09.05.1988
Neðri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7848 í B-deild Alþingistíðinda. (5979)

454. mál, viðskiptabankar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna þeirri stefnubreytingu eða hugmynd sem hæstv. viðskrh. varpaði hér fram. Þetta var reyndar það sem ég stakk upp á í minni ræðu fyrr í umræðunni, þar sem í raun og veru eru í frv. tveir tiltölulega óskyldir hlutir, annars vegar lagfæringar á gildandi bankalöggjöf hvað tæknileg atriði varðar, þ.e. 2.–5. gr., og hins vegar alls óskyldur hlutur og stórpólitískur sem er spurningin um eign útlendinga í íslenska bankakerfinu.

Ég lýsti þegar í byrjun umræðunnar algerri andstöðu við þá stefnu, sem boðuð er í 1. gr. frv., að erlendum bönkum og erlendum fjármálastofnunum verði hleypt inn í íslenska bankakerfið. Ég hygg að hæstv. viðskrh. hafi gert sér grein fyrir því að á þeim knappa tíma, sem ætlaður er til þingstarfa áður en Alþingi lýkur störfum, yrði erfitt um vik að koma svo umdeildu efni í gegn og er það raunsætt og rétt mat hjá hæstv. viðskrh. Ég lýsti mig sammála þeim lagfæringum á bankalöggjöfinni sem felast í 2.–5. gr. og sérstaklega tel ég þarft að setja ákvæði af því tagi sem 2. gr. fjallar um og þarf ég í rauninni engu frekar við það að bæta. Það getur líka út af fyrir sig verið rétt hjá hæstv. viðskrh. að eðlilegra sé að ræða hlutafjáreign eða eign útlendinga í bankakerfinu í samhengi við almennar reglur eða almenn ákvæði um þátttöku erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi, hvort sem um er að ræða banka eða einhverja aðra starfsemi. Og vel má bíða þeirrar glímu að ræða þennan hlut.

Ég fagna því líka af öðrum ástæðum, herra forseti, að ákvæðið fari út úr frv., ef það heldur áfram hér í gegnum þingið, en þær ástæður eru heilsufar hæstv. ríkisstjórnar. Það er aldrei að vita nema hún hrökkvi upp af standinum og þetta leiða og stórhættulega ákvæði falli algerlega út og nái aldrei fram að ganga því að mynduð verði miklu betri og gáfulegri ríkisstjórn sem taki við forustunni um lagasetningu og að hennar hugmyndir um erlent fjármagn verði þá aðrar og mér geðþekkari og ég ætla að segja, herra forseti, að ég er tilbúinn til þess, fyrir mitt leyti og sem nefndarmaður í fjh.- og viðskn., að skoða þetta frv. komi það til nefndarinnar. Og þá með það í huga að fella niður ákvæði 1. gr. og láta á það reyna hvort samstaða gæti tekist um að afgreiða þau leiðréttingarákvæði sem þar eru að öðru leyti. Ég tel það stórlega til bóta, og út af fyrir sig teldi ég ástæðu til, þó ekki næðist samstaða um neitt annað, að samþykkja ákvæði 2. gr. og láta þau ákvæði fara hér flýtiferð í gegnum þingið, því ég hygg að allir hv. þm. minnist reynslunnar frá þeirri umræðu sem varð um hið íslenska bankakerfi í tengslum við hið fræga Hafskips- og Útvegsbankamál og ætti mönnum að vera næg lexía til þess að drífa í gegn ákvæði af því tagi sem 2. gr. fjallar um.