12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

74. mál, útsendingar rásar tvö

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka greinargóð svör við þessari fsp. minni af hálfu hæstv. iðnrh. en það kemur greinilega fram í svari hans að enn vantar nokkuð á í þessum efnum og hér er fyrst og fremst um íbúa dreifbýlisins að ræða. Það er hins vegar óverjandi að enn skuli ekki liggja fyrir endanleg áætlun um það hvenær dreifikerfið mun í raun ná til allra landsmanna.

Ég vil vekja athygli á því að nú hafa ýmsir dagskrárliðir verið færðir af rás 1 yfir á rás 2, þættir sem fólk í dreifbýli hefur einnig getað notið en hafa nú verið teknir af því. Samkvæmt upplýsingum innheimtustjóra Ríkisútvarpsins greiða þeir notendur sjónvarps sem búa við léleg skilyrði hálft gjald og þar sem sendingar eru taldar alls ónothæfar er gjaldið fellt niður. Hins vegar er enginn afsláttur gefinn af afnotagjaldi hljóðvarps hvernig svo sem skilyrðin kunna að vera.

Ég vil minna á hið mikilvæga hlutverk Ríkisútvarpsins hvað varðar listsköpun, menningu og afþreyingu. Íbúar í dreifbýli eiga yfirleitt óhægar um vik að sækja menningarviðburði eða afþreyingu af ýmsu tagi en íbúar þéttbýlis og það er því enn brýnna að þeir geti notið þess sem Ríkisútvarpið hefur fram að færa. Einnig vil ég benda á að fólk á landsbyggðinni leggur sitt af mörkum bæði til reksturs og dagskrár Ríkisútvarpsins og því er alveg nauðsynlegt að þessi fjölmiðill okkar sé fyrir alla landsmenn og vonandi kemst lagfæring dreifikerfisins sem fyrst efst í forgangsröð í framkvæmdum Ríkisútvarpsins.