09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7767 í B-deild Alþingistíðinda. (5873)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, ráðherra sendi frá sér skýrslu á dögunum og var að reyna að sannfæra þjóðina um að raforkuverð í landinu hefði aldrei verið lægra en nú og í raun og veru væri það komið niður að því sem olíunotkun kostar. Ég held að hann verði, hæstv. ráðherra, að lesa sér svolítið betur til eða athuga þessi mál betur. Ég held að þrátt fyrir 25 aura lækkun á raforkuverði til t.d. húshitunar komi það samt sem áður í ljós að hann hefði þurft að lækka það hér um bil helmingi meira til að ná olíuverðinu. Mér finnst vera mjög eðlilegt t.d. með gróðurhúsin og með súgþurrkun, miðað við framleiðsluna yfirleitt, að hún fái að njóta lægra verðs en er í dag fyrir utan húshitunina eða þá sem eru á „köldum svæðum“. Ég stend í þeirri trú og endurtek það, enda hef ég flutt um það frv. sem ekki hefur nú enn þá komið á dagskrá eða ekki komið til umræðu, að þessi mál skuli athuguð á þann veg að lengja þau lán sem Landsvirkjun hefur tekið erlendis til að lækka raforkuverðið í landinu.

Ég ætla að láta þetta duga um þetta mál.