07.05.1988
Sameinað þing: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7722 í B-deild Alþingistíðinda. (5802)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir því að ég mundi þurfa að fara upp í ræðustól út af þessu máli vegna þess að ég vissi fyrir fram að hér yrði engu þokað, ekki fyrir það að það væri ekki full ástæða. En að hlusta hér á hv. þm. Kjartan Jóhannsson gefur manni tilefni til þess að vera í ræðustóli í a.m.k. klukkutíma. Þegar verið er að snúa staðreyndunum við með því að segja að fólk á þessu svæði eyði meira bensíni. Hvaðan koma þeir peningar sem borgarstjórinn í Reykjavík hefur ekki undan að eyða? Hvaðan koma þessir peningar? Haldið þið að þeir komi úr Seðlabankanum eða héðan af Laugaveginum? Ætli það sé ekki framleiðslan sem stendur undir þessu og ekki nema lítill hluti af því sem kemur utan af landinu sem fer þangað aftur. Ég mótmæli algerlega svona málflutningi því hann getur orðið til þess að fólk sem ekki fylgist með hlutunum standi í trú um annað en það sem rétt er. Það er furðulegt að hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem hefur verið sjútvrh. og er í raun og veru með sanngjarnari mönnum í þingflokki Alþfl., skuli snúa staðreyndunum svona algerlega við. Hann ætti að vita hvaðan peningarnir koma. Þeir koma ekki nema að litlu leyti af þessu svæði miðað við þann mannfjölda sem hér er.

Ef fólk er staðráðið í því, eins og allir flokkar a.m.k. segja fyrir kosningar, að byggja landið, halda byggðinni við og rétta hag þeirra sem hafa verstu aðstöðuna má það ekki gleyma því strax eftir kosningar og reyna að villa um fyrir fólki, bæði hér og annars staðar. Það er ekki vel gert, hv. þm., að rugla það fólk sem býr á þessu svæði með því að segja að verið sé að taka peninga frá því til að nota úti á landi. Ja, þvílíkt og annað eins. Ég vil taka það fram, enn og aftur, að ég átti síst von á þessu frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni því að í mörgu sem ég hef unnið með honum hefur hann sýnt víðsýni og sanngirni, a.m.k. fram yfir aðra hv. þm. Alþfl.

Nei, ef við ætlum að byggja landið verðum við að sýna réttlæti og skilning. Það fer lítið fyrir því á hv. Alþingi þessa dagana að sýnt sé réttlæti eða skilningur. Það sýnir t.d. hvernig málin standa hjá framleiðslufyrirtækjum víða um land og ekki síst hjá framleiðslufyrirtækjunum sem allt byggist á. Það er alveg rétt hjá Skúla Alexanderssyni að búið var að gefa fyrirheit um það að ríkissjóður legði fram meira fjármagn til vegamála. Það voru fyrirheit. Var það gert? Var ekki verið að samþykkja að skattleggja umferðina? Það var ekki gert til þess að fá fé til vegamála heldur til þess að fá það í ríkissjóð.

Búið var að lofa því að slíta fundi um þrjúleytið og þó að ég eigi mjög margt vantalað við þann meiri hluta sem hér er og ekki síst Alþfl., fyrst hv. þm. Kjartan Jóhannsson fór að ympra á þessu og óska eftir því að fram færi umræða um þetta mál, og ég hafi ekki lokið nema litlum hluta af því sem ég vildi segja mun ég ljúka ræðu minni með því að segja að ég vona að þegar ég hef lokið máli mínu efni forseti loforðið um að slíta fundi.