09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7734 í B-deild Alþingistíðinda. (5823)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Mig langar til að fjalla í örfáum orðum almennt um vegáætlun og með hvaða hætti hún er undirbúin og hvaða ákvarðanir eru teknar í vegamálum, þ.e. hvaða fjármagni er veitt til vegamála og hvernig.

Í stefnuskrá Borgarafl. kemur það skýrt fram að við viljum ráðstafa fé til vegamála með allt öðrum hætti en hingað til hefur verið gert. Við teljum að Alþingi eigi einungis að marka meginlínurnar í vegáætlun og ákveða heildarfjárhæð fjárlagaársins, en síðan sé miklu eðlilegra að heimamenn í viðkomandi héraði ráðstafi þeim skammti, sem þeim er ætlaður, sjálfir. Það er ekki nokkur vafi á því að heimamenn eru miklu betur færir um að ákveða hvar þurfi að beina fjármagni til nýrra verkefna en þingmenn viðkomandi kjördæmis. Þeir eru kallaðir á fund í Reykjavík með sérfræðingum Vegagerðarinnar til að karpa þar um smáupphæðir til smáverkefna og hafa miklu minni möguleika til að setja sig inn í hvar þörfin er brýnust en heimamennirnir. Í þessu tilviki á ég við sveitarstjórnarmenn í viðkomandi landshlutum.

Þá teljum við fyrir löngu orðið tímabært að skilgreina verkefnin miklu betur. M.a. þarf að skilgreina hvaða verkefni í samgöngu- og vegamálum eru verkefni sem varða alla þjóðina í heild sinni en ekki ákveðin kjördæmi. Sem dæmi um slíkt má nefna hringveginn, höfuðveg 1 umhverfis allt landið. Hann er ekkert kjördæmismál. Þetta er þjóðþrifaverkefni sem varðar allt þjóðfélagið í heild sinni. Því er sjálfsagt að taka hringveginn út úr vegáætlun og leysa hann sem sjálfstætt og sérstakt verkefni og ljúka honum í einum áfanga en ekki viðhalda þeirri stefnu sem verið hefur undanfarin ár. Ég kalla það bútastefnuna. Það er verið að leggja smábúta hér og þar. Síðan eru vegavinnuflokkarnir færðir til og þegar þeir koma aftur til starfa verður verkið margfalt dýrara fyrir vikið vegna þess að það er ekki hægt að halda viðstöðulaust áfram.

Annað dæmi um verkefni sem varðar allt þjóðfélagið í heild sinni er tvöföldun Reykjanesbrautar þannig að þjóðin geti komist til alþjóðaflugvallarins og stöðvar Leifs Eiríkssonar án þess að lenda þar nánast í hættu vegna allt of mikillar umferðar um þann einfalda veg sem þar er nú.

Þá er ámælisvert hvað framlag til vegamála hefur verið skert á undanförnum árum. Miðað við upphaflegar áætlanir í vegamálum hefur sífellt dregið úr framlagi til vegaverkefna og má ætla að það vanti orðið um 11/2 milljarð til vegaframkvæmda, þ.e. sem framlög til vegamála hafa dregist saman um á undanförnum árum.

Þá má minna á eitt lítið frv. sem hefur verið fyrir þinginu undanfarið, þ.e. staðfesting á brbl. varðandi bifreiðagjald. Því er ætlað að renna beint í ríkishítina, en ekkert af þeim gjöldum rennur til vegamála þangað sem þau ættu að sjálfsögðu að fara. Og að lokum vil ég benda á að bensínhækkun hefur aðeins að litlu leyti skilað sér til framkvæmda í vegamálum.

Svo held ég að megi undir lokin minnast á höfuðborgarsvæðið, en þar vantar stórkostlega fjármagn til brýnna verkefna, til að greiða úr því umferðaröngþveiti sem ríkir á höfuðborgarsvæðinu. Má þá enn einu sinni minna á að það er ætlað að um það bil 80% af öllum tekjum sem umferðin skilar í ríkissjóð á Íslandi falli til á höfuðbogasvæðinu.