09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7739 í B-deild Alþingistíðinda. (5827)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ræða hv. síðasta ræðumanns var athyglisverð fyrir margra hluta sakir, kannski ekki síst fyrir þá sök að það er mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig talsmenn Alþfl. tala um málefni eins og vegamál, eins og landsbyggðarmál og annað sem tengist viðkvæmum atriðum í pólitík nú síðustu dægrin. Nú er það svo að þau málefni sem mest varða ríkisfjármálin eru mjög í höndum Alþfl., eins og t.d. embætti fjmrh., og ráðherrar Alþfl. og þingmenn geta undir engum kringumstæðum skotið sér undan því að þeir bera mikla ábyrgð á því hvernig á ríkisfjármálum í heild er haldið og bera auðvitað líka mikla ábyrgð á því hversu miklu fé er varið til samgöngumála, vegamála og ýmislegs annars.

Hv. þm. talaði um að hann væri ekki að efna hér til kjördæmarígs og vel má það vera, en hann hafði þó mörg orð um það hversu litlu fé væri varið til Reykjaneskjördæmis og Reykjavíkur og bar það saman við landsbyggðina. Gefur það auðvitað tilefni til að rifja upp að hæstv. fjmrh. hefur látið hafa það eftir sér opinberlega að vel komi til tals að slá á frest jarðgöngum í gegnum Múlann sem um leið gefur tilefni til þess að rifja upp að þegar Alþfl. var í stjórnarandstöðu flutti þingmaður Alþfl. þáltill. og þeir alþýðuflokksmenn í heild voru mjög áfjáðir í að flýta göngunum í gegnum Múlann. Þannig er þetta nú oft um Alþfl. þegar hann er í þessu kjördæmapoti og fáa þingmenn á Alþingi hef ég fundið eins og þann hv. þm. sem síðast talaði sem notar einlægt hvert tækifæri sem hann hugsanlega getur til að vera með kjördæmapotið en tekur þó alltaf sanngjarnlega fram samtímis að hann sé ekki í kjördæmapoti og biður menn að horfa á staðreyndir málsins.

Auðvitað getum við horft á staðreyndir málsins. Hvaða mark eigum við landsbyggðarmenn að taka á þingmanni Alþfl. þegar hann segir að ekki sé nægilegu fé varið til vegamála í Reykjaneskjördæmi og lætur mjög að því liggja, en segir um leið að hann vilji ekki og sé ekki að fara fram á að draga fé frá öðrum kjördæmum? Hafa ráðherrar Alþfl. gefið í skyn að þeir séu reiðubúnir að auka framlög til vegamála? Það hefur ekki staðið á þingmönnum Sjálfstfl. að gera það. Ég vil þess vegna taka í framrétta hönd hv. þm. Ef það er svo að ekki er um kjördæmapot að ræða heldur einlægur vilji fyrir samgöngumálum og vegamálum vil ég taka í hans framréttu hönd og biðja hann um að hjálpa okkur þá við að eiga við ráðherra Alþfl. þannig að þeir fáist til þess að láta meira fé í samgöngumálin, meira fé í vegina, meira fé í hafnirnar. Ekki skal standa á mér að ýta á eftir því. Þvert á móti höfum við sjálfstæðismenn mjög haldið því fram þegar viðræður hafa orðið um ríkisfjármálin milli stjórnarflokkanna að nauðsynlegt sé einmitt að auka framlagið til vegamálanna, auka framlagið til hafnamálanna. Ég er alveg sammála honum um að það er eitt mesta framfaramál sem við getum fundið.

Ég er sammála því, sem hann segir, að slysagildrur eru víða á Stór-Reykjavíkursvæðinu, á Reykjanesi og slysagildrur eru út um allt land. Þegar við erum t.d. að tala um göng í gegnum Ólafsfjarðarmúla er það fyrst og fremst af þeim sökum að enginn vegur á landinu er eins hættulegur og sá vegur. Snjóflóðin sem þar falla á hverju ári skipta tugum eða hundruðum. Við erum þar að tala um slysagildrur og höfuðrökin með þeim vegi eru þau að menn óttast að þar kunni að koma til alvarleg slys og um leið og við erum að leggja ríka áherslu á að tengja byggðirnar við Eyjafjörðinn erum við að reyna að koma í veg fyrir að til fjöldaslyss komi á þessari hættulegu leið.

Ég get vel sagt það sem mína skoðun að tími er kominn til að huga að því hvernig hægt sé að leggja aðra akrein til Keflavíkur t.d. einmitt vegna þeirrar miklu slysahættu sem er á þeim vegi og ég er sammála um að Arnarneshæðinni þurfi að ljúka. Það er einmitt af þeim sökum sem ég hef lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að auka framlögin til vegamálanna. Og ég skal láta þessa ræðu hv. 4. þm. Reykn. verða til þess að ég æsist allur upp og fylgi því máli eftir af miklu meiri krafti en ella mundi vitandi það að ég á hauk í horni þarna inni í herbergi Alþfl. þar sem ég bjóst ekki við að sjá hann. Ég er þess vegna mjög ánægður yfir að finna vængjaþytinn og ég veit að það verður arnsúgur þegar hv. þm. beitir sér inni í herberginu og fer að fjmrh. og lætur hann finna fyrir því að ef maður hefur klær, þá bíta þær.

Við þingmenn utan af landi virðum að það þurfi að bæta samgöngur á Reykjavíkursvæði og reyna að koma í veg fyrir þær slysahættur sem hér eru, ég geri ekkert með það.þótt menn þurfi stundum að bíða í miðborg Reykjavíkur eftir því að komast áleiðis. Menn geta þá bara lagt fyrr af stað. Ég geri ekki mikið úr því. Það kemur fyrir að menn tefjist af öðrum alvarlegri ástæðum á öðrum stöðum líka, kvörtum ekki í þingsölum þó maður þurfi svolítið að bíða. Og það er fallegt við Tjörnina, ekki síst á þessum síðustu dögum. En við úti á landsbyggðinni berum hins vegar mjög fyrir brjósti að hægt sé að tengja saman byggðirnar einmitt nú á þessum síðustu tímum þegar við verðum varir við að ekkert lát er á að menn fari suður hingað. Mér er nú ekki alveg ljóst eftir hverju menn eru að sækjast að vísu, en svona er þetta. Menn eru að sækja suður hingað og fækkar úti á landi og hér þarf að byggja meira og meira. En þá erum við að reyna að tengja saman byggðirnar og við sjáum t.d. við Eyjafjörð, eftir að hinar góðu samgöngur komust á milli Dalvíkur og Akureyrar, hvernig verkaskipting milli byggðarlaganna hefur vaxið, hvernig öll þessi byggðarlög eru núna í örum og blómlegum vexti og hvað þessar bættu samgöngur gefa mikla bjartsýni. Eins er nauðsynlegt að gera víðar á landinu og þess vegna hljótum við að fagna því, landsbyggðarmenn, að hv. 4. þm. Reykn. sér alls ekki eftir því að við fáum þann hluta af vegafénu sem við höfum fengið og erum honum þakklátir fyrir að hann skuli svo skilja okkar þarfir. En það gefur enn og aftur ástæðu til að lofa honum því á móti að ég skal ekki skorast undan. Við skulum fara saman að hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. og ekki gefast upp fyrr en við höfum náð okkar máli fram, að verulega aukið fé verði nú látið í vegamálin á næsta ári og hafnirnar ekki látnar eftir sitja.