07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7707 í B-deild Alþingistíðinda. (5794)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Í óvæntum forföllum formanns fjvn. mæli ég fyrir nál. á þskj. 999 um till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1988–1991 frá fjvn.

Nefndin hefur haft til meðferðar till. til þál. um flugmálaáætlun árin 1988–1991. Um er að ræða framkvæmdaáætlun samkvæmt lögum frá 27. mars 1987 og er áætlunin byggð á tillögum nefndar um framkvæmdir í flugmálum frá október 1986. Er þetta í fyrsta skipti sem lögð er fram á Alþingi þáltill. um flugmálaáætlun.

Nefndin kvaddi til fundar við sig fulltrúa samgrn. svo og fulltrúa Flugmálastjórnar og varaflugmálastjóra sem mætti á fund nefndarinnar í forföllum flugmálastjóra. Var farið yfir áætlunina með þeim á tveimur fundum. Einnig höfðu fjárveitinganefndarmenn samráð við þingmannahópa kjördæmanna um meðferð málsins.

Þar eð þáltill. kom ekki fram á Alþingi fyrr en seint á þinginu, sem skýrist af því að hér er um að ræða nýjung í málsmeðferð, gafst fjvn. ekki ráðrúm til að fjalla jafnítarlega um framkvæmdaáform og ástæða hefði verið til og nefndin hefði viljað. Með tilvísan til þessa svo og þess að samkvæmt till. eru áformaðar fjárveitingar 1989 til liðar 4.32 að fjárhæð 19 millj. kr. og liðar 4.33 að fjárhæð 16 millj. kr. og liðar 4.34 að fjárhæð 13 millj. kr. alveg óskiptar á einstök verkefni. Hefur nefndin samþykkt að taka áætlunina fyrir 1989 og síðar til ítarlegri skoðunar á næsta þingi en tími gefst til nú og hún verði þá nánar skoðuð í samráði við þingmannahópa kjördæmanna. Verði talin ástæða til þess þá að breyta áætluninni mun nefndin beita sér fyrir því að það verði gert.

Nefndin flytur aðeins tvær brtt. við till. nú og flytur þær á sérstöku þskj. Báðar þær brtt. eru smávægilegar. Svo að ég víki aðeins að þeim er um að ræða eftirfarandi:

Fyrsta brtt. er við III. kafla, flokkun flugvalla, þ.e. aðra flugvelli og lendingarstaði: „Á eftir orðinu „Kaldármelar“ komi nýtt heiti: Kárastaðir.“ Hér er um að ræða flugvöll sem er í byggingu fyrir ofan Borgarnes og hefur þetta heiti. Hefur verið sótt sérstaklega um það bæði af þeim sem standa að þeirri flugvallargerð og eins af Borgarneshreppi og liggja fyrir öll gögn um þetta mál hjá Flugmálastjórn og einnig hjá fjvn.

Önnur brtt. er við IV. kafla, þ.e. vegna sundurliðaðra verkefna, við lið 4.13 samkvæmt sundurliðun í þskj. Það er varðandi flugvöllinn á Flateyri, að í stað flugbrautar í verkáætlun fyrir 1988, „Flugbraut, hlað“, komi: Farþegaafgreiðsla (flugstöð). Þetta er gert samkvæmt eindreginni ósk úr Vestfjarðakjördæmi og var talið eðlilegt að þessu verði breytt eins og þarna er lagt til.

Að öðru leyti vil ég aðeins endurtaka það að hér er um fyrstu till. til þál. um flugmálaáætlun að ræða og ber að fagna því að þessi mikilvægi málaflokkur er kominn í þetta form sem svipar nokkuð til vegáætlunar þannig að framvegis verður hægt að fjalla um flugmálaáætlun til lengri tíma. Er þá hægt að skoða málið í ljósi þeirrar reynslu sem hér fer af stað.

Nefndin leggur til að till. verði samþykkt með þeim breytingum sem hafa verið skýrðar, á þskj. 1000.

Undir þetta rita Sighvatur Björgvinsson sem er formaður nefndarinnar, Pálmi Jónsson, Alexander Stefánsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Margrét Frímannsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Egill Jónsson og Valdimar Indriðason.