09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7805 í B-deild Alþingistíðinda. (5934)

293. mál, áfengislög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í frv. eins og það nú liggur fyrir eru ákvæði til bráðabirgða um að skipa fimm manna nefnd er geri tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis og einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð um áfengismál, einkum meðal skólafólks, er hefjist eigi síðar en mánuði áður en lög þessi koma til framkvæmda.

Efnislega eru ákvæði brtt. sem hér er verið að greiða atkvæði um í þessu ákvæði til bráðabirgða og satt að segja hnykkti mér við þegar fulltrúar áfengisvarnaráðs báðu nefndarmenn í allshn. um að fella þetta ákvæði til bráðabirgða út úr þessum lögum. Ég er hlynntur þessu ákvæði til bráðabirgða og tel óþarft að samþykkja brtt. vegna þess að ákvæði hennar eru í ákvæði til bráðabirgða og því segi ég nei.