09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7755 í B-deild Alþingistíðinda. (5844)

Efnahagsráðstafanir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég tel að það sé alveg óviðunandi að slíta þinginu nú miðað við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu og miðað við það að fram hefur komið hjá sumum hæstv. ráðherrum að gerðar verði ráðstafanir í þessum mánuði. Það væri því eðlilegast að fresta þingfundum um hálfan mánuð á miðvikudag og að hæstv. ríkisstjórn notaði þann tíma til þess að koma fram með sínar hugmyndir um ráðstafanir og að þær yrðu svo ræddar hér þegar þing kemur aftur saman að hálfum mánuði liðnum.

Ég mótmæli því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu eru ekki einvörðungu og ekki fyrst og fremst að kenna þeim breytingum sem hafa orðið á málum þjóðarinnar út á við. Það er af annarri ástæðu. Það er vegna fjármagnskostnaðarins í þjóðfélaginu. Það er fyrst og fremst það sem hefur orðið til þess hvernig atvinnuástandið er í landinu. Ég er ekki á sömu skoðun og frummælandi. Það er ekki hægt að fella gengi og ná árangri með því að allt launafólk fái fullar bætur, en auðvitað á að hækka laun þeirra sem lægst eru settir en setja hitt fast. Öðruvísi náum við ekki árangri. Við verðum að líta á málið eins og það er en ekki láta óskhyggjuna ráða.