06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7681 í B-deild Alþingistíðinda. (5713)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki von að mönnum gefist tími til að skoða mál sem er verið að keyra í gegn á síðustu dögum þingsins. Menn hafa talað hver í kapp við annan um að það hafi verið ágreiningur um þessi mál, það sé ágreiningur um þau. Af hverju skyldi það vera? Vegna þess að auðvitað hefði þurft að athuga, láta t.d. lagadeild Háskóla Íslands ganga úr skugga um hvernig þessi tvenn lög stæðust fyrir dómi.

Ég sé fyrir mér ef eitthvert slíkt mál kemur upp. Í lögum um Ríkisendurskoðun, sem væntanlega verða til hér í dag, — segir ekki einu sinni í lögum heldur í nefndarálitinu — að það verði að móta verklagsreglu sem kveði m.a. á um að sérstakur trúnaðarlæknir annist athuganir Ríkisendurskoðunar á sjúkragögnum. Í læknalögum segir að þessi maður sé landlæknir. Skyldi nú ekki landlæknir fara á stúfana ef slíkt mál kæmi upp? Ekki yrði ég hissa þó að tryggingayfirlæknir teldi sig eiga að koma eitthvað nálægt þessu máli þegar sjúkratryggingadeild vill gera athugasemdir við reikninga sjúkrasamlaganna.

Það sem ég er einfaldlega að tala um hér er að mér þykir vægast sagt losaralega frá þessu gengið og a.m.k. ákaflega kyndugt að samþykkja lög sem kveða nokkuð ákveðið á um þagnarskyldu lækna og rétt sjúklinga, þ.e. læknalögin, en setja svo lög nokkrum vikum seinna sem taka þessa þagnarskyldu aftur.

Ég vara hv. alþm. við að fljótlega kunni slík vafamál að koma upp. Ég verð að segja að ég er orðin dálítið hneyksluð á hvernig rætt er um þessi mál. Það er stundum eins og öll læknastéttin sé meira og minna undir grun um misferli. Sem betur fer heyrir það heldur til undantekninga. Ég tel mikilvægara í stuttu máli að vernda rétt sjúklinga en að ná í skottið á einhverjum einum misferlismanni á margra ára fresti. Ég verð að segja það hreinskilnislega. Mér finnst það mikilvægara.

En ég skal ekki vera að tefja afgreiðslu þessa máls sem mönnum er svo mikið í mun að nái fram að ganga, en ég vildi biðja hæstv. heilbr.- og trmrh. að segja mér: Er landlæknir þá ekki maðurinn sem á að fá að sjá sjúkragögn sem vafi leikur á hvort eigi að skoða og hver velur þennan sérstaka trúnaðarlækni sem það á að gera? Mér finnst fleiri spurningum þarna ósvarað en svarað. Ég vara við lagasetningu af þessu tagi. Ég hef raunar gert það áður og lítinn hljómgrunn fengið. En Alþingi er nú einu sinni ekki að lýsa einhverjum vilja sínum í einhverjum nál. Menn eru hér að setja landinu lög.