07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7718 í B-deild Alþingistíðinda. (5800)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Kjartan Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það heyrist oft úr þessum ræðustól að peningarnir streymi utan af landi til höfuðborgarsvæðisins. Ég hlýt að vekja athygli á því að þessu er akkúrat öfugt farið að því er varðar það sem hér er til umfjöllunar. Það er greinilegt af þessari áætlun eins og af áætlunum undanfarinna ára að fé streymir frá íbúum höfuðborgarsvæðisins út á land að því er vegamálin varðar. Ætli það láti ekki nærri að 60% af tekjum til vegamála komi frá íbúum í Reykjavík og Reykjanesi? En það lætur líka nærri að það séu u.þ.b. 14% af útgjöldunum samkvæmt áætlunum núna og undanfarinna ára sem fara til framkvæmda á þessu svæði.

Ef maður lítur á framlög í þessu plaggi til nýrra þjóðvega, þ.e. til stofnbrauta og þjóðbrauta að svo miklu leyti sem unnt er að sjá skiptingu þeirra á þessi tvö landshorn og skil ég þá eftir bundin slitlög og þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum og girðingar og uppgræðslu, eru heildarframlögin til þessara nýframkvæmda 1156 millj. kr. Þar af eru 168 millj. til framkvæmda í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, reiknast mér til, en tæpur milljarður eða 988 millj. til framkvæmda úti á landi. Þetta þýðir það að það streyma í þessum lið, sem í heild er upp á 1156 millj., u.þ.b. 500 eða rúmlega 500 millj. til framkvæmda úti á landi, það er nettó útstreymi. Þetta er það sem íbúar þessara svæða, Reykjavíkur og Reykjaness, greiða til framkvæmda úti á landi umfram það sem fæst til framkvæmda í Reykjavík og á Reykjanesi.

Ef maður reiknar þetta dæmi áfram og gerir ráð fyrir sömu hlutfallsskiptingu, sem ég get auðvitað ekki fullyrt að sé rétt, og lítur á heildarupphæðina upp á 3150 millj. kr. mun láta nærri að fjárstreymið frá íbúum Reykjavíkur og Reykjaness umfram það sem þeir fá í sinn hlut sé 1,5 milljarður eða 1430 millj. ef ég nota þær hlutfallstölur sem ég fékk út í fyrra tilvikinu.

Hérna er því greinilega um að ræða fjárstreymi frá íbúum Reykjavíkur og Reykjaness út á land. Ég er alls ekki að segja að þetta sé illt og ég er ekki að segja að þörfin fyrir vegalagningu úti á landi sé ekki brýn en í þeirri umræðu sem er í gangi um fjárstreymið í þjóðfélaginu hlýtur maður að vekja athygli á því hvernig því er háttað að því er þennan málaflokk varðar og að hér eru engar smáræðis fjárhæðir á ferðinni.

Ég hlýt líka að vekja athygli á því með hliðsjón af því sem reyndar kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar að við stöndum frammi fyrir miklum og dýrum framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu og undan því verður ekki vikist eins og hann komst réttilega að orði. Ég má kannski nefna sem dæmi að ein framkvæmd sem hefur beðið í mörg ár er Arnarneshæðin. Þar er nú mikil slysagildra. Samkvæmt þeim tölum sem við höfum fyrir framan okkur á að verja 14 millj. í þessa framkvæmd. En ég vek athygli á því að það er talið að hún muni í heild sinni kosta 190 millj. Þær framkvæmdir sem menn standa sem sagt frammi fyrir hér í nágrenni höfuðborgarinnar munu margar reynast mjög dýrar. Þær verða kannski ekki fyrst og fremst í Reykjaneskjördæmi. Ég hef stundum orðað það svo að aðalsamgönguvandamál Reykjaneskjördæmis væru í öðru kjördæmi, nefnilega í Reykjavíkurkjördæmi, því það sem verður dýrast og erfiðast verða væntanlega samgöngumannvirki inni í Reykjavík til þess að taka við umferðinni sem berst til Reykjavíkur ef þarf út úr borginni að fara. Það ern þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það eru stór verkefni í umferðarmannvirkjum til þess að taka fyrst og fremst við umferðinni seinasta spölinn inn í höfuðborgina og út úr höfuðborginni. Til þessara framkvæmda verður auðvitað að koma aukið fé á komandi árum, annað er óviðunandi. Við sjáum hvert ástand er að verða í umferðarmálum hér og öryggis verður að gæta og umferðin verður að geta gengið greiðlega á þessu svæði ekkert síður en annars staðar.

Menn geta auðvitað sagt: Já en þið höfuðborgarbúar, þið íbúar hér á suðvesturhorninu, notið nú vegina úti á landi og það er alveg rétt. En íbúar utan af landi koma líka stundum til Reykjavíkur og nota þau umferðarmannvirki sem þarf til þess að komast seinasta spölinn inn í höfuðborgina.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að efna hér til sérstakra deilna um skiptingu þessarar köku, og mér er mjög vel ljóst hversu brýn verkefni bíða úti á landi og að landsbyggðin þolir ekki lægri fjárhæð til framkvæmda í vegamáfum en er núna, heldur er ég að vekja athygli á því sem við stöndum frammi fyrir og að ég tel að það muni vera nauðsynlegt að auka fé til framkvæmda í vegamálum til þess að geta sinnt verkefnum úti á landi með ekki síðri hætti en hefur verið gert á undanförnum árum en jafnframt að takast á við þau verkefni sem verður ekki undan vikist hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé ekki eftir peningunum sem ég rakti hér áðan að færu til framkvæmda úti á landi vegna þess að ég veit að nauðsynin er brýn. En vegna umræðunnar um fjárstreymi, sem yfirleitt alltaf snýst um það að peningar streymi til höfuðborgarinnar, vil ég hér benda á dæmi um hið gagnstæða.