06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7674 í B-deild Alþingistíðinda. (5695)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á l. nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, frá félmn. Eins og allir hv. þm. vita, þegar mælt var fyrir þessu frv., þá er hér um að ræða breytingu sem fyrst og fremst felst í því að afskiptum félmrh. og ákvörðun um innheimtuprósentu um útsvar verður hætt. Álagningarhlutfall útvars á tekjur manna á komandi ári er ákveðið fyrir 1. des. árið á undan af viðkomandi sveitarstjórn, en áður var þetta hlutfall ekki ákveðið fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að skil á staðgreiðslufé til sveitarfélaga verði sami hundraðshluti og álagningarhlutfallið sbr. þó 5. og 6. mgr., en áður var ekki reiknað með að þessi hlutföll væru endanlega þau sömu.

Í síðasta lagi er í 5. gr. lögð til sú breyting að ekki þurfi samþykki félmrh. fyrir sérstakri hækkun útsvara.

Þetta eru þau efnisatriði sem um er að ræða og í ákvæði til bráðabirgða eru tekin af öll tvímæli um að við álagningu og innheimtu útsvars af tekjum manna til ársloka 1988 skulu gilda ákvæði núgildandi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Nefndin fjallaði um þetta frv. og mælir með því að það verði samþykkt. Ingi Björn Albertsson sat fund nefndarinnar í stað Óla Þ. Guðbjartssonar og er samþykkur álitinu. Undir álitið skrifa auk formanns Birgir Dýrfjörð, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Eggert Haukdal og Kristín Einarsdóttir með fyrirvara.