12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er lítill sem enginn aðgangur að skjölum og skýrslum sem varða íslensk utanríkismál, þ.e. það er enginn aðgangur að þeim hér á landi. Eins og fram hefur komið hafa Bandaríkjamenn vissar skyldur til að opinbera skjöl eftir ákveðinn árafjölda. Við fáum því upplýsingar um samskipti okkar við erlend ríki í gegnum þarlend sjöl og þarlendar túlkanir. Það getur því verið tilviljunum háð hvað er birt og hvað ekki varðandi okkar samskipti við önnur lönd.

Það hlýtur því að vera krafa okkar að úr þessu verði bætt. Við getum ómögulega sætt okkur við að saga Íslands verði skrifuð frá útlöndum. Það sem haft er eftir Eysteini Jónssyni, fyrrv. ráðherra, í dagblaði í morgun um að sumar af þeim upplýsingum sem fram hafa komið séu andstæðar sannleikanum eru m.a. rök með því að settar verði hér reglur um upplýsingaskyldu íslenskra stjórnvalda um samskipti Íslands og annarra landa. Það er ekki nóg að hafa bara skjöl frá útlöndum.

Það er vissulega mikilvægt að varpa ljósi á það sem gerðist á árunum kringum 1950 þegar bandaríkjaher settist hér að. Þá er ekki síður mikilvægt að þeir sem eru að taka ákvarðanir í dag um okkar utanríkismál fái það aðhald sem m.a. felst í því að upplýsingar um samskipti við aðrar þjóðir verði ekki gleymdar og grafnar um aldur og ævi. Það er nauðsynlegt lýðræðislegt aðhald.