09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7824 í B-deild Alþingistíðinda. (5963)

360. mál, umferðarlög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það er því miður nokkur hætta á að endurtekningar kunni að gæta í umræðunum vegna þess að margir þeirra sem hér hafa talað voru ekki viðstaddir 1. umr. um málið, en því verða menn að una. Ég vil byrja á því að þakka hv. allshn. Nd. fyrir hennar framlag til þessarar umræðu og vil taka á nokkrum af þeim atriðum sem hafa komið fram. Ég ætla að byrja á því að skýra hvers vegna lagt er til að stofnað verði hlutafélag um bifreiðaskoðun og skráningu á bifreiðum. Ástæðan er sú að mikil kyrrstaða hefur verið í þessari þjónustu þannig að draga má í efa að með þeirri tækni og aðferðum sem Bifreiðaeftirlitið nú býr yfir sé unnt að veita þá öryggisþjónustu sem er eini tilveruréttur þessarar stofnunar. Málið er nú ekki flóknara en þetta. Til þess að koma við nýjum vinnubrögðum þarf aðra uppbyggingu, annars konar skipulag og meira fjármagn reyndar því að það er þörf fyrir skoðunarstöðvar með mælitækjum sem vinna líkt því sem vörur í verksmiðju eru gæðaprófaðar.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að menn líti líka á fjárhagslega skipulagið um leið og tæknilegt og verklegt skipulag eftirlitsins er tekið til endurskoðunar. Það er rauði þráðurinn í málflutningi þeirra sem hér hafa talað að óviss samsvörun sé milli kostnaðar af þeirri þjónustu sem þarna er veitt og hinnar veittu þjónustu. Leiðin til þess að fá örugga samsvörun er einmitt sú sem hér er lögð til, að það verði fjárhagslega ábyrgur aðili sem veiti þjónustuna, standi undir kostnaði af fjármagni við hana og standi skil á því. Það eru því miður tæknilegir gallar á því kerfi sem við höfum nú, bæði að því leyti að það gefur ekki kost á hemlaprófunum eða ljósaprófunum á þann hátt sem þyrfti að gera og ýmsum öðrum öryggisprófunum sem hægt er að veita í nútíma skoðunarstöðvum. Það þarf að stefna að því að þessi þjónusta verði veitt um allt land og ég vildi benda hv. þingdeildarmönnum á það en sumir þeirra hafa talað eins og hin upphaflega tillaga væri óbreytt. Eins og frv. kom frá Ed. er það hins vegar ákveðið í sjálfri frumvarpsgreininni að stefnt skuli að því að skoðunarstöðvar rísi í hverjum landshluta.

Vegna þess sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vék hér að um staðhætti og fyrirkomulag á Norðurl. v. og verkstæði á Blönduósi og gæti veitt þessa þjónustu tel ég mjög líklegt að menn mundu freista þess að semja við þetta verkstæði, en auðvitað yrðu að rísa fleiri stöðvar og gera yrði víðar samninga við verkstæði sem gætu veitt þessa þjónustu á Norðurlandi þannig að dæmið sem hann tók af ferðalagi frá Langanesi til Blönduóss er alls ekki raunhæft í þessari mynd.

Þetta eru nú aðalröksemdirnar fyrir því að hér er brotið upp á því nýmæli að stofna um bílaskoðunina félag með þeim sem hafa hagsmuni af öryggi í umferðinni. Ég bendi hv. 2. þm. Norðurl. v. á það að aðild tryggingafélaganna að þessu félagi mundi einmitt geta stuðlað að því að slys yrðu færri og vátryggingariðgjöld lægri. Þess vegna eiga þau hér hagsmunasamleið með Félagi ísl. bifreiðaeigenda, með Félagi bifvélavirkja, með Bílgreinasambandinu, svo að ég nefni þá aðila sem auk tryggingafélaganna hafa tekið þátt í undirbúningi þessa máls. Það er ekki lítils um vert að allir þessir aðilar hafa viljað taka þátt í þessu, m.ö.o. viljað sýna lit á að veita þessa þjónustu. Það hefur mjög oft komið fyrir í málflutningnum hér að menn tala um að veita þessa þjónustu sem næst fólkinu. Vandamálið hefur kannski verið það að þjónustan hefur ekki verið veitt og eftirlitið því e.t.v. gefið falskt öryggi vegna þess að nauðsynlegar prófanir er ekki hægt að framkvæma með þeirri tækni sem eftirlitið býr nú yfir. Hér er því ekki verið að tala um sama hlut. Hér er verið að tala um algjöra nýskipan þessarar framkvæmdar á nauðsynlegu öryggiseftirliti. Þess vegna er lagt til að fara þessa leið til þess að þarna sé gætt fyllsta fjárhagslegs öryggis auk umferðaröryggisins sem er megintilgangurinn. En ég ætla ekki að eyða miklu meiri tíma í þetta. Þetta er vel útskýrt í gögnunum sem fylgja og ég minni á að þetta er vandlega undirbúið mál sem á sér langan aðdraganda, var, eins og hv. 1. þm. Vesturl. lýsti, kynnt fjvn. þegar haustið 1987 og ég varð ekki var við annað en að fjárveitinganefndarmenn tækju þessu máli vel og teldu að skynsamlega væri staðið að fjárhagslegri uppbyggingu þessarar þjónustu. Ég minni hv. þingdeildarmenn á það að hér er ekki eingöngu um það að tefla að spara ríkinu peninga eða fyrirhöfn, hér er ekki síður um það að tefla að spara fólki fyrirhöfn. Ég kem kannski að því dálítið nánar hér á eftir. En látum þetta nægja um félagsstofnunina.

Þá hefur verið spurt um skráningaraðferðina. Hvers vegna er verið að stinga upp á því að hafa einfalt númerakerfi af þessu tagi sem ekki fylgir lögsagnarumdæmum eigandans? Svarið er eins og fyrr. Það er til þess að spara fólki óþarfa fyrirhöfn. Sannleikurinn er sá að margt af því sem framkvæmt er í þessari skráningarstofnun er hreinn óþarfi og ég get tekið um það dæmi hér á eftir.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. þeysti hér upp mikinn móð um það að framkvæmdarvaldið hefði brotið gegn vilja þingsins í því að taka upp skráningarnúmer í skráningarvottorðin sem fylgdu þessu vafasama útlenda kerfi að hafa tvo bókstafi fyrst og þrjá tölustafi svo. Ég tel að það sé ekki nauðsynlegt að sækja um lagaheimild til þess að merkja nóturnar í bókhaldinu; þótt nauðsynlegt sé að hafa bókhaldslög segja þau ekki með hvaða tákni menn skuli merkja. Sannleikurinn er sá að það var farið að gefa bifreiðum fast númer árið 1974. Þá var farið að skrá fastnúmerið í skráningarskírteinin hérna í Reykjavík. Til hvers var það gert? Það var gert í þeim einfalda tilgangi að unnt væri að skrá þetta í tölvur og fylgjast með hverjum bíl því ef númerið er síbreytilegt, fer af einum bíl á annan, er ekki hægt að fylgjast með bílnum eftir númeri í eigendaskráningu, við slys eða í öðrum tilfellum. Þetta er þess vegna, hvað á ég að segja, skráningarnauðsyn og ekki á nokkurn hátt tengt því hvort lagaheimild hafi verið til þess að taka þetta upp.

Á árunum 1974–1980 var smám saman farið að skrá fasta númerið í skráningarskírteinin út um allt land. Þetta er fyrst og fremst hagkvæmnispursmál og er hvergi birt annars staðar en í skráningarvottorðinu en þar hafa hv. þingdeildarmenn getað séð þetta sjálfir öll þessi ár. Ábyrgðarmenn þess arna eru auðvitað stjórnarfarslega þeir dómsmálaráðherrar sem hafa farið með þennan málaflokk á þessum árum, þ.e. Ólafur Jóhannesson, Steingrímur Hermannsson, Friðjón Þórðarson, Vilmundur Gylfason, Jón Helgason og svo síðast sá sem hér stendur sem núna skýrir málið rækilega fyrir þinginu og æskir þess að það verði einfaldlega látið duga að þetta bókhaldsnúmer sé líka auðkenni bílsins framanvert og aftanvert en ekki bara í skráningarvottorðinu því hjá því verður ekki komist að hafa eitthvert auðkenni í skírteini bílsins til þess að tengja saman það sem gerist þegar hann fer frá einum eiganda til annars með því kerfi sem nú er. Það er þess vegna raunverulega röknauðsyn og alls ekki hægt að komast hjá því einfaldlega vegna þess að þegar héraðanúmerið, fasta númerið, sem menn hafa valið sér að láta fylgja persónu sinni sumir hverjir, er fært af einum bíl á annan rofnar þráðurinn. Þetta er nú ekki flóknara en þetta og hefur ekkert með lagastoð að gera. Nú er hins vegar leitað eftir lagaheimild til að hverfa frá lögsagnarumdæmisskráningunni. Ég ætla að reyna að skýra það dálítið með einfaldri sögu úr hversdagslífinu, hvers vegna þetta er skynsamlegur hlutur.

Tökum dæmi. Guðrún Gísladóttir í Kópavogi kaupir bílinn R-80000 af Guðmundi Guðmundssyni sem býr í Reykjavík. Guðrún býr í Kópavogi en Guðmundur í Reykjavík eins og ég sagði. Hún verður að skipta um númer á bílnum enda þótt Guðmundur hafi engan áhuga á því að halda númerinu á sínum bíl. Guðrún umskráir bílinn yfir á t.d. Y-20000, en leggur númerið R-80000 inn hjá eftirlitinu. Fyrir þetta borgar Guðrún umskráningargjald milli umdæma, 1500 kr., eigendaskipti, 1500 kr., númeraspjöld, 1500 kr., samtals 4500 kr. Svo kemur á daginn að Gunnu líkar ekki við bílinn og hún skiptir á honum fyrir nýrri bíl sem Sigríður Sigurðardóttir er að selja. Sigríður vill halda sínu númeri sem er Y-30000 og neitar að selja nema Guðrún sjái um allan umskráningarkostnaðinn. Fyrir þetta borgar Guðrún umskráningu innan umdæmis, sem, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., er nokkuð dýrt, eðlilega að mínum dómi, 4300 kr., eigendaskipti, 1500 kr., umskráningu yfir á hinn bílinn, 4300 kr., eigendaskipti fyrir þann bíl, 1500 kr., samtals 11 600 kr. Sigríður selur bílinn skömmu seinna til Péturs Péturssonar í Reykjavík sem setur aftur á hann númerið R-80000, sem enn var laust hjá eftirlitinu. Fyrir það borgar Pétur 1500 kr. í umskráningu, 1500 í eigendaskipti, 1500 fyrir númeraspjöldin, samtals 4500 kr.

Þarna eru þessir bílaeigendur, sem sumir hverjir höfðu engan áhuga á að halda sínum númerum, búnir að borga 20 600 kr. Þeir hafa líka þurft að vafstra milli tryggingafélaga og upp í Bifreiðaeftirlit til þess að koma þessu öllu í kring. Þetta kostar líka nokkur handtök að skrúfa númer af og á, hugsanlega þarf líka að setja geymslunúmer á milli. Mjög margt af þessum þjónar engum tilgangi, er óþörf athöfn. Þetta er það sem sparast. Þetta er það sem getur sparast hjá Bifreiðaeftirlitinu, allt nema einföld tilkynning um eigendaskiptin sem slegin yrði inn í tölvukerfi eftirlitsins. Númerin haldast á bílnum. Þetta er nú í einföldum orðum sagt ástæðan fyrir því að hér er lagt til að menn hverfi að einföldu, föstu skráningarkerfi fyrir hvern bíl. Það er óþarfi að leggja þetta umstang á fólk og ég er sannfærður um að fjárhæðirnar sem nefndar eru í þessu frv., sem eru þó hvergi hærri en 100 millj. kr., eru vanmat en ekki ofmat á þeim sparnaði sem fylgir þessari einföldu og sjálfsögðu breytingu. Hitt er svo annað mál að auðvitað skilur maður tilfinningar þeirra manna sem leggja átthagaástina á númeraspjöldin sín og breiða hana út yfir allt. Ég hefði þó haldið að hjá flestum höfðaði átthagaástin til annars og meira en blikkplötu á bílnum. En ég vil ekkert gera lítið úr því. Allt hefur þetta gildi og ég lít ekki á þetta sem hégómamál því að það er sko enginn hégómi að leggja þetta vafstur á fólkið sem engan áhuga hefur á því að halda einhverjum föstum númerum á þeim bílum sem það eignast um ævina.

Þetta er í stuttu máli það sem þarf að segja um númerakerfið og ég er sannfærður um að þegar hv. þingdeildarmenn hugsa þetta mál og velta því fyrir sér, hvað það er sem vinnst með því að taka þetta upp og hvað það er sem tapast með því að leggja það gamla héraðaskráningarkerfi af sem hingað til hefur verið við lýði, verður niðurstaðan ljós.

Ég minni líka að endingu á það að á hinum nýju númeraspjöldum verður sérstakur reitur fyrir þá menn sem vilja auðkenna bílinn með sínu héraðsmerki. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að margir munu nota sér það og munu kannski velja að nota þar nákvæmari staðargreiningu en núna fylgir héraðanúmerum. Ég er sannfærður um það að þegar þetta hefur verið gert, eins og svo margt annað sem er þessarar náttúru, skilja menn ekkert í því hvað vafðist fyrir mönnum að vera ekki löngu búnir að koma þessu á.

Í þriðja og síðasta lagi hefur það komið fram í máli nokkurra ræðumanna að þetta mál hafi ekki neinn forgang, þetta hafi ekki verið kynnt sem sérstakt forgangsmál ríkisstjórnarinnar og að þess vegna eigi ekki að ljúka því á þessum annasömu þingdögum. Ég vil um þetta mál upplýsa að það var á forgangslista þeim sem dómsmrn. lagði fram í aprílmánuði og sendi formönnum þingflokka stjórnarflokkanna þann 20. apríl. Þar var mjög skýrt fram sett að þetta væri eitt af þeim málum sem ég teldi að ætti að gefa forgang. Hvers vegna? Svarið er einfalt. Búið þarf margs við. Það þarf líka að sinna því að laga svona hluti sem bæta þjónustuna fyrir fólkið, koma fram markvissum tilraunum til fjárhagslegrar endurskipulagningar í opinberum rekstri, reyna að veita þjónustu þar sem kannski er vafasamt að hún hafi verið fullnægjandi fyrir. Þetta er þess vegna það sem ég hef um það mál að segja og ég vil þess vegna alls ekki draga frv. til baka, en minni á að það hlaut öruggan meiri hluta í hv. Ed. og óska eftir því að umræðunni ljúki sem allra fyrst svo fram geti farið atkvæðagreiðsla um málið.