12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

80. mál, snjóflóðahætta

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 83 hef ég borið fram svofellda fsp. til hæstv. félmrh. um mat á snjóflóðahættu og fjárveitingar til snjóflóðavarna. Fsp. er svohljóðandi:

„1. Hversu langt er komið mati á snjóflóðahættu á byggðum svæðum?

2. Hvert er mat ráðuneytisins og ofanflóðanefndar á fjárþörf til snjóflóðavarna?

3. Hversu mikið fjármagn er til ráðstöfunar í snjóflóðavarnir á vegum ráðuneytisins og ofanflóðanefndar?

4. Eftir hvaða reglum er fjármagni úthlutað til snjóflóðavarna?

5. Hvað liggur fyrir af umsóknum frá sveitarfélögum og öðrum um fjárstuðning við snjóflóðavarnir?"

Hér á Alþingi voru samþykkt lög 4. júní 1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem skapa þann lagagrundvöll sem er til aðgerða á þessu sviði og fjárstuðnings af hálfu stjórnvalda. Skriður fór að komast á umræðu um þessi mál eftir mesta áfall sem menn hafa orðið fyrir hérlendis síðustu áratugi í sambandi við snjóflóð, en það voru snjóflóðin í Neskaupstað í des. 1974. Þetta leiddi til lagasetningar, að vísu 11 árum síðar, varðandi snjóflóðavarnir og meðferð þessara mála. Samkvæmt þeim lögum var þá stofnuð svokölluð ofanflóðanefnd — nafn sem mér hefur alltaf þótt dálítið sérkennilegt, en nota að sjálfsögðu lögum samkvæmt — og hér er innt eftir hennar störfum og tillögum og ég veit að hæstv. ráðherra mun reiða hér fram svör um þetta efni.

Hér er um mjög stórt mál að ræða fyrir mörg byggðarlög í landinu sem búa við snjóflóðahættu varðandi svæði sem þegar eru byggð, en stóra málið fyrir framtíðina er auðvitað það að tryggja að mat liggi fyrir á snjóflóðahættu og menn fari ekki með byggingar og mannvirki út á veruleg hættusvæði í sambandi við snjóflóð og eftir atvikum skriðuföll að svo miklu leyti sem menn geta metið þá hættu.