09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7791 í B-deild Alþingistíðinda. (5919)

293. mál, áfengislög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur við 5. gr. frv. á þá leið að aftan við greinina bætist: Skulu ákvæði reglugerðarinnar stuðla að því að draga úr ofneyslu áfengis og styðja við forvarnarstarf, einkum fyrir ungt fólk.

Hv. Ed. hefur nú samþykkt til 3. umr. frv. til l. um breytingar á áfengislögum sem felur í sér að afnumið verði bann við sölu á áfengu öli. Þegar slík breyting tekur gildi er það að sjálfsögðu framkvæmd þeirrar breytingar sem skiptir mestu máli um framhaldið. Samkvæmt 15. gr. áfengislaganna skal dómsmrh. setja reglugerð um sölu áfengis samkvæmt IV. kafla áfengislaga sem fjallar um sölu áfengis. Að fenginni þeirri reynslu sem ég fékk af því að fjalla um þessi mál þori ég að fullyrða að það getur skipt sköpum í mjög mörgum atriðum út frá hvaða sjónarmiði þessi reglugerð verður sett. Verður hún sett út frá sjónarmiði áfengissalanna sem vilja reyna að selja sem allra flestum sem allra mest áfengi án tillits til þess hvaða afleiðingar það hlýtur eða fær þar að koma fram sjónarmið þeirra sem vilja vinna gegn þeim afleiðingum sem allir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað um þessi mál, eru sammála um að því miður fylgi neyslu áfengisins? Það er áreiðanlegt að fyrir þá sem vilja berjast þarna á móti skiptir gífurlegu máli að reglugerð sem um þetta verður sett veiti þeim bæði lagalegan og einnig siðferðislegan stuðning eins og frekast er kostur miðað við ákvæði laganna.

Um þetta greiða því hv. þingdeildarmenn raunverulega atkvæði, um þá till. hvaða sjónarmið þeir vilja að ráði við setningu reglugerðarinnar. Við flm. þessarar till. viljum undirstrika nauðsyn þess að sjónarmið þeirra, sem vilja sporna þarna á móti, sem vilja draga úr afleiðingum ofnotkunar áfengis og vilja vinna að forvarnarstarfi, sérstaklega fyrir ungt fólk, verði tryggt og það sjónarmið ríki við setningu reglugerðarinnar.

Ég trúi ekki öðru en að hv. þingdeildarmenn séu sammála um hver nauðsyn er að þetta sjónarmið fái að ráða ferðinni. Í trausti þess flytjum við flm. þessa brtt.