09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7779 í B-deild Alþingistíðinda. (5906)

126. mál, mat á sláturafurðum

Jón Magnússon:

Herra forseti. Það er óneitanlega nokkuð furðulegt að ákvæði laga nr. 30/1966 um aðstæður við slátrun og meðferð sláturafurða skuli enn ekki vera komin til framkvæmda á því herrans ári 1988, 22 árum eftir lögfestingu þeirra. Nú er til umræðu og umfjöllunar hvort enn eigi að framlengja undanþágur sem fara í bág við þær kröfur sem gerðar voru árið 1966 og taldar voru nauðsynlegar til að uppfylla ákvæði um meðferð, hollustu og aðgerðir til að koma hlutunum í eðlilegt og nauðsynlegt neysluhæft ástand fyrir neytendur þessara búvara.

Það var vitnað áðan í álit Hollustuverndar ríkisins og mig íangar til að vitna hér í nokkur önnur atriði í því áliti, með leyfi forseta, en það er það sem lýtur að lagasetningunni frá 1966. Þar er sérstaklega bent á að í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga var sett ákveðið ákvæði um að undanþágu mætti ekki veita nema í þrjú ár frá gildistöku þeirra laga og þá var að sjálfsögðu verið að miða við að sláturhúsin kæmu málum sínum í lag á þeim tíma. Þeim var skammtaður þessi tími, þeim voru skömmtuð þrjú ár, þ.e. til 1969. Nú er árið 1988 og það er verið að fara fram á að Alþingi samþykki að heimila ráðherra að hann megi eftir geðþótta heimila sláturhúsum sem ekki uppfylla skilyrði laganna frá 1966, hverra undanþága gilti til 1969, að hann geti eftir eigin geðþótta, og hans geðþóttaákvarðanir eru þingmönnum kunnar og ekki allar mjög glæsilegar, leyft sláturhúsum sem ekki uppfylla ákvæði laga, ekki fullnægja ákvæðum um hollustuvernd, ekki eru í samræmi við ákvæði sem gilda um meðferð sláturafurða, að stunda hina þokkalegu iðju sína. Og það er nú svo.

Svo ímynda menn sér að þjóð sem setur jafnstrangar kröfur í sínum neytendamálum geti verið gild á alþjóðlegum neytendamörkuðum og hún geti hafið markaðssókn fyrir íslenskar búvörur á erlendum vettvangi. Forsenda þess er að sjálfsögðu að við gefum sjálfum okkur ekki frí frá því að fara eftir eðlilegum og nauðsynlegum lögum um hollustuvernd og neytendavernd. Það er aðalatriðið.

Hér fyrr í vetur var lagt fram á Alþingi eitt makalausasta frv. sem lagt hefur verið fyrir Alþingi Íslendinga vegna undanþágu fyrir sláturhús á Bíldudal. Það frv. fékk sína eðlilegu meðferð og kom ekki til mikilla kasta Alþingis sem betur fer. En með samþykkt þess frv. sem hér liggur fyrir getur landbrh. veitt öllum „Bíldudalssláturhúsum“ leyfi til að slátra eftir sínum eigin geðþótta og það er óviðunandi.