12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

73. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Fyrirspyrjandi (María E. Ingvadóttir):

Herra forseti. Í lögum um Iðnlánasjóð kemur fram að sjóðnum er ætlað mikilvægt hlutverk við eflingu og uppbyggingu íslensks iðnaðar. Honum er ætlað að veita iðnfyrirtækjum lán til endurskipulagningar og til að ná betri hagræðingu. Einnig að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og aðgerðum sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu. Tekjur sínar hefur Iðnlánasjóður af iðnlánasjóðsgjaldi sem reiknað er af aðstöðugjaldsstofni iðnfyrirtækja, en iðnlánasjóðsgjaldi þessu hefur verið skipt þannig:, Vöruþróun og markaðsdeild 4/7, Útflutningsráð Íslands 2/7 og fjárfestingalánadeild 1/7. Framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs á að vera jafnt 4/7 hlutum iðnlánasjóðsgjalds, en var skert bæði árið 1986 og árið 1987. Á árinu 1987 var hlutur vöruþróunar og markaðsdeildar, þ.e. 4/7 Iðnlánasjóðsins 48 millj. kr., en framlag ríkissjóðs aðeins 25 millj. kr. eða samtals 72 millj. kr. Áætlaður 4/7 iðnlánasjóðsgjalds á árinu 1988 eru 62 millj. kr. þannig að um beina lækkun er að ræða upp á 10 millj. og er þá ekki tekið tillit til kostnaðarbreytinga. Því fjármagni sem veitt hefur verið til Iðntæknistofnunar og Útflutningsráðs Íslands hefur verið varið til að efla vöruþróun og auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja, þ.e. aðgerðir sem leiða eiga til betri vöru á hagstæðu framleiðsluverði. Beinir styrkir Iðnlánasjóðs til ýmissa sérverkefna Útflutningsráðs hafa beinlínis gert það mögulegt að ráðast í þau.

Markaðsmál eru mikilvægur þáttur sem lögð hefur verið aukin áhersla á síðustu ár. Þar er enn mikið óunnið og með aukinni þekkingu og reynslu mun það fjármagn og sú vinna sem lögð hefur verið í þann þátt skila sér að fullu. Nú þegar má sjá árangur af samvinnu Útflutningsráðs og þeirra fyrirtækja sem vinna skipulega að auknum útflutningi eða eru að undirbúa sig undir það. Samvinna Iðnlánasjóðs, Útflutningsráðs og Iðntæknistofnunar hefur verið til fyrirmyndar og á sinn þátt í því að ráðist hefur verið í stór og árangursrík verkefni. Í fjárlögum fyrir árið 1988 er stefnt að því að fella niður framlag ríkissjóðs til sjóða iðnaðarins. Það gefur auga leið að við þurfum á einhverju öðru að halda en því að draga úr uppbyggingu íslensks iðnaðar og því að kynna íslenskar iðnaðarvörur á erlendum mörkuðum. Það er nauðsynlegt að styðja við bakið á öllu því er getur orðið til eflingar íslenskum útflutningi íslensku efnahagslífi til góða. Lög um Iðnlánasjóð skulu endurskoðuð á næsta ári, en það þýðir ekki að draga úr starfsemi sjóðsins á meðan sú endurskoðun fer fram.