09.05.1988
Neðri deild: 98. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7844 í B-deild Alþingistíðinda. (5970)

360. mál, umferðarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hélt nú framan af þessari umræðu að þetta ætluðu aðallega að verða einræður manna á vestanverðu landinu eða vestan við miðju ef svo má segja, frá Norðurl. v. og Vesturlandi, en þeim sem hér hafa haldið uppi andófi gegn þessu frv. hefur tekist að berja okkur þm. Austurl. upp í ræðustólinn og við höfum hlýtt hér á mál hv. 4. þm. Austurl. flutt með skemmtilegum hætti. Það er vissulega svo að ekki höfum við verið sammála um alla hluti hér á Alþingi (SvH: Það kemur nú.) og væri út af fyrir sig ekki seinna vænna ef að líkum lætur, því að mér hefur skilist að hv. þm. ætlaði að hafa stólaskipti allt hvað líður og flytja sig um set.

En ég vil taka það fram, til að vísa til þess sem síðast var sagt og gæti líka vikið að fyrri ræðum, að í meginatriðum er ég sammála hv. 4. þm. Austurl. í sambandi við hans málflutning og rökstuðning varðandi þetta frv. Þó vil ég taka það skýrt fram að ég er nú ekki ákveðnari en svo í andstöðunni við þetta að mig tæki það nokkuð sárt að fara að greiða atkvæði gegn þessu máli til þess að fella frv. hér á þinginu því að viss atriði, sem hér eru lagðar til breytingar á, eru mér alls ekki föst í hendi og ég hef ekki neinar tilfinningar þar að lútandi sjálfur. Þar á ég sérstaklega við ákvæði 2. gr., sem hefur nú hvað mest verið rædd, í sambandi við númerakerfi bifreiða. Mér er þetta ekki fastara í hendi en svo að ég man ekki lengur hvernig ég greiddi atkvæði í þessu máli síðast. Ætli ég hafi ekki greitt atkvæði með breytingu á síðasta þingi, án þess að ég vilji nokkuð fullyrða um það. Það er mér ekki minnisstæðara en svo og get ég þó fullkomlega skilið þau sjónarmið, sem hér hafa verið borin fram af nokkrum í umræðunni í kvöld, að þeir telji að ástæða geti verið til að viðhalda þessum héraða- og byggðasérkennum sem tengjast gömlu númeraskráningunni sem hefur verið í gildi og Alþingi hefur haldið fast við. Ég vil ekki gera lítið úr þeim tilfinningum og viðhorfum og það þurfa að vera nokkur rök, hagkvæmnirök m.a., fyrir því að breyta þar til. Ég hef ekki farið ofan í þær tölur, sem hér fylgja í grg. og fskj. varðandi þetta mál, en ég er ekkert sannfærður um það að sú hagkvæmni, sem þar er sýnt fram á, sé afdráttarlaus og tel að það þyrfti ýmislegt skýrara að liggja fyrir í þeim efnum ef menn ætla að styðjast við talnaleg rök að þessu leyti.

En það sem mig skiptir miklu meira máli og þar sem ég efast mun meira um réttmætið er það sem snýr að formbreytingunni á Bifreiðaeftirliti ríkisins. Breyta á því í hlutafélag sem eigi að annast skoðun og skráningu bifreiða um land allt. Þetta fyrirtæki á að byggja upp með þeim hætti, sem lýst er hér í grg. með frv., að fyrst er byggð stöð hér í Reykjavík upp á 75 millj. kr., eða svo er kostnaðurinn áætlaður. Síðan komi einhverjar stöðvar utan Reykjavíkur og eiga þær að kosta 14,3 millj. Inn er síðan tekin hér brtt., ef ég hef litið rétt til með málinu, í Ed. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fela má hlutafélagi sem ríkissjóður á hlut í að annast skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit, sbr. 1. mgr., enda verði settar upp skoðunarstöðvar í öllum kjördæmum landsins.“ Þetta er heimildarákvæði. Þetta er ekki ákvarðandi. Það má fela hlutafélaginu að annast þetta en þó skilyrt að slíkar stöðvar verði settar upp. Ekkert stendur um það í frv. hvenær það verður. Þessi þáttur finnst mér allt of óljós og of mikilli óvissu háður því að hann lýtur að þjónustunni við fólkið út um landið. Að ætla sér að fela það hlutafélagi þar sem ríkið á að eiga eitthvert smáræði í, og gæta kannski almannahagsmuna sem eignaraðili, en síðan eigi aðrir hluthafar að taka afstöðu til þess út frá einhverjum hagkvæmnisjónarmiðum fyrst og fremst, þetta finnst mér ekki sannfærandi eins og það er fram sett og ég tel að þetta þyrfti að vera miklu skýrar ákveðið í frv. ef ég ætti að greiða fyrir samþykkt þess.

Ég vil taka undir orð þeirra sem hafa hvatt hæstv. ráðherra til þess að hvíla þetta mál til næsta þings og leggja það þá fyrir með skilmerkilegri hætti. Þá er ég sérstaklega með í huga uppbyggingu fyrirtækisins, Bifreiðaeftirlitsins, og það sem snýr að bækistöðvum þess vítt um landið og þjónustuskyldu gagnvart bifreiðaeigendum úti í héruðunum. Einnig vil ég hvetja til þess að athugað verði með gleggri hætti en hér liggur fyrir sú hagkvæmni sem talin er fylgja þessu fastskráningarkerfi, þó að ég ætli ekkert að vera að draga í efa að það séu ýmsir kostir sem geti fylgt slíku kerfi. Ég hef persónulega ekki sérstaka tilfinningu fyrir gamla númerakerfinu og tel ekki að gjalda eigi dýru verði að halda því við. En betra væri þó að það væri unnt því að þeir hafa ákveðið til síns máls sem styðja það kerfi.

Þetta get ég, virðulegur forseti, látið nægja til þess að skýra mína afstöðu til málsins. Ég hef reynt að hlýða hér á rök manna og verið að móta mér skoðun á meðan umræðunni hefur staðið og það er ágætt að fyrir kemur hér á Alþingi að málin skýrist við að heyra þau rædd, jafnvel á kvöldfundum og næturfundum eins og hér standa yfir. En ég ítreka heilræði til hæstv. ráðherra að láta málið hvíla.