifreiðagjald ásamt með fleiru og landsmenn hafa nú fengið að reyna á sjálfum sér og buddum sínum í fyrsta sinn í sambandi við iðgjöld af bifreiðum á þessu ári.

Eitt af því sem harðlega var gagnrýnt við setningu þessara brbl. á sínum tíma var sú staðreynd að þetta gjald gekk út yfir allar bifreiðir, þar með talið bifreiðir öryrkja og aldraðra, fornbíla, ökutæki björgunarsveita o.s.frv. og alla bíla sem eiginlega nokkurn tímann hafa komið upp á hólmann, hvort sem þeir voru lífs eða liðnir. Reyndar týndu bifreiðar landsmanna nokkuð tölunni við þessar aðgerðir og var það svo sem út af fyrir sig ágætt að skráning bifreiða kemst væntanlega í framhaldi af þessu í betra horf en áður var, en hinu verður ekki á móti mælt að þarna var lagður nýr skattur á bifreiðaeigendur, þar með talið t.d. öryrkja og fatlað fólk, sem fær sérstakan stuðning til að kaupa bifreiðir í formi niðurfellingar gjalda. Þarna fannst mönnum hægri höndin ekki vita hvað sú vinstri var að gjöra.

Hæstv. ráðherra hefur heimildir til að setja reglugerðir og undanskilja vissa hópa greiðslu þessara gjalda. Nú er hér til umræðu á fimmta mánuði ársins 1988 frv. til laga um staðfestingu á þessum ráðstöfunum sem bráðum eru ársgamlar og enn er á ferðinni heimildarákvæði til að setja reglugerðir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hafa engar slíkar reglugerðir verið samdar? Liggur ekki fyrir hverjir verði undanþegnir þessu gjaldi? Og hver er þá stefna hæstv. ráðherra í þeim efnum? Ég tel eðlilegt að Alþingi verði upplýst um þetta áður en málið verður hér afgreitt og vil a.m.k. fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til að flytja þá brtt. við þetta frv. ef hæstv. ráðherra getur ekki gefið einhver skýlaus svör um hvað hann hyggist fyrir í þessum efnum. Auðvitað hefði verið eðlilegt með tilliti til forsögu málsins að það hefðu þegar legið fyrir drög að reglugerð um þetta efni.