06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7668 í B-deild Alþingistíðinda. (5688)

436. mál, bifreiðagjald

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir það sem hann sagði um þetta mál. Það er rétt, sem fram kom, að það er merkilegt að landsbyggðarþingmenn t.d. í Ed., sem hafa fjallað um þetta mál, skyldu standa að því að samþykkja þetta í því formi sem það er því að þetta gjald verkar þannig að það eykur misréttið í þjóðfélaginu þar sem menn verða að borga meira eftir því hvar þeir búa og hvaða aðstæður þeir hafa.

Við fluttum nokkrir hv. þm. frv. um að leggja niður söluskatt á flutningskostnað og ég átti tal við hæstv. fjmrh. um það efni og mér skildist þá á honum að hann hefði á því skilning og upplýsti mig um að þeir hjá honum í ráðuneytinu hefðu metið það svo að þetta gæti munað allt að 6% í vöruverði miðað við það frv. sem við fluttum, en þar lögðum við til að verslunarálagning væri ekki heimil á þennan hluta af kostnaði vörunnar. Þetta mál var rætt á fundi norður í Eyjafirði og þar voru m.a. kaupmenn sem ræddu þetta mál. Einn af þeim sem þar talaði selur m.a. ísskápa og hann gat um að þetta munaði verulegu, t.d. að það kostaði verulega upphæð að flytja ísskáp frá Reykjavík til Akureyrar. Hann sagðist hafa orðið var við að menn keyptu þessa vöru í Reykjavík vegna þess að það borgaði sig miðað við að þurfa að borga til viðbótar söluskatt af flutningskostnaði.

En á sama tíma sem ríkissjóður sjálfur leggur ekki fram fjármagn í vegina er þessi skattlagning og á að halda áfram þrátt fyrir það sem hæstv. fjmrh. segir um tekjuöflun ríkissjóðs eða hvernig hún horfi á yfirstandandi ári. En það er alveg sama hvað við leggjum til til að minnka aðstöðumuninn. Alltaf er bætt við nýju og nýju máli til þess að auka hann eins og t.d. er í sambandi við þetta bifreiðagjald. Ýmsir, t.d. fátækir bændur, hafa neyðst til að leggja vörubílum sem þeir eiga og segja að það borgi sig frekar að kaupa aksturinn því að gjöldin á þessu séu orðin svo há, fyrst og fremst að vísu tryggingagjöldin, en einnig þetta gjald til viðbótar.

Ég tók eftir því, og ég vona það að ég hafi tekið rétt eftir, að þegar hæstv. fjmrh. talaði áðan sagði hann að að væri heimilað að fella niður þessi gjöld fyrir öryrkja sem væru orðnir 67 ára gamlir. En hvernig er með hina? Hvernig er með þá öryrkja sem eru yngri? (Fjmrh.: Það er niður fellt.) Það er niður fellt, en ráðherra tók þannig til orða að það var hægt að skilja mál hans þannig að það væru þeir sem væru öryrkjar, ellilífeyrisþegar sem væru orðnir 67 ára. En það er ágætt að þetta leiðréttist. En það er líka spurningin um hvort á ekki að fara eitthvað eftir tekjumörkum. Nú er alltaf verið að tala um að rauntekjur hafi hækkað, en taka menn inn í það dæmi t.d. þessi gjöld öll sem eru sett á landsmenn? Taka menn, þegar menn eru að reikna hvernig launin duga, vextina, þessi gjöld og þannig mætti lengi telja? Eru það aðeins þær nauðsynjar sem menn kalla? Eru þetta ekki líka nauðsynjar? Er það ekki orðið viðurkennt að það sé nauðsyn að menn ferðast og flytja allt með bifreiðum? Er nóg að það sé bara verðið á matvörunni eða öðrum nauðsynjavörum? Þarf ekki að taka vextina og allt inn í þetta dæmi? Það væri gaman að heyra fjmrh. útskýra við hvað hæstv. ráðherrar miða þegar þeir eru að tala um að rauntekjurnar hafi aukist svo og svo á t.d. sl. ári. Er vaxtaokrið þar inni í og þessi nýju gjöld? Er tekið tillit til þeirra? Það a.m.k. dreg ég í efa. Ef það er rétt að ástæður ríkissjóðs séu eins og hæstv. ráðherrar vilja vera láta held ég að þeir ættu að stíga fyrsta skrefið í því að reyna að jafna lífsaðstöðuna í þessu landi með því að fella þennan skatt niður og draga frv. til baka.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig landsbyggðarþingmennirnir bregðast við þessu frv. Verður það eins og í Ed., að þegar forustumennirnir segja: Upp með hendurnar, þá geri þeir það þó að þeir skilji það og viti af eigin reynslu að þarna er verið að auka misréttið í þjóðfélaginu með svona skatti?

Ég hefði líka viljað heyra það hjá hæstv. fjmrh.: Þegar hann talaði um allt að 6% sem mundi lækka vöruverðið, náttúrlega eftir ýmsu, eftir vegalengdum, en allt að því þar sem lengst er, tóku ráðuneytismenn þá tillit t.d. til áhrifa af þessum skatti í því dæmi? Ég dreg það mjög í efa eftir útreikningum og ég hef borið mig saman við menn sem geta áreiðanlega reiknað á við þessa menn í ráðuneytinu eða ýmsa aðra embættismenn eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. vitnaði í einn í gær. Ég held að hann sé ekki neinn reiknimeistari og þeir séu það ekki sumir í ráðuneytunum ef maður á að taka sumt bókstaflega sem er verið að segja í þessum ræðustól.

Það væri t.d. gaman að heyra í hv. þm. Páli Péturssyni hvort honum finnst að þetta sé skref í átt til réttlætis í þjóðfélaginu. Ég veit hvernig Páli líður í þessari ríkisstjórn. Hann hlýtur að heyra hljóðið í sínum mönnum þegar ég heyri það til Reykjavíkur eða til Eyjafjarðar. Ég held að þeir séu ekki beinlínis, hans menn, hrifnir af svona sköttum. En það er eiginlega sama hvert er litið. Við sjáum það og heyrum að sveitarfélögin úti á landi vantar mjög tekjur til að geta bjargað sér. Við höfum heyrt neyðarópin þaðan, en á sama tíma veit borgarstjórinn í Reykjavík ekki hvernig hann á að koma fyrir því fjármagni sem borgin fær. Við sjáum það nú að það er verið að fylla upp Tjörnina að hluta til og á að byggja þar stórhýsi og það á að fara að byggja eitthvað uppi á Öskjuhlíðinni, eitthvað sem er í líkingu við sýningarturn í Lundúnum hjá járnfrúnni, og fleira mætti upp telja.

Ég vil ekki lengja þessar umræður, en ég endurtek þá spurningu til hæstv. fjmrh.: Sé það, sem hann hefur talið í þessum ræðustól, að gjöld til ríkisins hafi innheimst þannig að ríkissjóður standi vel, vill hann þá ekki stíga fyrsta skrefið til réttlætisáttar í þessu þjóðfélagi með því að taka nú þetta frv. til baka?