09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7829 í B-deild Alþingistíðinda. (5965)

360. mál, umferðarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra svaraði nokkuð ræðu minni áðan og var meginniðurstaða í svörum ráðherrans sú að hafna þeim aðaltilmælum mínum að draga frv. til baka og taka meira tóm til þess að athuga það sem ég taldi ekki vera vanþörf á.

Hæstv. ráðherra sagði frv. vera vel undirbúið og að þetta mál og málefni Bifreiðaeftirlitsins hefði verið kynnt fjvn. í haust og ekki væri annað vitað en að því hefði öllu þar verið vel tekið. Hæstv. ráðherra þekkir kannski ekki mikið til starfa í fjvn., og er það auðvitað lítilvægur þáttur þessa máls. En ég get sagt honum það að það er ekki venja þó einhverjar nefndir á vegum framkvæmdarvaldsins komi og kynni sínar hugmyndir fyrir fjvn. að þær séu reknar á dyr með óbótaskömmum eða aðfinnslum. Slíkum greinagerðum er yfirleitt tekið á þann máta sem efni eru til. Það er hlustað á slíkar greinagerðir og síðan gerir nefndin það upp við sig hvort hún tekur eitthvert tillit til þeirra eða ekki sem í tilliti eins og þessu, þar sem um lagabreytingu er að ræða, er ekki efni til fyrir fjvn. að hafa nein sérstök afskipti af.

Hæstv. ráðherra sagði að megintilefni þess að frv. væri flutt væri það að ríkt hefði kyrrstaða í þessum málum. Það hefði verið kyrrstaða í starfsemi Bifreiðaeftirlits ríkisins og þjónustan væri óörugg, eða a.m.k. léki vafi á því að hún skilaði því sem til væri ætlast. Þetta má vel vera. En það er harla lítil vissa fyrir því að einhver sérstök framþróun verði í tækjabúnaði, aðstöðu, byggingum, öryggistækjum, við það að hverfa frá því kerfi sem gilt hefur, þeirri stofnun sem gilt hefur og taka upp nýja stofnun sem heitir hlutafélag. Auðvitað felst engin vissa í því að það feli í sér breytingu í þá átt að allt í einu verði allt fullbúið af öryggistækjum og húsbúnaði og aðstöðu fyrir þessa starfsemi. Það er auðvitað fjármagn sem þarf til þess. Og ef hæstv. ráðherra hefði, sem hann hefur væntanlega, átt innangengt t.d. hjá hæstv. fjmrh. hefði kannski verið hægt að nota þá sérmerktu tekjustofna sem runnið hafa til ríkisins vegna þeirrar starfsemi sem fram fer hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins til þess að bæta þessa aðstöðu, til þess að ná því að búa þetta fyrirtæki þeim öryggistækjum sem hæstv. ráðherra telur að á skorti. Hann telur að líkur séu til þess að ef bifreiðatryggingafélögin koma inn í þessa starfsemi verði allt í einu vel séð fyrir öryggi vegfarenda og þá megi allt í einu gera því skóna að þetta nýja fyrirtæki og sú þjónusta sem það á að veita verði með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt, tækjabúnaður verði í lagi og allt í hinu besta ástandi. Þetta er auðvitað alveg óskylt mál og kemur ekkert þessu máli við, hvaða form er á eignarhaldi á slíkri starfsemi. Það er hvernig þessum málum er stjórnað og hvaða fé er lagt í þessa starfsemi sem ræður því hvort hægt er að veita þá þjónustu sem gera verður kröfur til. Hæstv, ráðherra mundi væntanlega geta beitt áhrifum sínum enn þá meira ef um ríkisfyrirtæki er að ræða en ef um einkafyrirtæki, þ.e. hlutafélag, væri að tefla. Hann hefur það miklu meira í hendi sér sem ráðherra í þessum málum, með hæstv. fjmrh. við hlið sér, að koma því svo fyrir að þessir öryggisþættir málsins verði í lagi.

Vegna orða hæstv. ráðherra um kyrrstöðu í þessum málum, sem ég skal ekkert fullyrða um í sjálfu sér, er rétt að vekja á því athygli að hv. alþm. hefur borist bréf frá Félagi bifreiðaeftirlitsmanna, dags. 28. apríl 1988, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum mánuðum hefur verið vegið illilega að Bifreiðaeftirliti ríkisins með slæmum afleiðingum fyrir stofnunina og ekki síst starfsmenn hennar. Hingað til hefur þessi umræða, sleggjudómar, farið fram í dagblöðum og virðast hafa lekið þangað eftir ýmsum leiðum, bæði trúnaðarupplýsingar og persónulegar skoðanir, árásir ýmsra aðila bæði skyldra og óskyldra.“

Að þessari tilvitnun lokinni er í samantekt, sem hér er gerð og send hefur verið alþingismönnum, eins og þar segir, „á hógværan hátt“ bent á það sem þessir félagsmenn í Félagi bifreiðaeftirlitsmanna telja nauðsynlegt að komi fram. Þar segir m.a. að því hafi verið haldið fram að Bifreiðaeftirlit ríkisins hafi verið rekið með tapi í fjölda ára og að árið 1987 hafi stofnunin í fyrsta sinn verið rekin með hagnaði. Síðan er gerð grein fyrir því að þessu er á allt annan veg farið og að á árunum 1981–1986 hafi tekjur ævinlega verið hærri en gjöld utan einu sinni. Ég rakti áðan hvernig útkoman var á árinu 1986 þegar einungis skráningargjöldin dugðu langdrægt fyrir öllum rekstri Bifreiðaeftirlits ríkisins. Þegar við bættust skoðunargjöld og prófgjöld fóru tekjurnar um 80 millj. kr. fram úr heildarkostnaði við rekstur þessarar stofnunar. Það er því auðvitað hárrétt hjá þessum starfsmönnum Bifreiðaeftirlitsins að þarna hafa tekjurnar í flestum tilvikum verið mun meiri en rekstrargjöldin.

Síðan segja þessir starfsmenn að athyglisvert sé að fjölgun starfsmanna frá árinu 1981 til 1986 sé ekki nema 11% þrátt fyrir stóraukið vinnuálag og að bílaeign landsmanna hafi aukist um 25% og innflutningur á sama tíma um 73%. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu í bílaeign landsmanna og þennan mikla innflutning hafi þó starfsmönnum ekki fjölgað á þessu árabili nema um 11%. Þetta út af fyrir sig er ekki svo vondur dómur um þessa stofnun þó að í þessu komi í sjálfu sér ekkert fram hvernig hún hefur getað sinnt því þjónustuhlutverki sem henni er ætlað og hvernig hún hefur verið búin tækjum og byggingum til að geta sinnt þessu starfi, sem er annað mál.

Hæstv. ráðherra taldi að það væri aldeilis ekki að fara neitt á svig við Alþingi, sem ég gerði að umtalsefni, þar sem segir í grg. með frv. að öll skráningarskyld ökutæki séu nú skráð í tvöföldu númerakerfi þrátt fyrir það að Alþingi hafi hvað eftir annað hafnað þessu svokallaða fastnúmerakerfi. Enda þótt það hafi tíðkast undir yfirstjórn dómsmrh. allt aftur til Ólafs Jóhannessonar, eins og hæstv. núv. dómsmrh. segir - (Dómsmrh.: Og er rétt.) Og er rétt, segir ráðherrann. (Dómsmrh.: M.a. þeirri ríkisstjórn sem hv. 2. þm. Norður. v. átti sæti í.) - afsakar það ekki þá meðferð framkvæmdarvaldsins að taka upp skráningarkerfi, sem Alþingi hefur ítrekað fellt, með þessum hætti og afsakar ekki að vinna slík verk þvert ofan í það að Alþingi hefur hafnað þessu, hvorki stjórnarfarslega né að leggja í þann kostnað sem þessu fylgir.

Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þá ferðasögu bifreiða á milli Kópavogs- og Reykjavíkurumdæma sem hæstv. ráðherra rakti hér áðan. Það er alveg hárrétt að það verður ekki undan því komist eftir núverandi kerfi að ef keyptur er bíll úr öðru umdæmi þá þarf að umskrá hann yfir í hið nýja umdæmi. Þetta kostar 1500 kr. og eigendaskráningin kostar líka 1500 kr.

Ég minnist þess nú ekki hversu langt er síðan tekið var upp að greiða fyrir svokallaða eigendaskráningu en ég hygg að það sé ekki langt síðan. Og ég hygg að það sé uppfinning þeirra reglugerðarsmiða sem gjarnan vilja nota hin ólíklegustu tækifæri til þess að finna færi á að ná tekjum af almenningi. En hitt er rétt að hjá því verður ekki komist eftir núverandi kerfi að umskrá bifreið sem færist á milli umdæma. Hitt er mál kaupenda og seljenda sjálfra, sem innan sama umdæmis versla með bifreið eða annað ökutæki, hvort umskráð er eða ekki. Það er engin þörf á því eftir núverandi kerfi. Ef þessir aðilar vilja halda sínum númerum og vilja umskrá þá er það þeirra mál en eins og fram hefur komið hefur þar heldur betur verið tyllt á kostnaðinn sem er 4500 kr. Og ekki skaðast nú Bifreiðaeftirlitið á því eða ríkissjóður. (Dómsmrh.: En blessað fólkið.) Það er sjálfrátt, hæstv. ráðherra. (Dómsmrh.: Nei, það er ekki sjálfrátt. Það er nóg að annar heimti. Þess vegna er það kerfinu að kenna.) Það er ekki sjálfgefið að það dugi að annar heimti, það er samningsatriði á milli seljenda og kaupenda og það er þeirra mál hvort þessi umskráning fer fram.

Hæstv. ráðherra sagðist ekki ætla að gera það að gamanmálum að sumir menn virtust hér vilja leggja átthagaástina á bílnúmer. Mér fannst falskur tónn í orðum ráðherrans og ég tel ástæðulaust að vera að snúa út úr orðum mínum um það að þetta frv. er eitt dæmi þess að verið sé að má út einkenni héraða í landinu. Þau dæmi eru mörg fleiri og er eitt af þeim atriðum sem verða til þess að ég get ekki stutt þetta frv. og mun að sjálfsögðu sem áður greiða atkvæði gegn þessum tillögum.

Þá sagði hæstv. ráðherra að þetta frv. hefði verið á forgangslista í apríl, eins og hann orðaði það. Ég hef ekki annað fyrir mér í þeim efnum þegar ég sagði að þetta frv. hefði ekki verið á forgangslista ríkisstjórnar að sá forgangslisti sem lesinn var upp í mínum þingflokki hafði ekki þetta mál inni að halda, enda var hæstv. ráðherrum sett fyrir um það að þeir gætu ekki valið sér endalausan lista af forgangsviðfangsefnum, af forgangsfrv. og ég hygg að önnur mál hafi verið þar á undan hjá þessum hæstv. ráðherra sem hafi fyllt hans kvóta þó svo hann hafi kannski kosið að koma ýmsum fleiri frv. fram. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að ljúka þingi á þeim tíma sem nú hefur í raun verið ákveðið og staðið hefur til um alllanga hríð, þá varð hún að takmarka sínar óskir um málafjölda hér á hinu háa Alþingi. Vel má vera að þetta tvennt hafi rekist á í höfði hæstv. ráðherra.

Ég skal ekki að sinni lengja þessa umræðu. Mér þykir miður að hæstv. ráðherra hefur ekki viljað fallast á þau tilmæli mín enn sem komið er, vel má vera að honum snúist hugur, hann muni fallast á þau tilmæli mín að draga þetta mál til baka og a.m.k. fresta því þannig að tóm gefist til þess að athuga það betur, tóm gefist til þess að gefa viðhlítandi skýringar á því sem ég og fleiri hafa hér talað um, og hæstv. ráðherra vinnist tóm til þess að koma með eitthvað trúverðugra um sparnað af hálfu ríkisins heldur en hér hefur komið fram og birtist í þessum gögnum, en þar er á einum stað talað um 20,3 millj., á öðrum stað er talað um 98 millj., í þriðja og fjórða lagi er látið í veðri vaka í fjölmiðlum að það séu 300 millj. o.s.frv. o.s.frv. (Dómsmrh.: Ég hef aldrei gert það.) Ja, einhvers staðar frá er það komið í fjölmiðla. Og hvort sem það hefur komið frá hæstv. ráðherra eða einhverjum hans undirsátum þá er það ekki á mínu færi að skilgreina það. En mér þykir það mjög miður að enn sem komið er hefur hæstv. ráðherra ekki fallist á að draga frv. til baka til þess að hafa tóm til að vinna sig út úr þessari talnaflækju sem hér liggur að baki og sýnilega er allt tóm vitleysa.

Ég hefði einnig kosið að fá ítarlegri grg. um meðferð framkvæmdarvaldsins á þessu máli sem ég óskaði eftir heldur en það sem hér kom fram í máli hæstv. ráðherra en vel má vera að hæstv. ráðherra geti látið slíka skýrslu koma síðar.