09.05.1988
Neðri deild: 97. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7807 í B-deild Alþingistíðinda. (5942)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég bað um það á fundinum á laugardaginn að nefnd sú sem hefur þetta mál til meðferðar, þ.e. fjh.- og viðskn., kannaði málið. Ég vil leggja þá spurningu fyrir formann nefndarinnar, hv. þm. Pál Pétursson, hvort kannað hafi verið af nefndinni hvernig Alþingi ætlar að uppfylla þá skyldu sína að fylgjast með hvernig Ríkisendurskoðun hagar sínum störfum. Ég lít svo á að það sé skylda Alþingis að fylgjast með því máli. Ég vona að hv. þm. hafi heyrt fréttir á Stöð 2 fyrr í kvöld þar sem rætt var við Hauk Þórðarson lækni og fram kom að hann væri mjög óhress með frv. Að vísu taldi hann að eitthvert hald væri í því sem kom fram í nál. hv. fjh.- og viðskn. en þó alls ekki nægilegt.

Sá sem hér stendur hefur rætt við nokkra hæstaréttarlögmenn um sjúkraskýrslurnar og draga þeir mjög í efa að það sé ekki brot á stjórnarskrá. Ég er ekki lögfræðingur en hef rætt við hina mætustu lögfræðinga og lækna um þetta efni og þeir telja að það orki mjög tvímælis, svo að ekki verði fastar að orði kveðið, að það sé ekki brot á stjórnarskránni. Ég vil minna á það sem kom fram hjá þessum hæstaréttarlögmenn að 35–40% af þjóðinni leita einhvern tíma til læknis vegna geðrænna vandamála. Það er mikil spurning hvort þetta sé rétta leiðin, hver og einn hv. þm. lítur bara í eigin barm, til þess að tryggja og endurskoða mál læknanna. Hvort leiðin sé ekki frekar sú að skylda landlæknisembættið til að skoða þessi mál.

Sá sem hér stendur hefur fylgst með Ríkisendurskoðun af tilviljun í nokkur ár og ég vil bara segja í því sambandi að ég vil vera með allan fyrirvara ef Alþingi ætlar að ganga frá þessari löggjöf á þann hátt sem hér er lagt til. Og það er alveg víst að þessi mál og fleiri í því sambandi verða tekin upp á næsta þingi og ég held að ráð væri að fresta afgreiðslu þessa máls.

Ég óska eftir því, ef formaður nefndarinnar svarar ekki þessum spurningum, að svar komi frá hæstv. forseta sem er tengdur þessu máli þar sem það kemur fram í grg. að forsetar séu einhuga um þetta mál. Í grg. stendur: „Ríkisendurskoðandi hefur tjáð“. Það er auðséð að ríkisendurskoðanda er fyrst og fremst umhugað um að þessi mál séu öll í höndum þessa embættis og það er því sú minnsta krafa sem hægt er að gera að því verði svarað hvernig koma eigi þessum málum fyrir. Hvernig Alþingi sjálft, sem ber ábyrgð á þessu, fylgist með slíkri endurskoðun.