09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7796 í B-deild Alþingistíðinda. (5923)

293. mál, áfengislög

Jón Magnússon:

Herra forseti. Þær brtt. sem hafa verið lagðar fram á þskj. 1115 og 1116 eru allra góðra gjalda verðar. Út af fyrir sig má taka undir þau rök sem sett eru fram af flm. brtt.

Skoðum þessar brtt. aðeins nánar og fyrst brtt. á þskj. 1116 sem er svohljóðandi: „Við 5. gr. Aftan við greinina bætist: Skulu ákvæði reglugerðarinnar stuðla að því að draga úr ofneyslu áfengis og styðja við forvarnarstarf, einkum fyrir ungt fólk.“

Það er hægt að taka undir þetta sjónarmið. Spurningin er þá hvort nokkur nauðsyn sé á því að flytja brtt. með tilliti til þeirra ákvæða sem að öðru leyti eru í áfengislögunum. Eftir að hafa skoðað þau lög sýnist mér að þær heimildir sem verið er að fara fram á skv. brtt. á þskj. 1116 séu nú þegar í 1. gr. áfengislaganna. 1. gr. áfengislaganna hljóðar svo:

„Tilgangur laga þessara er sá að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma því böli sem henni er samfara.“

Að sjálfsögðu hefur ráðherra heimild til að gefa út reglugerðir í samræmi við ákvæði þessara laga og þess vegna hygg ég að það sem brtt. tekur til felist nú þegar í 1. gr. áfengislaganna. Þegar af þeirri ástæðu er þessi grein óþörf.

Í annan stað vil ég benda á að þar sem vitnað er til 5. gr. er átt við 5. gr. lagafrv. sem hér liggur fyrir þar sem er talað um breytingu á 5. gr. áfengislaganna nr. 82/1969, en það er grein sem er í IV. kafla áfengislaganna og fjallar um sölu og veitingar áfengis.

Ég hygg að þetta orðalag og þessi brtt. eigi mjög illa heima með þessum hætti á þeim stað þannig að mér virðist á tillöguflutningi þeirra sem standa að þessu máli, þ.e. fyrrv. dómsmrh. og fyrrv. heilbrmrh. og hv. 6. þm. Reykv., að þeir hafi ekki skoðað áfengislögin nægilega vel áður en þeir lögðu fram brtt. því að eins og ég gat um sýnist mér að heimildir séu nú þegar fyrir hendi.

Að öðru leyti get ég tekið undir öll þau sjónarmið sem hér voru sett fram varðandi varnaðarstarf og annað þess háttar sem ég tel vera ákaflega mikilvægt varðandi þessi mál. Ég hef áður lýst skoðun minni á málinu í þessari deild og ætla ekki að tefja tímann með að ítreka þau sjónarmið, en mig langaði til að benda á þetta, ekki síst vegna ummæla sem fram komu, því að eins og ég sagði eru þessi ákvæði þegar fyrir í lögum.