09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7741 í B-deild Alþingistíðinda. (5828)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, það falla mörg orð, en það er minna um vegaféð. Það er í þessu eins og mörgu öðru að loforðin, fyrirheitin sem hafa verið gefin, gleymast, sérstaklega eftir kosningar. En það getur verið að það verði kosið aftur einhvern tímann og ætli það byrji þá ekki sami söngurinn: Loforð.

En loforð reynast létt á vog

sem ljómi er af gulli stafar.

Eftir því sem stendur í þessari bók hérna, sem er skýrsla hæstv. samgrh. um framkvæmd vegáætlunar 1987, á bls. 42 kemur fram að það er ekki helmingur af því sem að var stefnt og lofað var sem er látið í vegina. 5,16% stendur á bls. 42 og það hlýtur að vera rétt. Þetta er frá hæstv. samgrh. Hann ber sjálfur ábyrgð á þessari tölu.

Því var líka heitið að halda áfram að grafa sundur fjöll og þannig erum við leiknir í Norðurlandi eystra að við komum ekki áfram vegunum vegna þess að við viljum ekki láta okkar eftir liggja til þess að það sé hægt að standa við það loforð. Og það eru vegir í okkar kjördæmi sem víðar sem eru í því ástandi að a.m.k. yfir vorið og stundum á vetrum eru þeir mikil hindrun til flutninga. Það þarf þá að takmarka þungaflutninga á einu mesta framleiðslusvæði landsins sem Eyjafjörður er. En sem sagt: Efndirnar ná ekki nema að hálfu leyti miðað við fyrirheitin í þessu efni. Hér stendur það svart á hvítu í skýrslu samgrh. hæstv.

Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því þó þingmenn Reyknesinga, sem eru komnir með bundið slitlag á alla sína vegi, - ég sagði alla sína vegi, ég þekki mig nokkuð á Reykjanesi, ég var þar í nokkuð mörg ár og var að skoða það, ég kalla það alla vegina, það er a.m.k. nokkuð annað en er annars staðar, - ég er ekkert hissa á því þó þeir telji eftir þó það sé skilað einhverju af því sem landsbyggðin hefur látið í þjóðarbúið, þó það komi til baka út á land. Annars hefði ég vænst þess að hæstv. samgrh. kæmi í ræðustól og ræddi þessi mál. Kannski hefur hann gert það, en ég hefði vænst þess vegna þess að ég held að hann sé svo réttsýnn maður að hann muni viðurkenna að lítið af því fjármagni fari aftur út á land í gegnum kerfið miðað við það sem fer af landsbyggðinni hingað til höfuðstöðvanna. (Gripið fram í. ) Ja, ég veit það. Það er með ýmsum hætti. Ég gæti haldið hér klukkutíma ræðu um eftir hvaða leiðum þessi fjárstraumur er út af landsbyggðinni. Ég hef rætt það hér áður við ýmis tækifæri og reynt að gera tilraun til að jafna aðstöðuna í landinu. En ég hef ekki orðið var við miklar undirtektir frá því þingliði sem styður þessa ríkisstjórn. Hins vegar hef ég orðið var við óánægjuna sem er í þessum mönnum þó þeir hafi ekki hörku í sér til að hrista af sér reiðinginn. Ég heyrði t.d. í hv. þm. Agli Jónssyni í Ed. um daginn og mér fannst hann hrista nokkuð mikið reiðinginn þó hann kannski sé nú enn þá á honum. Þannig mætti taka fleiri dæmi. Óánægjan er fyrir hendi. En kjarkurinn til að fara eftir samvisku sinni, sem þeir eru þó bundnir af miðað við stjórnarskrána, er minni þegar á reynir.

Nei, það er ástand þannig í okkar þjóðlífi að það virðist ekkert ganga. Það virðist enginn grundvöllur nema eitthvað í kringum hermangið. Þar blómstrar þar sem er hermangið einhvern veginn og þeir angar sem að því liggja. Allt annað á hausnum. Hvað ætli það séu margar verslanir úti á landsbyggðinni, kaupfélög, einkafyrirtæki, hvað ætli það séu mörg útgerðarfyrirtæki sem eru að stöðvast ef ekki verður eitthvað aðhafst? Og hvað verður gert til þess að breyta um þannig að vonleysið, sem er orðið almennt úti á landi, breytist í einhverja von?

Hæstv. viðskrh. var í sjónvarpinu hér á dögunum og mér heyrðist að það gæti allt beðið þangað til að fjárlög yrðu afgreidd og þau mál sem þeim tengjast, lánsfjárlög, sem mundu taka gildi um næstu áramót. Hvað verða mörg fyrirtæki þá komin á hausinn ef á að fara eftir þeim ráðum? Hvað ætlar t.d. hv. þm. Karvel Pálmason að bíða lengi eftir að þeir loki allir á Vestfjörðum áður en hann gerir upp við þessa ríkisstjórn? Og ég gæti nefnt fleiri nöfn. Ég gæti nefnt 1. þm. Vesturl. Hvað ætlar hann að bíða lengi? (KP: Hann er nú dyggur.) Dyggur? Sá sem er dyggur, það er hann sem þorir að fara eftir sinni sannfæringu. Hann er ekki bundinn af öðru. (KP: Hver?) Ég vona að hv. þm. Karvel Pálmason fari eftir því. Það er alveg þýðingarlaust fyrir þessa þingmenn hvað sem þeir heita, hvort sem þeir heita Pétur eða Páll, Árni eða Karvel, að skrifa eða tala á móti þessari ríkisstjórn en greiða svo atkvæði með henni í hverju málinu á eftir öðru. Er það að vera samkvæmur sjálfum sér? Er það? Athafnir verða að fylgja orðum eða þá að orðin eru ekki marktæk. Það er málið.

Ég ætla ekki, herra forseti, að taka meiri tíma. Ég varð að segja það sem ég hef sagt. Ég hef reynt að gera það í eins fáum orðum og mér er unnt. En ég vil ekki níðast á forsetanum með því að fara að tala öllu lengur. En ég vænti þess að hæstv. samgrh. geri grein fyrir því og mótmæli því á, sem er í hans eigin skýrslu, sem ég hef hér sagt. Ég vænti þess að aðrir hv. þm., sem geta í raun og veru ekki horft aðgerðarlausir á þróun mála úti á landsbyggðinni og raunar víðar, manni sig upp og tali út úr pokanum og setji hausinn út úr pokanum og segi hvernig þeim líður og hvernig þeir ætla að standa að málum ef þetta á að ganga lengur svo sem hingað til.