12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég tel undir að skjöl séu birt sem sýna staðreyndir og að það séu settar reglur um þá hluti, hvernig með skuli fara. Hins vegar verð ég að lýsa vanþóknun minni á því að minnisblað sem norskur sagnfræðingur hefur fengið frá Bandaríkjunum, minnisblað útlendings, hefur orðið tilefni til árása á látna menn hér á landi, menn sem gegndu störfum fyrir íslensku þjóðina af fyllstu samviskusemi og með mikilli prýði. Gerð hefur verið atlaga að minningu Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra, sem þá var, í tilefni af þessu minnisblaði sem er að því er Eysteinn Jónsson segir fleipur eitt og án þess að segja sannleikann.

Ég tel að gera þurfi meira en hv. málshefjandi óskaði eftir. Hann óskaði eftir að gögn úr bandarískum söfnum yrðu birt. Ég mundi ætla að það væri fróðlegt að fá frásagnir rússneska sendiráðsins af viðtölum og samráði forustumanna Sósíalistaflokksins, forvera Alþb., á þessum tíma. Ég er viss um að þar kæmi margt forvitnilegt í ljós sem er nauðsynlegt fyrir komandi kynslóðir að vita, svo fremi sem menn ætla að taka mark á minnisblöðum útlendinga. Og sú spurning situr eftir hjá mér og hlýtur að gera það hjá öðrum: Skyldu þeir sem þar mökkuðu hafa verið að gæta hagsmuna Íslendinga?