12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem þegar hafa fallið í þessari umræðu vil ég eindregið skora á hæstv. utanrrh. að hann geri gangskör að því að setja reglur og lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda, um trúnað og afléttingu trúnaðar. Og vegna þess sem hann sagði um söguna langar mig einmitt að leggja mikla áherslu á að sagan verði skrifuð af Íslendingum meðan þeir lifa. Þeim sem tóku þátt í framvindu sögunnar og réðu framvindu hennar að miklu leyti. Það kom einmitt fram að nú er einungis einn þeirra lifandi sem fóru til Bandaríkjanna á sínum tíma. Hann er einungis einn til frásagnar. Ég tel mjög mikilvægt að þessi saga verði skrifuð og ekki síst í ljósi þess að þessar ákvarðanir voru teknar utan Alþingis af þingmönnum og flestir þeirra sem þarna komu að máli þeir hafa lítið sem ekkert minnst á þetta í ævisögum sínum og frásögnum.

Það hvílir ótrúlega mikil leynd yfir þessu tímabili í þeirri sögu sem þegar hefur verið skrifuð á Íslandi og þessi leynd er til þess fallin að vekja tortryggni þeirra sem nú lifa og mun trúlega einnig vekja tortryggni þeirra sem eftir koma ef ekki verður betur á málum tekið.