09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7792 í B-deild Alþingistíðinda. (5921)

293. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er greinilega einhver áhugi á þessu máli. Það er einn og einn maður á pöllunum og vélar þarna frammi, fréttamenn sjónvarps mættir á staðinn, fylgjast með stórviðburðunum. Hæstv. forsrh. allt í einu farinn að hafa áhuga á umræðum í Ed., hímir þarna frammi í dyrum. Og má segja að í hverri smugu sé einhver. Þessir glaðklakkalegu stuttbuxnadrengir úr prófkjörum Sjálfstfl. eru þarna inni í herbergi eins og einn og fram undan mér annar þannig að það er engu líkara en að það sé stórfelldur áhugi á þessu máli.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er svona mikill áhugi á þessu máli? Er hérna verið að leysa kannski efnahagsvandann? Er verið að leysa vanda byggðarlaganna, rekstrarvanda útflutningsatvinnuveganna eða rekstrarvanda alþýðuheimilanna? Ætli það sé verið að bæta hérna sérstaklega kjör þeirra heimila sem eru með mörg börn eða unglinga á sínu framfæri? Ætli það sé hérna mál um að koma sérstaklega til móts við þær fjölskyldur sem eiga við félagslega erfiðleika að stríða? Er hér kannski á ferðinni lausnarorðið fyrir þessar fjölskyldur? Það eru 5000 manns sem á hverju ári leita til Félagsmálastofnunar Reykjavíkur vegna félagslegra erfiðleika. Ætli það sé hér komið lausnarorðið fyrir þetta fólk? Skyldi áhuginn stafa af því, þessi brennandi áhugi eða hvað? Og hvernig ætli það væri, virðulegur forseti, á þessum alvörutímum þegar mikill vandi steðjar að að kalla núna til þann mann, ekki hæstv. fjmrh., hann hefur ekkert hér að gera, sem fær dálítið í kassann ef þessi ófögnuður verður samþykktur, heldur hæstv. heilbrmrh. Ég óska eftir því að hæstv. forseti kveðji hingað hæstv. heilbrmrh. (Forseti: Það mun verða orðið við þeirri ósk.) þannig að það sé hægt að ræða aðeins við hann um þær umbætur í heilbrigðismálum sem hann ætlar að koma á með því að láta samþykkja lög um áfengt öl. Hann ætlar að tryggja heilsubót fyrir þjóðina væntanlega og bæta hennar heilbrigði á öllum sviðum með því að innleiða sölu á áfengu öli.

Ég ætla, virðulegur forseti, að byrja á því að víkja aðeins að þeim brtt. sem hér eru fluttar. Það er þá fyrst brtt. á þskj. 1115 þar sem gert er ráð fyrir að fjmrh. hafi samráð við heilbrmrh. um verðlagningu áfengis. Hér er um ákaflega mikilvægt atriði að ræða, að verðlagning áfengis sé í samræmi við þá stefnu sem heilbrigðisyfirvöld, þ.e. landlæknisembættið sérstaklega, hafa á hverjum tíma. Hér er um að ræða atriði sem hefur verið í öllum tillögum áfengismálanefnda sem starfað hafa hér á landi á undanförnum árum og áratugum, að verðlagning áfengis eigi að ákveðast með tilliti til heilbrigðissjónarmiða og varnaðarsjónarmiða líka.

Á þskj. 1116 er brtt. frá hæstv. landbrh., hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur og mér þar sem segir: „Skulu ákvæði reglugerðarinnar stuðla að því að draga úr ofneyslu áfengis og styðja við forvarnarstarf, einkum fyrir ungt fólk.“

Eins og hæstv. landbrh. gat um er þetta ákaflega þýðingarmikil breyting vegna þess að hún skapar ráðherra svigrúm til að leggja áherslu á varnarráðstafanir þegar reglugerð um framkvæmd þessara laga er sett. Hér er þess vegna um að ræða tvö einföld sanngirnismál og þá geri ég ráð fyrir að einhver gæti hugsað sem svo í þessum sal: Ja, það er orðið allt of áliðið. Málið gæti stöðvast ef tillögur af þessu tagi verða samþykktar. Þá er því til að svara að við vorum hérna fyrir örfáum mínútum að breyta öðru þmfrv. úr Nd. þar sem gert var ráð fyrir einni breytingu á frv. til l. um viðskiptabann á Suður-Afríku þannig að það er alveg ljóst að það eru engin rök í málinu að segja núna: Það er ekki óhætt að samþykkja þessar sanngjörnu tillögur vegna þess að ekki sé tími fyrir málið. Það eru engin rök og ég skora á hv. þm. að reyna ekki að afsaka afstöðu sína með þeim hætti. Ég skora á hv. þm. að skoða þetta málefnalega og gera sér ekki einasta grein fyrir því hvað tillögurnar þýða í framkvæmd heldur líka hvað það þýðir ef þær eru felldar. Er það þannig að ef þingmenn fella þessar tillögur séu þeir að segja í fyrsta lagi: Það á ekki að hafa samstarf við heilbrmrn. um verðlagningu á þessum vörum og í öðru lagi eru þeir að segja ef þeir fella þessar tillögur: Ákvæði reglugerðarinnar eiga ekki að vera þannig að þau stuðli að því að draga úr ofneyslu áfengis og styðja við forvarnarstarf, einkum fyrir ungt fólk? Ætlar þessi virðulega deild, sem hefur með málefnalegum hætti tekið á þessu máli í vetur, að láta það um sig spyrjast að hún neiti því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í þessum greinum?

Það er ótrúlegt, verð ég að segja, virðulegur forseti, og þessar tillögur eru auðvitað fluttar í trausti þess að hér muni hv. þm. bregðast við með jákvæðum hætti talandi af reynslu af samskiptunum í þessari virðulegu deild núna í vetur.

Ég óskaði eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. heilbr.- og trmrh. yrði kallaður inn til að biðja hann um að gera grein fyrir þeirri heilsubót sem hann ætlar að innleiða með því að styðja í þinginu frv. um áfengan bjór. Hæstv. ráðherra sagði í umræðum um málið 23. mars sl.:

„Hlutverk heilbrigðisyfirvalda er að halda uppi öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi um hvers konar heilsusamlegt líferni sem dregið getur úr sjúkdómum og slysum. Það eiga yfirvöld m.a. að gera með því að efla ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu með markvissu upplýsinga- og fræðslustarfi. Ég tel markvisst forvarnarstarf ekki felast í því að banna einstakar neysluvörur sem þó kunna að vera minna skaðlegar en aðrar sem neysla er leyfð á. Í slíkri afstöðu finnst mér felast tvískinnungur“ - tvískinnungur, takið eftir því orði. „Ég mun leggja þunga áherslu á aukið fræðslu- og upplýsingastarf um hættuleg og skaðleg áhrif áfengis og tóbaks á heilsufar fólks og styðjast í því sambandi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og íslenskrar heilbrigðisáætlunar. Ég tel frv. það sem hér er til meðferðar ekki brjóta í bága við þá stefnu og segi því já.“

Hæstv. heilbrmrh. hefur með þessum hætti m.ö.o. lýst því yfir, ég hygg fyrstur starfandi heilbrmrh., að það eigi að innleiða þetta af því að annað sé tvískinnungur. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram, hæstv. forseti, að það sé tvískinnungur að vera heilbrmrh. og samþykkja ófögnuð eins og þennan, það gangi ekki upp, það sé rökræn lokleysa, botnleysa. Eða hvað, hæstv. ráðherra, mér er spurn: Hefur landlæknisembættið, sem er skv. lögum ráðgjafi heilbrmrh. í málum af þessu tagi, lýst því yfir að það sé eðlilegt að taka upp sölu og framleiðslu á áfengu öli? Hefur landlæknisembættið breytt um skoðun í því efni?

Við sem hér höfum talað stundum áður höfum vitnað máli okkar til stuðnings oft til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en hæstv. ráðherra var svo smekklegur að þegar málið var til meðferðar í hv. Nd. 2. mars 1988 vitnaði hann til einkasamtals sem hann hafði átt við Halfdan Mahler, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um þessi mál þar sem dr. Halfdan Mahler lét-það koma fram að hann undraðist að hér skyldi vera bjórbann á sama tíma og fólk gæti keypt drykk með mikið hærra áfengisinnihaldi. Í sjálfu sér þarf undrun af þessu tagi ekki að segja nokkurn skapaðan hlut vegna þess að ég veit ekki betur en hver einasti útlendingur sem hingað kemur frá grannlöndum okkar staldri við og segi: Já þetta er sérkennilegt. Það er bannaður bjór í ykkar landi. Það er sérkennilegt, segja menn og eru þannig undrandi. En að nota það sem rök í málinu fyrir því að hæstv. heilbrmrh. fyrstur starfandi heilbrmrh. styðji mál af þessu tagi tel ég satt að segja vera fyrir neðan allar hellur.

Mér er kunnugt um að það hefur verið leitað til skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og forstjóra hennar og spurt hvað hann segi um þessa notkun á nafni Halfdans Mahlers í tengslum við þessa umræðu hér á Íslandi. Auðvitað hefur forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar engu getað svarað vegna þess að stofnunin byggist á því að hún hafi gát samskipti við ráðherra í hverju landi á hverjum tíma. Stofnunin og forstjóri hennar eru auðvitað sett upp við vegg með því að þarna er verið að vitna í prívatsamtal við þennan mann, forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. En mér er einnig kunnugt um að sú deild innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þeir sérfræðingar sem þar eru og fjalla bæði um geðræn vandamál og áfengisvandamál hafa í bréfum til Íslands lýst því yfir að gefnu tilefni að auðvitað telji stofnunin að aukinn opnari aðgangur að áfengi þýði aukin áfengisvandamál og aukin geðræn vandamál og sé þess vegna í blóra við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst menn seilast nokkuð langt þegar farið er að nota samtöl af þessu tagi sem rök fyrir því að koma máli af þessum toga hérna í gegn.

En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem hann ætlar að gera? Hverjar eru tillögur hans um aukið forvarnarstarf í haust? Hverjir eiga að framkvæma það aukna forvarnarstarf þegar t.d. sérfræðingar á vegum áfengisvarnaráðs eru núna búnir að segja af sér m.a. vegna þeirra vinnubragða sem hér hafa verið viðhöfð? Hverjir eiga að framkvæma þetta fræðslustarf í skólum landsins og annars staðar undir leiðsögn heilbrmrh. sem hefur sagt: Þetta er allt í lagi. Við skulum sulla þessu yfir landið og vita hvort þjóðin þolir það ekki.

Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að taka á þessu máli? Hvaða tillögur er hann með? Hann hlýtur að vera með þær núna hér og nú því þetta er síðasta umræða um málið. Það er verið að afgreiða út úr þinginu, ef svo fer sem fór við 2. umr., frv. til l. um að auka stórkostlega áfengisneyslu í þessu landi. Ég lýsi ábyrgð á hendur hæstv. ráðherra í þessu efni nema hann geti hér og nú lagt fram tillögur lið fyrir lið um hvernig á að verja unga fólkið í landinu fyrir þessum ósköpum. Og hér eru menn auðvitað ekki bara að tala sem einstaklingar og einstakir þingmenn heldur erum við kannski fyrst og fremst ekki síst að tala sem foreldrar, takandi tillit til þeirra aðstæðna sem mæta börnunum okkar úti í þjóðfélaginu um þessar mundir. Hvaðan kemur heilbrmrh. landsins sú vissa að hann geti gengið fram og sagt að frá sjónarmiði heilbrigðisyfirvalda sé þetta allt í besta lagi? Hvaðan kemur honum sú sérfræðilega vissa? Mér er spurn, hæstv. forseti.

Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar og það er kostulegt satt að segja að heyra rökleysurnar í þessu máli þegar það gerist aftur og aftur að þingmenn, ágætir þingmenn, koma í stólinn og segja: Þetta á að samþykkja, en það á að auka forvarnarstarf. Það á að prófa einstaklinginn, segir einhver í atkvæðaskýringu í Nd., og þar fram eftir götunum. Ef eitthvað er tvískinnungur þá er það þetta. Þetta gengur ekki upp og fyrir því skora ég á hæstv. ráðherra, hv. 1. flm. þessa máls og forustumann Neytendasamtakanna á Íslandi og talsmann meiri hl. allshn. að flytja rök fyrir máli sínu. Hvernig ætla þeir að verja unga fólkið í þessu landi fyrir þeirri öldu, flóðbylgju af áfengu öli sem skellur hér yfir ef þessi lög verða samþykkt? Ég skora á þá að gera grein fyrir því og láta þjóðina vita. Þeir hljóta að hafa ráð undir rifi hverju. Það er greinilega áhugi á að hlýða á mál þeirra, virðulegi forseti.