07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7715 í B-deild Alþingistíðinda. (5799)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um vegáætlun og er málið komið frá nefnd. Það væri vissulega ástæða til að ræða þessi mál hér ítarlega og það er út af fyrir sig leitt að þessi mál skuli ekki liggja fyrir fyrr á þinginu til umræðu og athugunar eftir meðferð í nefnd. En ég ætla að taka tillit til aðstæðna hér og aðeins nefna fáein atriði og beinu hér fsp. til frsm. nefndarinnar, hv. 1. þm. Vestf., og hæstv. samgrh. sem hér er viðstaddur. Hv. 4. þm. Vesturl. hefur þegar gert í sínu máli glögga grein fyrir þróun þessara mála á undanförnum árum þannig að ég hef ekki miklu þar við að bæta. Þar var ekkert ofsagt í rauninni og kom fram sú áhersla sem við alþýðubandalagsmenn höfum flutt í sambandi við þessi mál á undanförnum þingum.

Ég ætla að leyfa mér að inna hæstv. samgrh. eftir einu sérstaklega. Ég hef fyrir framan mig þál. um vegáætlun fyrir árin 1987–1990 eins og hún er samþykkt á síðasta þingi. Þar er áætlun um fjáröflun varðandi árið 1988, 3816 millj. kr. Þar kemur fram í sundurliðun að önnur framlög til vegamála en markaðar tekjur verði á yfirstandandi ári 1463 millj. kr. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því: Hvað hefur orðið um þessa fjármuni? Hvað hefur orðið um þessa samþykkt um 11/2 milljarð kr. til vegamála á þessu ári? Fsp. mín getur einnig gengið til hv. 1. þm. Vesturl., frsm. nefndarinnar, því að í nái. er ekkert að þessum stórtíðindum vikið að 1lh milljarður kr., sem Alþingi samþykkti sem tekjur til vegamála á árinu 1988, séu horfnar út úr vegáætlun, endurskoðaðri vegáætlun. Það er engin grein gerð fyrir þessu máli í áliti sem hér er mælt fyrir frá nefndinni. Þetta eru þó engin smátíðindi, sem hér urðu með framlagningu endurskoðaðrar vegáætlunar, að samgöngumálin, vegamálin, eru svipt 11/2 milljarði kr. frá því sem Alþingi samþykkti hér á síðasta ári og borið var fram af þáv. stjórnarmeirihluta á Alþingi og hæstv. ríkisstjórn.

Menn geta ekki bara gengið hér frá skipi í þessu efni án þess að spurt sé: Hvað gerðist? Hver ber ábyrgð á þessari stefnubreytingu? Er ástæðan sú að mynduð hefur verið ný ríkisstjórn? Er ástæðan sú að kosningar eru afstaðnar? Er ástæðan sú að nýr samgrh. er sestur í stól frá því sem var þegar vegáætlun var samþykkt í fyrra? Er ástæðan sú að nýr maður er kominn í stól fjmrh.? Ég spyr. Við hljótum að krefjast skýringa og svara á slíkum stórfelldum brigðum í sambandi við samgöngumálin, í sambandi við vegamálin.

Þetta snertir ekki bara þetta ár, heldur líka næstu ár sem hér er verið að gera grein fyrir í endurskoðaðri vegáætlun því samkvæmt þál. Alþingis fyrir ári síðan um vegáætlun þá skyldi heldur hærri upphæð, ef nokkuð var, vera tryggð sem önnur framlög úr sameiginlegum sjóði landsmanna, eins og gerð var grein fyrir málinu, einnig á árinu 1989 1495 millj. kr. og á árinu 1990 1526 millj. kr. Þetta átti auðvitað að vera verðtryggt. Þetta áttu að vera rauntölur sem þarna var um að ræða sem byggðar voru inn í vegáætlun hér fyrir ári síðan.

Hver er ábyrgur fyrir þessari stefnubreytingu? Hæstv. samgrh. hlýtur að upplýsa það hér. Ja, sömu flokkar standa að ríkisstjórn. Það hefur einn bæst við. Hefur sá flokkur, Alþfl., staðið fyrir þessari breytingu? Er það skýringin? Eða hefur komið allt annar hugur í samgrn. í þessum efnum? Ég bíð spenntur eftir að fá skýringar á þessu.

Ég þarf kannski ekki að segja mikið meira því að ef það upplýsist nú að það væri kannski hægt að fá fram breytingu hér á Alþingi við síðari umr. málsins og kippa inn þessum 11/2 milljarði, þá væri nú kannski hægt að ná fram ýmsum nauðsynjamálum í sambandi við vegamálin sem gert var ráð fyrir og látið var að liggja fyrir kosningar í fyrra að unnt yrði að ráðast í. Ég nefni þar á meðal langtímaáætlun í jarðgangagerð, hertan róður í sambandi við jarðgangagerð, en hér fyrir þinginu liggur till. til þál. frá mér og hv. 4. þm. Norðurl. e. um það að þetta þing kveði upp úr um langtímamarkmið í jarðgangagerð með hliðsjón af þeirri áætlun sem líka var kynnt Alþingi fyrir ári síðan af hæstv. þáv. samgrh., Matthíasi Bjarnasyni, sem hafði látið nefnd vinna rösklega í því máli. Þinginu ætti ekkert að vera að vanbúnaði að leggja línur um þau stóru ákvarðandi atriði fyrir stór byggðarlög í landinu: Hvernig ætla menn að ráðast í framkvæmdir eftir að Ólafsfjarðarmúla lýkur? En framkvæmdahraðinn þar markast auðvitað af fjármagni.

Ég vil svo rifja það upp hér að hæstv. núv. ríkisstjórn ákvað með brbl. í sumar leið sem hluta af efnahagsráðstöfunum að leggja sem svaraði rétt tæpum einum milljarði kr. í auknar álögur á umferðina í landinu, bíleigendur í landinu — ekki til að eiga það upp í þennan 11/2 milljarð, ekki til þess, heldur til að afla tekna beint í ríkissjóð með enn auknum þungaskatti, innflutningsgjöldum á bifreiðar og fleira af því tagi sem við hefðum auðvitað ekkert séð eftir ef það hefði verið markaður tekjustofn til vegamála í landinu. En það var nú ekki því að heilsa. Ég held að það sé rétt að menn minnist þessa hér við umræður á Alþingi um vegáætlun.

Ég vil líka nefna það hér að fyrir tveimur árum síðan þegar kostnaður bíleigenda, rekstrarkostnaður bifreiðaeigenda fór lækkandi vegna lækkaðs orkuverðs, vegna lækkaðs bensínverðs, innkaupaverðs á bensíni, þá gerði ég það að tillögu minni hér á Alþingi að menn tækju þessa lækkun ekki út í lækkuðu útsöluverði nema að hluta til og þetta svigrúm sem þarna skapaðist yrði notað til þess að afla tekna til vegaframkvæmda. Hæstv. þáv. samgrh., Matthías Bjarnason, tók mál þetta upp í ríkisstjórn þá vorið 1987, en hann fékk ekki undirtektir að meiri hluta til þar. Forsrh. — í öllu falli hæstv. sjútvrh. í þáv. ríkisstjórn og sá hinn sami og nú skipar það embætti og þáv. fjmrh., nú forsrh., lögðust gegn tillögum samgrh. um þetta efni. Þarna var þó vísað á tekjuöflun sem hefði munað um á þeim tíma og sem enn hefði skilað fjármagni til lífsnauðsynlegra framkvæmda í vegagerð í landinu á yfirstandandi ári hefði sú stefna þá verið mörkuð.

Það er búið að mæla margt um þessi mál á undanförnum þingum, strengja þess heit af fyrri ríkisstjórn að herða róðurinn. Ég tók eftir að hv. þm. Pálmi Jónsson hefur beðið hér um orðið og það er eðlilegt að hann vilji rifja þær heitstrengingar upp sem hann sjálfur og sú stjórn sem hann studdi þá og sem hann styður enn hafði uppi, en í ræðu 21. maí 1985 mælti hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson svo í framsöguræðu fyrir vegáætlun 1985–1988 sem þá var hér til umræðu í Sþ., með leyfi virðulegs forseta:

„Í framsöguræðu sinni við fyrri umr. þessa máls lagði hæstv. samgrh. sterka áherslu á að við fjármögnun vegáætlunar skv. langtímaáætlun verði staðið. Óhætt er að fullyrða að hæstv. samgrh. hefur reynst þróttmikill baráttumaður fyrir framkvæmdum á sviði vegagerðar því skv. þeirri till. til vegáætlunar sem hér er til umræðu verður markmiðum langtímaáætlunar náð um fjármögnun til vegagerðar þegar á næsta ári [þ.e. 1986] þrátt fyrir að flestir þættir opinberra framkvæmda séu verulega skornir niður.“

Hver voru þessi markmið? Jú, það voru umrædd 2,4% af þjóðartekjum. Hvað skyldi hv. þm. segja nú um frammistöðu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr? Ætli hann geti notað orðið „þróttmikill“ um núv. hæstv. samgrh. eða aðra þá sem ráða ráðum og kannski hafa borið hæstv. ráðherra ofurliði í ríkisstjórninni í sambandi við mörkun stefnu í þessum málum og fjáröflun til vegagerðar? En hæstv. ráðherra mun vafalaust útskýra það í máli sínu hér á eftir.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að taka hér tíma til þess að ræða sérstaklega málefni Austurlandskjördæmis að því er vegagerð áhrærir. Þar væri þó af mörgu að taka. Kannski er ekkert kjördæmi á landinu, e.t.v. að Vestfjörðum undanskildum, jafnilla statt í sambandi við ástand vega og þörfina á auknum framkvæmdum í vegamálum. Það á við um stofnbrautir, en það á þó enn frekar við um þjóðbrautir, og það á við um þörfina á jarðgangagerð til þess að tengja saman byggðarlögin.

Það er mikið í húfi fyrir landsbyggðina þegar framkvæmdir í vegamálum eru annars vegar. Fátt skiptir meira máli til þess að breyta aðstæðum á landsbyggðinni en að tengja byggðirnar saman með nývirkjum í vegagerð, með nútímalegum vegum úti á landi, en þar hafa áherslurnar um langa hríð ekki verið sem skyldi og þar hefur verið horfið frá markmiðum sem sammæli var hér um á Alþingi fyrir fimm árum síðan, því miður.