09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7747 í B-deild Alþingistíðinda. (5832)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi fram að ég hef alltaf verið með ýtrustu kröfur í sambandi við fjármagn til vegamála. Hins vegar var ég oft og tíðum ekki þess megnugur vegna þess að það voru ekki nógu margir til þess að taka undir við mig og þá félaga mína sem þá voru sem vildu mikið meira fjármagn.

Hins vegar kom það fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni áðan að ekki hefði verið staðið við það sem var búið að lofa, um 1400 millj. sem vantaði upp á það sem var búið að heita. Getur hv. þm. Karvel Pálmason kennt mér um það?

Ég vil minna á, af því að fyrrv. samgrh. er hér ekki, að ég varð var við það að hann var með meiri kröfur en honum tókst að koma fram í ríkisstjórninni sem þá var, að standa við þessa áætlun um fjármagn til vegamála. Ég vil að það komi fram því það var ekki tekið undir við hann og það er mér kunnugt um og mörgum öðrum þm. hér. En ég vísa ummælum Karvels Pálmasonar til föðurhúsanna hvað mig varðar.