12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að furðulega er þunnt á mönnum skinnið, þegar þessi mál ber á góma, enn þann dag í dag. Hér rjúka menn upp í ræðustól og tala um dóma eða sakfellingu þegar einfaldlega er rætt um að birta þurfi allar heimildir sem þetta tímabil snertir til að fá sannleikann fram í dagsljósið.

Einn hefur verið fylgifiskur hersetunnar og aðildar að Atlantshafsbandalaginu frá upphafi og það er leyndin. Aðdraganda þeirra samninga var haldið leyndum bæði fyrir þjóðinni og Alþingi. En nú, 35 eða 40 árum síðar, sé ég ekki haldbær rök fyrir því að halda sagnfræðilegum heimildum um þetta tímabil leyndum nema þar sé eitthvað til að leyna. Og ég hlýt að benda þeim mönnum á, sem hér koma upp og rökstyðja þann góða málstað sem þeir vilja meina að þar hafi ráðið ferðinni, að þar með er í beinu framhaldi eðlilegasta krafan af þeirra hálfu að draga allar upplýsingar fram í dagsljósið. Við skulum ekki gleyma því að nú eru að birtast samtímaheimildir frá þessum atburðum, en hér uppi á Íslandi liggja og rykfalla í kössum okkar eigin samtímaheimildir um þessa hluti. Og ég segi aftur: Ég sé ekki að það sé ástæða til að halda þeim hlutum leyndum. Það á ekki að vera og það eiga ekki að vera að mínu mati neinar leyndarreglur til um íslensk skjöl — eða er hér yfirleitt eitthvað til þess að leyna? Ég held að það sé barnalegt og jaðri við að vera hlægilegt að tala um fundarhöld Alþingis fyrir luktum dyrum þó settar séu almennar reglur um birtingu íslenskra skjala. Ég sé ekki ástæðu til að loka þingsölum Alþingis fyrir fjölmiðlum þó það sé til umræðu.

Og ég segi bara að lokum: Það er um það að ræða hér að fá sannleikann fram í dagsljósið, ekki að dæma einhverja einstaklinga lífs eða liðna fyrir fram. Eða á hér ekki enn við það fornkveðna, sem Ari fróði setti á skinn, fyrstur manna, að skylt skuli að hafa það sem sannara reynist?