09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7799 í B-deild Alþingistíðinda. (5926)

293. mál, áfengislög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykv. beindi hér til mín nokkrum fsp. og fór geyst í ræðu sinni eins og menn heyrðu. Hins vegar kom líka fram í máli hans að hann hefur farið nokkuð yfir það sem ég hef sagt í umræðum um þetta mál í Nd. þannig að honum sem og sjálfsagt þingheimi öllum er nokkuð ljós mín afstaða til málsins. Ég þarf ekki að rekja það eða endurtaka það. Það hefur komið fram, bæði í því sem ég hef þar sagt og með atkvæði mínu.

Hv. þm. tók líka fram að við þyrftum, þingmenn, sem einstaklingar og sem einstakir þingmenn að gera þetta mál upp við okkur og hafa á því skoðun og afstöðu til þess. Það hafði ég gert fyrir löngu, reyndar síðast þegar bjórmál var til umræðu í hv. Alþingi, svo að afstaða mín til þess lá þá fyrir. Ég sá ekki og sé ekki ástæðu til þess að sú afstaða mín frá þeim tíma sé í raun breytt. Ég sem einstaklingur hlýt að hafa og hef sömu skoðun á þessu máli og þá.

Hv. þm. spurði um afstöðu landlæknisembættisins og hvort ég hefði fengið einhverjar sérstakar ráðleggingar um að heimila bjór frá þessu embætti. Auðvitað veit hann jafn vel og aðrir hv. þm., sem hafa kynnt sér afstöðu landlæknisembættisins til málsins, að svo er ekki. Hann sagði líka að landlæknisembættið væri ráðgefandi fyrir ráðherra í heilbrigðismálum sem rétt er en síðan verður auðvitað ráðherra eða þeir sem þar fara með stjórn hverju sinni að vega og meta hvernig þeir taka á einstökum efnisþáttum eftir því sem þeir koma upp á borðið hjá viðkomandi aðilum.

Aukinn og opnari aðgangur þýðir aukna neyslu, segir hv. þm. Við höfum rætt um að neyslu mætti m.a. stýra með aðgengi og með verðlagningu á áfengum drykkjum. Um það er talað í heilbrigðisáætlun og þar er reyndar talað um að það sé ástæða til að leggja áherslu á hækkað verð á sterkari drykkjum, hækkað verð á sterkari drykkjum umfram verð á veikari víntegundum. Það sýnist bera í sér að menn telji að veikari áfengistegundirnar séu ekki eins hættulegar og þær sterkari og á því hefur afstaða mín m.a. byggst, eins og kom reyndar fram í því sem hv. þm. las eftir mér þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu, að ég teldi að í því fælist tvískinnungur að banna veikustu áfengistegundirnar en leyfa þær sem sterkari væru. Þetta þarf ég reyndar heldur ekki að endurtaka. Sú afstaða mín liggur fyrir.

Ég hef hins vegar lagt á það áherslu að það á að auka fræðslustarf og herða forvarnarstarf. Ég hef verið með tillögur í því efni uppi í vetur. Það hefur þegar verið samið á vegum ráðuneytisins frv. til l. um svokallaða forvarnarstofnun sem m.a. á að leiða til þess að við getum tekið þessi forvarnarstörf almennt fastari tökum en við höfum getað gert hingað til, samræma störf og starfskrafta í því efni. Því miður tókst ekki að koma því frv. fyrir þing nú fyrir þinglokin, en ég vænti þess að geta tekið það upp strax aftur á haustdögum. Mín skoðun er sú að við þurfum og eigum að auka ábyrgð einstaklingsins í þessu efni. Við eigum að reyna að breyta viðhorfum, við eigum að reyna að breyta hugsunarhætti, ekki síst ungs fólks til áfengisneyslu almennt og til þeirrar hættu sem af henni stafar. Um það er ekki ágreiningur. Ég held að það viðurkenni í raun allir. Og ég bendi á að þrátt fyrir að við höfum ekki tekið þá aðferð upp í sambandi við tóbaksvarnir að banna þar einstakar tegundir, hvorki af sígarettum, vindlum eða öðru tóbaki, hefur okkur tekist að breyta þar hugsunarhætti. Það hefur tekist býsna vel í sambandi við forvarnarstarf á sviði tóbaksvarna og hefur dregið verulega úr reykingum, ekki síst hjá ungu fólki, af því að það hefur tekist að breyta hugsunarhætti og viðhorfum. Það er það sem ég hef hugsað mér að reyna að leggja höfuðáherslu á og tel að sé þýðingarmest í því starfi sem heilbrigðisyfirvöld þurfa og eiga hverju sinni að viðhafa gagnvart hverjum þeim neysluvarningi sem er hættulegur heilsu fólks. Það er auðvitað miklu fleira en áfengi og tóbak. Má í því sambandi einnig minna á að við erum nú að hefja mikið starf á sviði mótunar neyslu- og manneldisstefnu sem er samstarf fimm ráðuneyta og manneldisráðs. Þar hugsum við okkur að taka á ýmsum þáttum sem varða heilbrigði fólks, hollustuhætti, neysluvenjur. Þetta held ég að sé allt saman afar mikilvægt í sambandi við það sem við höfum kallað forvarnarstörf einu nafni og það að fá fólk til þess að hugsa meira um heilsu sína, vera ábyrgara sjálft fyrir því hvernig það hagar sér, en það gerist síður með boði og bönnum. Þetta er það sem ég ætla að hafa að leiðarljósi í mínu starfi í þessu embætti.