06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7688 í B-deild Alþingistíðinda. (5719)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það frv. til laga um breyt. á lögum nr. 12 frá 1986, um Ríkisendurskoðun, sem hér liggur fyrir er mjög merkilegt fyrir þær sakir að verið er að ganga inn á alveg nýjar brautir. Grundvallarregla í íslensku stjórnarfari er þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hér á þinginu varð hæstv. dómsmrh. að leggja fram frv. fyrr í vetur til þess að skilja hér á milli þar sem hann vildi koma því þannig fyrir að það væru skarpari skil varóandi dóms- og framkvæmdarvald. Nú leggja forsetar Sþ. og Ed. hins vegar fram frv. um að sameina löggjafarvald, framkvæmdarvald, og dómsvald að hluta til. Það er náttúrlega fyrst og fremst hlutverk Alþingis að setja lög, en ekki að fara með framkvæmdarvald.

Þessi lög fjalla raunverulega um það að verið er að koma á laggirnar nýju bákni við hliðina á Alþingi þar sem Ríkisendurskoðun er að seilast inn á svið framkvæmdarvaldsins. Þetta er mjög hættuleg braut. Ríkisendurskoðun er samkvæmt frv. heimilt að krefjast greinargerða, grundvallargagna eða skýrslna sem eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum. Það væri auðvitað eðlilegri skipan mála að slíkt færi fram í hverju ráðuneyti fyrir sig. Það væri ekkert óeðlilegt, fyrst hér hefur verið rætt um læknamálið sérstaklega, að Tryggingastofnun sæi um þetta og tilkynnti Ríkisendurskoðun um þá niðurstöðu því það er reyndar hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins. Hér er æ meira verið að fara í vitlausa átt. Það er verið að setja saman í lagabálka framkvæmdarvald og löggjafarvald og ég held að það sé mjög óheppilegt og alrangt.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér og einnig það sem hv. 13. þm. Reykv. sagði. Ég held að það sé rétt að hér er verið að setja lög eða breyta lögum í alranga átt. Þar að auki held ég að þessi ákvæði gangi á svig við setningu ýmissa annarra laga og mjög vafasamt sé að þau standist í raun.

Ég get einnig tekið undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan. Ég held að þau viðvörunarorð sem hann hafði um þessi lög séu réttmæt. Það er ekki gott ef Alþingi Íslendinga ætlar nú að fara að taka þá stefnu að taka raunverulega í sínar hendur framkvæmdarvald og að hluta til dómsvald því að sumt af því sem Ríkisendurskoðun hefur heimild til að gera er í rauninni dómsathöfn. Það er í rauninni eðlilegra að bera undir dómstóla hvort ákveðin atriði eru heimil eður ei. Við verðum að átta okkur á því að til þess að Alþingi haldi löggjafarvaldinu og einbeiti sér að lagasetningu og framkvæmd þeirra er mjög æskilegt að það sé ekki jafnframt með fingurna ofan í hlutum sem heyra undir framkvæmdarvaldið og jafnvel dómsvaldið. Ég átta mig á því að sjálfsögðu að mönnum sem hafa verið hér í fjvn. brennur það á hjarta að farið sé vel með fjármuni sem við veitum héðan. Það er að sjálfsögðu mjög æskilegt að við gerum það. En ég held að við verðum að treysta framkvæmdarvaldinu, þeim ráðherrum sem fara með framkvæmdarvald hverju sinni. Þeir hafa með það að gera að fylgjast með því að þeim fjármunum, sem þeir fá, sé eytt eða farið með þá eins og ætlast er til. Það þarf ekki að auka vald Ríkisendurskoðunar til þess. Þess vegna er þetta mjög óeðlilegt og gengur alveg á svig við þrískiptingu ríkisvaldsins og er óæskileg og röng þróun. Ég get ekki stutt svona frv. og ætla að vona að menn haldi sig við það að hér sé löggjafarvald.