12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Menn þurfa ekki að leita í erlend skjöl til að finna landráðabrigsl í garð íslenskra stjórnmálamanna, reyndar hvorki þeirra sem á lífi eru né þeirra sem liðnir eru. Þeir sem muna þessa daga, þá tíð og þær djúpu geðshræringar sem bærðust í brjósti Íslendinga þegar teknar voru mikilvægar ákvarðanir eins og um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið minnast þess enn í dag. Það kemur mér þess vegna ekkert á óvart þó að t.d. dagblaðið Þjóðviljinn þurfi ekki að láta efna til neinnar sögulegrar rannsóknar í þessu tilviki.

Þjóðviljinn hafði löngu gert það upp við sig að ekki aðeins fyrr. forsrh. Stefán Jóhann Stefánsson heldur þeir þremenningar sem mótuðu þá utanríkisstefnu, sem við höfum fylgt síðan, væru allir landráðamenn. Það var hin viðtekna söguskoðun þess tíma í þessu blaði og hafi menn lesið það blað og lagt trúnað á það trúa þeir því væntanlega enn í dag, enda segir í þessu blaði í dag, með leyfi forseta, undir spurningu dagsins: „Koma þér á óvart tengsl fyrrv. forsrh. Stefáns Jóhanns Stefánssonar við leyniþjónustu Bandaríkjanna, ClA?" — Og menn eiga síðan að svara:

Það er þegar búið að slá því föstu hver þessi tengsl voru og það er ekkert nýtt í því því að þetta blað hefur haldið því fram áratugum saman að allir þessir menn hafi gengið erinda erlendra hagsmuna.

Þeir hinir sömu sem ritstýra þessu blaði og voru á landsfundi sínum að gera upp sögulega reikninga geta hins vegar treyst því að skjöl um viðræður þeirra við fulltrúa sovéska sendiráðsins eða KGB eða annarra fulltrúa sovésks ríkisvalds, sem þeir voru auðvitað í nánum tengslum við á þeim tíma, verða ekki opinberuð, ekkert á næstunni.

Í alræðisríkjum er ekki nóg að stjórna athöfnum manna og orðum, heldur líka hugsunum. Og það er ekki nóg. Þar er það líka til siðs að endurskoða söguna við valdhafaskipti. Enn í dag mun það vera svo að menn sem létu hvað mest að sér kveða í sovéskum stjórnmálum, þeirra nöfn eru jafnvel ekki enn til í hinni sovésku alfræðiorðabók. Heimildir um menn eru þurrkaðar út. Þeir voru jafnvel ekki til ef valdhöfum er það miður þóknanlegt. Við ætlum ekki að hafa þennan framgangsmáta.

Dómur sögunnar verður ekki kveðinn upp úr þessum ræðustól og hann er ekki algildur. Ég hygg hins vegar að það sé óhætt að slá því föstu að það sé samdóma álit mikils meiri hluta íslensku þjóðarinnar að þeir þremenningar sem hér um ræðir og áttu mestan þátt í því að móta þá utanríkisstefnu sem við höfum fylgt hafi af verkum sínum verið dæmdir sem landsins bestu synir. Ég held að dómur sögunnar sé sá að þeir hafi mótað stefnu sem hefur tryggt okkur frið og öryggi og verið í fullu samræmi við íslenska þjóðarhagsmuni. Auðvitað kunna menn að hafa aðrar skoðanir á því og menn eru frjálsir að því að hafa hana. En salómonsdómurinn eða hinn endanlegi sögulegi sannleikur verður ekki kveðinn upp með einhverjum orðum úr þessum ræðustól því að seint verða menn með orðum vegnir.

Hið einfalda mál að við eigum að setja okkur reglur um birtingu og meðferð skjala frá þessum tíma er lítið mál og þarf ekki að eyða mörgum orðum að því. Það er sjálfsagt og við eigum að fara í því efni eftir viðteknum venjum. Síðan er það sagnfræðinga að leggja mat á sögulegt samhengi þessara skjala. Og við skulum minnast þess að það sem sett er á blað af erlendum sendimönnum er ekki hinn endanlegi sögulegi dómur, jafnvel þótt einstaka innlendum mönnum henti í sínum áróðri að líta svo á.