09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7778 í B-deild Alþingistíðinda. (5904)

126. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Út af því sem fram kom í ræðu síðasta hv. ræðumanns um hvað þetta mál væri síðbúið til afgreiðslu í þessari hv. deild finnst mér rétt að taka það fram að ég fór úr bænum á föstudagsmorgun og taldi mig hafa gert ráðstafanir til þess að málið gæti fengið umfjöllun og afgreiðslu í landbn. Ed. þrátt fyrir mína fjarveru. En þær ráðstafanir sem ég gerði til þess brugðust og sú er ástæðan fyrir því að málið kemur ekki fyrr fram til afgreiðslu í deildinni en ekki sú sem hv. þm. vildi láta liggja að að hér væri um eitthvert sérstakt ósamkomulagsmál að ræða innan ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki orðið á nokkurn hátt var við ágreining í þessu máli. (SkA: Hvaða föstudagur var þetta?) Síðastliðinn sem er nú ekki langt undan svo sem hv. þm. er væntanlega vel ljóst.

Þetta er ekki stórmál og ekki afgreiðsla þess hér á hv. Alþingi og ég held að menn þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af þessari afgreiðslu. Þær aðstæður, sem ákvarðanir kunna að hafa verið teknar um fyrir um 20 árum síðan, eru nú að sjálfsögðu afar mikið breyttar. Við erum ekki að fjalla um sömu aðstæður og þá voru og það eru, ef hv. þm. vill fylgjast með því sem ég mæli, jafnan gerðar ráðstafanir í sláturhúsum, bæði að því er varðar þau sem við gætum kallað fullkomin sláturhús og líka þau sem vanbúnari eru, á hverju einasta ári til endurbóta og þá að sjálfsögðu eftir þeirri kröfu sem kjötskoðunarlæknar gera hverju sinni. Það er því vissulega fyrir því séð hverju sinni að þessi aðstaða sé fullnægjandi til þess að hægt sé að sinna hinum ýtrustu hreinlætiskröfum. Mér er alveg ljóst að hv. þm. veit þetta og ég hef að sjálfsögðu ekkert við hans fyrirvara að athuga, en ég vildi undirstrika að það hvað málið er hér seint á ferð byggist ekki á neinni óeiningu innan ríkisstjórnarliðsins að ég best veit heldur stafar af því að ég dvaldi utan höfuðborgarinnar núna þessa allra síðustu daga.