06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7682 í B-deild Alþingistíðinda. (5714)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Vegna fjarveru frá þingstörfum seinustu þrjá daga hef ég ekki fylgst með því alveg nákvæmlega hvernig þessi umræða hefur gengið fram, en auðvitað er mér vel kunnugt um, eins og hefur margkomið fram í umræðunni, þau mál sem liggja til grundvallar því sem hér er verið að ræða og hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu í vetur.

Nú er það svo að frv. um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun er almenns eðlis og fjallar um aðgang Ríkisendurskoðunar að undirgögnum og hlýtur auðvitað að geta átt við í ýmsum málum öðrum en þeim sem hér hafa verið dregin sérstaklega inn í umræður og varða mál einstakra lækna og samskipti þeirra við Tryggingastofnun.

Hitt er vitað að í vetur hafa verið uppi nokkur slík mál. Það hafa verið fundahöld milli Tryggingastofnunar og samtaka lækna, Læknafélags Íslands og heimilislækna, um þessi mál og hvernig að þeim væri best staðið. Í augnablikinu hafa menn komið sér saman um vinnureglu eða verklagsreglur eins og hér er talað um sem við erum að láta reyna á hvort ekki getur náðst um bærilegt samkomulag.

Það er ljóst að að sjúkraskýrslum eða sjúkragögnum fara ekki aðrir heldur en læknar. Það hefur aldrei verið í umræðu annað. Þar hafa engir aðrir embættismenn Tryggingastofnunarinnar en læknar aðgang, ekki eins og kom fram einhvers staðar í blaðaskrifum í vetur að „skrifstofupíur“ hjá Tryggingastofnun, ef ég man orðalagið rétt, væru að hnýsast í sjúkraskrár. Það hefur aldrei verið svo. Það hafa verið trúnaðarlæknar sem þetta hafa gert, trúnaðarlæknar Tryggingastofnunarinnar. Í sumum tilfellum er það líka svo að landlæknisembættið hefur farið yfir sjúkragögn og verið til kvatt.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað hefur farið fram í umræðum milli fulltrúa í fjh.- og viðskn. og þeirra embættismanna sem þar hafa verið kvaddir til og fram kemur í nál., en þar er um það rætt að heilbrmrn. hafi forustu um að móta verklagsreglur. Ég býst við að það hafi komið fram á þeim fundum samt að slíkar verklagsreglur hafa verið í undirbúningi í vetur og við höfum verið að ræða um það hvernig ætti að standa að þessu máli. Ég vænti þess að það hafi komið fram á fundum með fjh.- og viðskn. að við höfum verið að reyna að finna þær aðferðir sem allir gætu sætt sig við í þessu efni.

Ég treysti mér ekki til að gerast dómari um það, ef lög stangast á eða ákvæði þeirra fara eitthvað í bága hvort við annað, hvor lögin eigi að gilda eins og hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir spurði mig um. En ég vænti þess, og mér finnst það reyndar vera nokkuð ljóst, að eins og þau ákvæði eru í lögunum núna geti þetta gengið upp og gengið saman og eins og formaður og frsm. fyrir fjh.- og viðskn. lýsti áðan í umræðunum hafi það komið fram á fundinum að t.d. ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn. hafi talið að þetta gæti gengið upp eðlilega samkvæmt lögunum eins og þau nú hljóða og þar sem talað er um það að ef rökstudd ástæða sé til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar verði það að gerast.

Ég ítreka hins vegar þá skoðun mína að í sjúkraskrár eiga ekki að fara aðrir en læknar, trúnaðarlæknar. Ég vil hafa það opið á þessu stigi að kveða upp úr um það hvort sá trúnaðarlæknir eigi að vera einn eða einhver af læknum Tryggingastofnunarinnar, tryggingayfirlæknir eða einhver af hans starfsmönnum, hvort það á að vera landlæknir eða hvort það á hreinlega að vera trúnaðarlæknir sem tilnefndur er beint af ráðherra. Mér finnst það ekkert útilokað að slíkt kæmi til í þessu efni, ef menn setjast niður og móta ákveðnar starfsreglur og koma sér saman um þær, að þá væri það sérstakur trúnaðarlæknir, einn enn sem gæti komið til með að vera sá aðilinn sem ætti að hafa þetta eftirlit með höndum. (GHelg: Í hvaða tilvikum á þá ákvæðið um „landlækni einum“ við?) Ég get ekki svarað því á þessu stigi hvernig að þessu verður staðið, hvort það verður svo að þarna kæmi til landlæknisembættið sem vissulega er eftirlitsaðili og sjálfsagt ekki ólíklegt að við mundum skoða mjög náið hvort það eigi að vera landlæknisembættið sem á að gegna þessari skyldu eða hvort það yrði samkomulag um það, mér finnst ekkert útilokað að það gæti orðið samkomulag um að það yrði einhver enn annar aðili sem fengi þá tilnefningu samkvæmt samkomulagi að heita sá trúnaðarlæknir, trúnaðarmaður þá heilbrrn. sem færi þá með þetta eftirlitsvald.

Öðru held ég að ég geti ekki svarað þessum spurningum hv. þm. á þessu stigi. Ég ítreka að þetta hefur verið mjög til umræðu í vetur milli aðila, bæði heimilislækna og Læknafélags Íslands annars vegar og Tryggingastofnunarinnar hins vegar og í dag veit ég ekki annað en að í gildi séu verklagsreglur sem menn eru tilbúnir til að láta reyna á og það verður þá að koma í ljós hvort þær hafa þá annmarka að það samkomulag verði að taka upp og finna aðrar leiðir eða aðrar aðferðir til þess að framfylgja þessu nauðsynlega eftirliti.