09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7743 í B-deild Alþingistíðinda. (5829)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér hafa menn gefið tilefni til miklu lengri umræðna en kannski hefði verið ástæða til í upphafi að ætla. Hv. þm. Halldór Blöndal gaf vissulega tilefni til að svara honum örfáum orðum. Hann vék að vísu fyrst og fremst að hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, sem ég þarf ekki fyrir að svara, hann mun trúlega gera það sjálfur.

En út af því sem Kjartan sagði, þá er það út af fyrir sig rétt að hér eru vandamál í umferð og hættur. Fólk þarf að bíða eftir að komast, en fólk kemst þó. En á öðrum svæðum kemst fólk ekkert og það er kannski meginmálið. Þar er lokað. Þar fer fólk ekki neitt. Það dugar ekki að bíða. Þar getur fólk ekkert farið. Kannski væri réttara að slá þarna tvær flugur í einu höggi og a.m.k. ekki fjölga hér á þessu svæði, frekar kannski að fækka og færa fólk út á landsbyggðina til þess að það þurfi ekki að setja í miklu meiri framkvæmdir á þessu svæði til að leysa umferðarhnúta. Það er auðvitað efnahagsstefnan sem hefur orðið til þess að valda þessum vandræðum. Fólk flykkist af landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið og það veldur þeirri umferðarteppu eða tregðu sem menn eru að tala um. Því væri hægt að breyta með breyttri efnahagsstefnu, ég tala nú ekki um hefði það verið gert fyrr.

Hv. þm. Halldór Blöndal talaði eins og einhver sakleysingi eða sóknarmaður í það að vilja miklu meira fjármagn í vegaframkvæmdir, ásakaði hæstv. fjmrh. sem ég ætla ekki að bera blak af. (HG: Það er ekki hægt.) (SkA: Hvorki nú né síðar.) Það sagði ég ekki. Það er mitt að ákveða það, ekki annarra. En hann sakaði hæstv. fjmrh. og þingmenn Alþfl. um að þeir vildu ekki meira fjármagn í vegaframkvæmdir. (EgJ: Já.) Við skulum nú rifja aðeins upp, hv. þm. Egill Jónsson, og ástæða til, ekki síst fyrir þig hv. þm., hverjir hafa ráðið þessum málum undangengin ár. Hverjir réðu þessum málum undangengin fjögur ár? Hvaða flokkur átti samgönguráðherrann og fjármálaráðherrana þessi fjögur ár? Hver skyldi það hafa verið? Hvaða flokkur? Var það ekki Sjálfstfl. sem átti alla þessa ráðherra? Þeir voru þrír að tölu, tveir hæstv. fjmrh. og einn samgrh. ef ég man rétt. Sjálfstfl. átti þessa menn. Þetta voru fulltrúar hans. Og hverju skiluðu þeir að því er varðaði aukið fjármagn til vegaframkvæmda í ljósi þess sem ákvarðað var í langtímaáætlun? Hverju skiluðu þessir ágætu menn sem vilja miklu meiri peninga í vegaframkvæmdir? Menn ættu að skoða skýrslu hæstv. samgrh. Hvað segir hún?

Árið 1984 var þetta 1,79% sem átti að vera 2,4% þegar upp var lagt, árið 1985 1, 65%, átti að vera 2,4% þegar upp var lagt, 1986 1,40%, átti að vera 2,4%, og 1987 1,16 %, átti að vera 2,4% þegar var byrjað. Eru það þessir menn sem eru að hæla sér af því að þeir hafi viljað meira fjármagn til vegaframkvæmda en staðið á öðrum? Þvílík hræsni! Þvílík hræsni í þessum fulltrúum.

Og þetta á reyndar við um hv. þm. Stefán Valgeirsson líka. Hver studdi þá ríkisstjórn sem þetta gerði á sínum tíma? Var það ekki hv. þm. Stefán Valgeirsson? Ég spyr og menn svara. Auðvitað var það hann og studdi hann dyggilega í því að rýra það fjármagn sem átti að fara til vegaframkvæmda. Svo koma menn hér eins og sakleysingjar og þykjast ekki bera ábyrgð á einu eða neinu, uppfullir af hræsni með svikin loforð auðvitað í pokanum. (AG: Hvaða prósentur var þingmaðurinn að lesa upp?) Það er á bls. 42, hv. þm. Albert Guðmundsson, 519. mál, þskj. 1062. Hafi hv. þm. ekki fengið þetta skjal get ég afhent honum það. Þarna eru upplýsingarnar, m.a. handaverk hv. þm. sem hæstv. ráðherra á sínum tíma. En menn eru fljótir að gleyma þegar þeir skipta um hlutverk. (AG: Hvaða prósentur er verið að lesa upp?) Ég bendi hv. þm. á að lesa á bls. 42 í skýrslunni. Það er skýrsla samgrh., fyrrv. flokksbróður hv. þm. og samráðherra á sinni tíð.

Ég spyr hv. þm. Stefán Valgeirsson þegar hann er að gagnrýna menn. Auðvitað á að gagnrýna hafi menn efni á því. Ég lagði til á sl. vori einmitt við hv. þm. Stefán Valgeirsson sem stuðningsmann þeirrar ríkisstjórnar sem þá var við völd að menn frestuðu því að afgreiða vegáætlun nema til eins árs og mál yrðu tekin upp að loknum kosningum til að reyna að fá pressu á meira fjármagn. Hvað gerði hv. þm. Stefán Valgeirsson þá? Var hann með þessu? Nei, ekki aldeilis. Hann studdi flokkinn dyggilega í þeim efnum með því að rígbinda þetta í fjögur ár, án þess að skapa það svigrúm sem þurfti til þess að þrýsta á um meira fjármagn í þessar framkvæmdir. Svo koma menn hér uppfullir með englabros á vör og þykjast hvergi hafa komið nálægt í þessum efnum. (EgJ: Það eru nú 285 millj. þar.) Hvaða milljónir eru það, hv. þm. Egill Jónsson? Það eru margar milljónir til.

Ég heyri að það er ekki nema einn og einn af þeim sem bera hvað mesta ábyrgð í þessum efnum undangengin ár sem þorir upp í stól til að segja sína skoðun. Þeir vilja heldur láta í sér heyra úr sætum en taka þátt í efnislegum rökræðum um það meginmál sem við erum hér að fjalla um. Og hér eiga menn auðvitað ekkert að fara í flokkadrætti í þessum efnum. Þetta er miklu meira alvörumál en svo að menn geti bundist flokkshlekkjum bara til að fylgja. Það þarf miklu meira ef menn ætla að fá einhverju áorkað til að breyta um. Auðvitað geta menn dansað í þessu áfram ef þeir vilja og það hafa þessir hv. þm. gert og virðast ætla að gera. Ég bíð a.m.k. þess hvað kann að gerast að vori þegar hin raunverulega endurskoðun á að eiga sér stað, hvort menn ætla þá að draga lappirnar eins og menn hafa gert til þessa, þessir hv. þm., hinir sömu sem þykjast nú hvergi hafa komið nálægt undangengin ár. Þessu er auðvitað öllu vísað til þeirra föðurhúsa sem hafa framleitt þetta á undanförnum árum, hv. sjálfstæðisflokksmanna og hv. framsóknarmanna sem borið hafa ábyrgð á þessum málum undangengin ár og geta ekki vísað því frá sér. Það er hrein blekking að reyna að telja fólki trú um ábyrgðarleysi þessara aðila í þessum efnum. Ég er ekki með þessu að draga úr því að menn gangi til verks og knýi á núv. hæstv. fjmrh. Ekkert mun af veita í þeim efnum. En það fríar ekki aðra sem hafa borið ábyrgðina hingað til. (AS: Hver var krafa Alþfl. í stjórnarmyndunarviðræðunum?) Nú skiptir kannski ekki meginmáli hver var krafan. Það skiptir meginmáli hvort framsókn hafi fallist á hana og mér virðist það hafa gerst, hafi um einhverja kröfu verið að ræða. Og þar hafa menn líka dinglað og dingla enn. Spurningin um kröfu í þessum eða hinum viðræðum: Hvað gerðu þessir hv. þm., þessir hæstv. ráðherrar, eins og hv. núv. þm. Alexander Stefánsson, í sinni ráðherratíð undangengin fjögur ár? Hvað gerði hann? Menn sjá hér á skýrslunni hrapandi tölur í minnkandi fjármagni til vegaframkvæmda. Það eru ær og kýr þeirra sem ráðið hafa ferðinni til þessa. Vonandi tekst að ýta við hverjum sem er sem með þessi mál fer hverju sinni og það mun ekki af veita og ekki mun á mér standa í þeim efnum.

Ég ítreka mína spurningu sem ég geri ráð fyrir að hæstv. samgrh. muni svara hér á eftir. Er gert ráð fyrir því að menn slái því föstu við þessa afgreiðslu að veita fé til undirbúningsframkvæmda í jarðgangagerð?