09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7757 í B-deild Alþingistíðinda. (5847)

Efnahagsráðstafanir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt eins og hv. síðasti ræðumaður að ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh. Ég spurði hæstv. forsrh. ekkert út í stefnu Alþb. eða stefnu stjórnarandstöðunnar. Ég spurði hæstv. forsrh., þroskaðan manninn, tveggja einfaldra spurninga og ég held að þær hafi ekkert farið fram hjá honum né öðrum hv. þm. Ég spurði hvort í vændum væru efnahagsráðstafanir. Við því komu engin svör annað en að segja almenn sannindi sem allir vita að ríkisstjórnir eru almennt kosnar til þess að stjórna landinu. Það vita allir hv. þm. og þjóðin líka. En þessi stjórn hefur reyndar ekki gert það og þess vegna finnst hæstv. forsrh. ástæða til að taka þetta sjálfsagða atriði fram.

Ég spurði hæstv. forsrh. í öðru lagi hvort stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi vildi virða þingræðið þess að við fengjum í fyrsta lagi að vita hvað væri á döfinni og í öðru lagi gæfist Alþingi kostur á að ræða og afgreiða þær efnahagsráðstafanir sem kunna að vera í vændum.

Útúrsnúningum hæstv. forsrh. á stefnu okkar alþýðubandalagsmanna hlýt ég auðvitað að vísa til föðurhúsanna. Ég held að hæstv. forsrh. hefði verið nær að nota þann takmarkaða ræðutíma sem fyrri mgr. 32. gr. þingskapa býður upp á til að reyna að svara þessum spurningum, en fara ekki út í það að sýna Alþingi þá afar takmörkuðu virðingu að snúa út úr því sem hann var spurður að.

Yfirlýst stefna Alþb. liggur fyrir í þessu efni. Við viljum að Alþingi taki á þessum málum. Hér er hinn lýðræðislegi vettvangur til að ræða þessa hluti og til að afgreiða þá. Eigi að grípa til efnahagsráðstafana þá leggjum við áherslu á það að launakjörin í landinu eru þegar ósæmileg hvað varðar þann hluta launafólks sem lökust hefur kjörin. Okkar stefna er að hækka lægstu laun í landinu í 45–55 þús. kr. og verðtryggja síðan þá upphæð, þar með talið líka fyrir þeirri hættu sem blasir við, að ríkisstjórnin gefist upp og felli gengið.

Hverjar sem ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar kunna að verða þá munum við beita öllum þeim ráðum sem okkur eru tiltæk til að reyna að verja launafólkið í landinu fyrir kjaraskerðingu af þeim sökum. Þess vegna líka á hv. Alþingi heimtingu á því að fá svör um það hér og nú hvað stendur fyrir dyrum hjá hæstv. ríkisstjórn til þess að menn geti rætt það og til þess að menn geti áður en þinginu lýkur leitað þeirra leiða sem hér kunna að vera til til þess að reyna að tryggja hag almennings fyrir þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin ætlar sér e.t.v. að grípa til rétt eftir að búið er að senda þingið heim.

Herra forseti. Ég þakka annars þessa umræðu og ég vona að hæstv. ráðherra noti nú seinna tækifærið til þess að svara því sem hann var spurður um.