06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7680 í B-deild Alþingistíðinda. (5712)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég kem aðeins upp til að lýsa stuðningi við lagafrv. sem hér er flutt og enn fremur nál, frá fjh.- og viðskn. sem ég tel fullnægjandi í þessu máli.

Ég held að það væri ákaflega óeðlilegt ef Alþingi tæki ekki undir nauðsyn þess að taka af allan vafa í sambandi við mikilvægi þess að sú æðsta eftirlitsstofnun sem við höfum, þ.e. Ríkisendurskoðun, hafi fullan rétt til að kanna og fá tæmandi upplýsingar um það sem grunur leikur á að sé ekki í lagi í hvaða máli sem er. Ég teldi að það væri ákaflega gaman ef það væri eitthvað dregið úr gildi þess að sú stofnun hafi víðtækt vald til að rannsaka slík mál.

Auðvitað er hér um viðkvæm mál að ræða og dettur engum í hug að draga það í efa. Ég minni á að það hafa verið í gildi samningar á milli Læknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins um meðferð þessara mála og hefur oftar en einu sinni komið upp ágreiningur um þessi mál. Ég get endurtekið það hér að ég hef fyrr á Alþingi gagnrýnt þessi samskipti og komið með fullgild dæmi um nauðsyn þess að á þessum málum væri tekið á annan hátt.

Ég hef upplýst það hér að sú eftirlitsskylda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur er ekki fullnægjandi og hefur aldrei verið það. Sá aðili í Tryggingastofnuninni sem hefur átt að annast reglulegt eftirlit í sambandi við t.d. uppgjör sjúkrasamlaga við Tryggingastofnunina hefur verið í því formi árum saman, án þess að tryggingaráð eða aðrir slíkir hafi fengið rönd við reist, að þetta hefur verið langt á eftir, stundum allt upp í tvö til þrjú ár að komast hringinn um landið í því eftirliti sem Tryggingastofnun átti að annast í sambandi við t.d. reikninga frá sjúkrasamlögum í landinu. Þess vegna er orðin fullkomin ástæða til að taka á þessum málum á annan hátt.

Án þess að ég sé að áfellast einn eða neinn er ljóst að hér hafa komið í ljós ýmis atriði sem hafa leitt grun að því að ekki væri allt með felldu og núna hefur Ríkisendurskoðun verið sett upp í beinu sambandi við Alþingi sem á að fjalla um öll slík mái. Ég legg áherslu á að ég tel að brýn nauðsyn sé að frv. sem hér er til meðferðar verði að lögum. Allt sem getur styrkt Ríkisendurskoðun í því að vera réttur eftirlitsaðili með meðferð opinberra mála er af því góða og við þurfum að skapa Ríkisendurskoðun þann stuðning að þar verði ekki neinn meinbugur á. Ég tel að þetta mál sé alveg sérstaks eðlis og það er löngu, löngu kominn tími til að taka sterkt á þessu máli.