09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7753 í B-deild Alþingistíðinda. (5842)

Efnahagsráðstafanir

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi að undanförnu að íslenskt þjóðarbú hefur orðið fyrir áföllum vegna verðfalls á erlendum mörkuðum og vegna lélegrar vertíðar víða um land. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu mæta þessum breyttu aðstæðum á grundvelli þeirrar stefnu sem hún hefur fylgt. Í fyrsta lagi að tryggja rekstur undirstöðuatvinnugreina landsmanna, útflutningsframleiðslu og samkeppnisiðnaðar og að fylgja fast fram þeirri stefnumörkun sem þegar hefur skilað árangri að draga úr verðbólgu og stefna hér að betra jafnvægi í efnahagsmálum. Á þessum grundvelli verður unnið hér eftir sem hingað til. Það liggur auðvitað í augum uppi að þessi ríkisstjórn mun mæta þeim ytri áföllum sem við höfum orðið fyrir.

Það er daglegt verkefni framkvæmdarvaldsins að annast þessi verkefni og ég sé ekki að sú sjálfsagða skylda og sú ábyrgð sem hvílir á framkvæmdarvaldinu að þessu leyti eigi á nokkurn hátt að raska þeim áformum sem uppi hafa verið um að ljúka þingstörfum nú í þessari viku. Það hefur verið ráðgert að þingslit eða þinglausnir gætu farið fram á miðvikudag.

En það er um margt athyglisvert að Alþb. skuli hreyfa umræðum um efnahagsmál hér á hinu háa Alþingi eftir þessa helgi. Þeir eru nú nýbúnir að taka þátt í og flytja hér vantraust á ríkisstjórnina. Vantraustið var byggt á þeirri efnahagsstefnu sem þeir fylgdu þá, þ.e. reka ríkissjóð með halla, eins og þeir lögðu til við afgreiðslu fjárlaga, og að fastgengisstefnan væri kolfallin, eins og formaður Alþb. hafði lýst og talsmenn Alþb. lýstu hér í umræðum um vantraustið. Nú komu þeir saman um helgina, alþýðubandalagsmenn, og formaður Alþb. lýsir því nú yfir að það sé alveg víðs fjarri að það eigi að reka ríkissjóð með halla eins og flokkurinn hefur lagt til fram að þessu, ekki einungis með jöfnuði heldur miklum tekjuafgangi og stóraukinni skattheimtu. Og þar að auki hefur formaður Alþb. dregið í land með fall fastgengisstefnunnar. Nú er það orðið aðalsmerki Alþb., ef formaðurinn er að tala yfir hönd Alþb. sem enginn veit, hvort þetta er samþykkt stefna Alþb. eða bara einkaskoðanir formannsins, það kemur kannski fram í umræðunum hér á eftir, en nú er það orðið aðalsmerki að fylgja fast eftir fastgengisstefnunni.

Þannig hefur þessi stjórnmálaflokkur gjörsamlega snúið við blaðinu frá því að hann flutti hér vantraust á ríkisstjórnina fyrir nokkrum dögum. Þá var vantraustið á því byggt að ríkissjóð átti að reka með halla og fastgengisstefnan væri hrunin. Nú á að reka ríkissjóð með tekjuafgangi og fastgengisstefnan er eitthvað það besta sem þeir hafa fundið upp. En kannski eru þetta bara orð formanns Alþb. Það er ekki allt vitlaust í því sem hann hefur fram að færa, en þjóðin veit eiginlega ekkert um það hvort þetta eru einungis hans orð eða stefna flokksins.