09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7782 í B-deild Alþingistíðinda. (5911)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um þetta frv. til laga og leggur til að það verði samþykkt með brtt. sem flutt er á þskj. 1080. Það er meiri hl. nefndarinnar sem leggur þetta til. Minni hl. skilar séráliti.

Brtt. er í þá veru að það er breytt nokkuð þeim tímamörkum sem voru í frv. eins og það kom frá Nd. Með leyfi forseta hljóðar ákvæði til bráðabirgða nú svo að tillögu meiri hl.:

„Lögum þessum verður ekki beitt vegna innflutnings eða útflutnings sem á sér stað fyrir 1. jan. 1989, enda hafi verið samið um slík viðskipti fyrir gildistöku þessara laga.“

Það er meiri hl. nefndarinnar sem leggur til að frv. um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef nú gert grein fyrir, herra forseti.