09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7752 í B-deild Alþingistíðinda. (5841)

Efnahagsráðstafanir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Árdegis í dag ritaði ég fyrir hönd þingflokks Alþb. hæstv. forsrh. svohljóðandi bréf, með leyfi þínu, herra forseti:

„Þingflokkur Alþb. telur það ófremdarástand sem nú ríkir í atvinnulífi og efnahagsmálum landsmanna sanna svo ekki verður um villst að stjórn þeirra mála hefur gersamlega mistekist og að stjórnarstefnan er röng. Hvarvetna í þjóðfélaginu er nú krafist breytinga og stjórnarliðar sjálfir tala opinskátt um að grípa eigi til efnahagsaðgerða. Þingflokkur Alþb. fer því fram á að ríkisstjórnin geri Alþingi áður en það lýkur störfum undanbragðalaust grein fyrir því hvort efnahagsráðstafanir séu í aðsigi og þá hverjar þær séu.

Í ljósi þessara aðstæðna telur þingflokkur Alþb. einsýnt að Alþingi starfi áfram, en geri ef þurfa þykir hlé á fundum sínum í nokkra daga. Á Alþingi verði síðan rætt um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og þær afgreiddar þar eins og eðlilegast er. Þingflokkurinn lýsir sig reiðubúinn til viðræðna um nánari tilhögun þinghaldsins svo af þessu megi verða. Einnig er óskað svara ríkisstjórnarinnar um þetta efni.

Sé það hins vegar ætlun ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að slíta þingi næstu daga án þess að svara neinu til um þær aðgerðir sem í vændum kunna að vera, vill þingflokkur Alþb. mótmæla því sérstaklega. Þingflokkurinn mun þá beita sér fyrir því að Alþingi geri áður en það lýkur störfum ráðstafanir til að hugsanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar skerði ekki lífskjör launafólks. Þetta verði m.a. gert með því að verðtryggja laun ef gengið verður fellt. Þess verður óskað við forseta Sþ. að efni bréfs þessa og spurningar sem í því felast komi til umræðu utan dagskrár á fundi Sþ. síðar í dag.“

Herra forseti. Við teljum eðlilegt að hæstv. forsrh. gefi hv. Alþingi skýr svör í þessum efnum. Í fyrsta lagi um þær ráðstafanir sem í vændum kunna að vera og í hverju þær þá felast. Í öðru lagi hvort stjórnarmeirihlutinn vilji ganga til samninga um tilhögun þinghaldsins þannig að hér á Alþingi megi ræða og afgreiða þær ráðstafanir.

Að lokum vil ég taka fram, herra forseti, að það er eindregin krafa Alþb. að grípi ríkisstjórnin til aðgerða og hverjar sem þær verða, þá bitni það ekki á lífskjörum launafólks, að ekki verði komið aftan að almenningi í landinu með þeim hætti.