09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7812 í B-deild Alþingistíðinda. (5960)

360. mál, umferðarlög

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem um frv. fjallaði og sat þar fund nefndarinnar. Ég tók það fram þar að ég væri ekki sáttur við frv. og áskildi mér eins og aðrir nefndarmenn rétt til þess að tjá mína afstöðu þegar málið kæmi til umræðu.

Ný umferðarlög voru samþykkt á hinu háa Alþingi 30. mars 1987 og eru því rúmlega ársgömul. Lög þessi voru búin að vera lengi í smíðum, enda mikill lagabálkur, en nú er lögð til breyting á þeim. Lagt er til að meginbreytingarnar verði tvær; þ.e. að Bifreiðaeftirlit ríkisins verði lagt niður og myndað hlutafélag þar um með meiri hluta ríkissjóðs, og að tekið verði upp svokallað fastnúmerakerfi í stað þess að skrá ökutæki eftir lögsagnarumdæmum.

Um númerakerfið eru skiptar skoðanir. Fylgjendur breytinganna beita þeim aðalrökum að kostnaðurinn sé mikill af núverandi kerfi og kemur það skýrt fram í þeirra málflutningi að ríkið verði fyrir mestu af kostnaðinum sem talinn er vera um 100 millj. kr.

En við skulum líta nokkru nánar á þetta. Á bls. 32 á fskj. 8, sem fylgir frv., kemur fram hjá forstöðumanni Bifreiðaeftirlitsins að fjöldi umskráninga hjá Bifreiðaeftirlitinu 1986 hafi verið 37 381. Þegar framkvæmdastjórinn er búinn að taka með þann kostnað sem Bifreiðaeftirlitið hefur af þessum verkþætti verður áætlaður sparnaður Bifreiðaeftirlitsins árið 1987 20 356 þús. kr. Þetta væri sparnaðurinn ef horfið væri frá núverandi númerakerfi. Svo bætir hann við að við þennan sparnað Bifreiðaeftirlitsins bætist verulegt hagræði fyrir ýmsar opinberar stofnanir, t.d. tekjudeild fjmrn., ríkisbókhald, tollstjóra, sýslumenn, fógeta og tryggingafélög. Það er látið liggja að því að fækkað verði í þessum stofnunum ef frv. verði samþykkt. En ég hef nú ekki trú á því og það er annað mál. Þetta segir framkvæmdastjóri Bifreiðaeftirlitsins að sé sparnaðurinn 1987.

En lítum nánar á bls. 30 á fskj. 7, sem einnig er hér með. Þar er tekið dæmi af bifreið sem ber einkennisstafina K-301 og eiganda, sem sagður er heita Jón, sem er að selja gamla bílinn og kaupa nýjan. Sett er upp ítarleg útfærsla á því hvernig slíkt gæti gengið fyrir sig. Þar kemur fram að allar umskráningarnar og eigendaskiptin kosta 8800 kr., fyrir utan númeraplöturnar. Höfundur fskj. gefur sér að 30 þús. umskráningar og eigendaskipti árið 1986 hafi kostað 135 millj. kr. Í 2. málsgr. á bls. 31 í sama fskj. segir að Bifreiðaeftirlitinu séu greiddar a.m.k. 6800 kr. fyrir tvær umskráningar í dæmi sem þar er tekið, eða 3400 kr. fyrir hvora umskráningu. - Það er ekki nákvæmlega sama upphæð milli aðila en ég nota þá tölu sem hann gefur upp, eða 3400 kr. fyrir hverja umskráningu. - Samkvæmt því gefa 30 þús. umskráningar 102 milljónir. Og 37 381 kr., sem var raun tala Bifreiðaeftirlitsins fyrir árið 1986, gæfu þá 127 milljónir kr. Áætlaður sparnaður Bifreiðaeftirlitsins 1987 skv. skýrslu forstöðumanns og ég gat hér um áðan var 20 356 þús. kr. Þarna er mismunur upp á 107 millj. kr. Ég spyr: Stenst þetta? Getur það verið að bifreiðaeigendur séu látnir greiða rúmlega fimmfaldan þann kostnað sem Bifreiðaeftirlitið hefur af umskráningu ökutækja?

Reyndar þarf ég ekki að spyrja að þessu því að í nál. því, sem hér fylgir þessu frv., kemur fram á bls. 7 að tekjur Bifreiðaeftirlits ríkisins af skráningargjöldum 1986 voru 102 971 þús. kr. Enda segir í texta á miðri bls. 7, með leyfi forseta: „Endanlegar rekstrarniðurstöður fyrir 1987 liggja ekki fyrir en ljóst er að árin 1986 og 1987 hafa verið innheimt verulega hærri skoðunar- og skráningargjöld en nemur kostnaði Bifreiðaeftirlitsins. Með þessum samanburði sýnist mér að seilst hafi verið nokkuð djúpt í vasa þeirra bifreiðaeigenda sem látið hafa umskrá bifreiðar sínar. Þetta segir okkur einnig þá sögu að ríkið hefur ekki tapað á þessum viðskiptum heldur hafa bifreiðaeigendur greitt ríflega fyrir það sjálfir. Því er það mín skoðun að ekki liggi á að taka upp breytt númerakerfi vegna þess hve ríkið verði illa úti í þessum viðskiptum. Að auki þurfum við Íslendingar ekki að apa allt eftir útlendingum í þessum efnum og megum sýna okkar sérstöðu, t.d. í þessu máli. Ég leggst því á móti breytingunni sem boðuð er í frv. um breytingu á skráningu ökutækja.

Enn fremur ber ég vissan ótta í brjósti um að skoðunin gangi alveg upp. Það fer ekki á milli mála að setja á upp stóra og volduga skoðunarstöð í Reykjavík og svo síðar þrjár til fjórar úti um landið og ef ég man rétt er það árið 1992 sem því ska11okið. Ég ætla ekki að draga úr því á nokkurn hátt að við öflum þeirra tækja sem fullkomnust og best eru til slíkrar skoðunar því okkur er öllum ljóst að umferðaröryggi þarf að vera mikið. En ég efast mjög um að hægt sé að koma þessu í viðunandi horf úti á landsbyggðinni með þessum hugmyndum. Ég spyr t.d. hvort ekki taki tíma að koma sér niður á hvar þessar 3–4 höfuðstöðvar skuli vera. Hvernig skal leysa það á milli hinna aðilanna? Drepið er á það að gera megi þetta með sérstökum tækjum sem flutt séu um landið. Þetta kemur vel til greina en ég vara við því, ef út á þessa braut er farið, að haft verði það langt til skoðunarstöðvanna að menn vanræki að koma með bíla til skoðunar. Það þarf að vera mjög sterkt og gott eftirlit á þessu og nr. eitt, tvö og þrjú í þessu efni er að tryggja nógu mikið öryggi. Ég sé að höfuðborginni er vel borgið með þessum tillögum en ég óttast að hitt sé ekki nógu vel útfært enn þá til þess að raunverulega sé hægt að ganga frá því máli.

En ég ætla ekki að tjá mig frekar um þetta. Ég endurtek aftur að ég leggst á móti því að númerabreytingin verði gerð, ég sé engar röksemdir fyrir því.